15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 816 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Fyrst við erum komnir út í hugleiðingar um gjafir, vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort ríkissjóður gefi viðhald veganna, ef frv. nær samþykki. sé ég ekki mun á framlagi ríkissjóðs til vega, hvort sem það er tekið sem bifreiðaskattur eða öðruvísi.

Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði uppgötvað, að það er landsfólkið, sem borgar vegina. Held ég, að það sé einmitt hæstv. ráðh., sem nú hefir loksins uppgötvað þetta. Vitanlega verður landsfólkið að borga fyrir ríkissjóð. En það er ranglátt að láta þá borga, sem minnst eiga, en ekki hina þetta frv. leggur toll á nauðsynjar fólksins án tillits til efnahags. Þessi tollur hækkar verð mjólkur, sem hingað flytzt austan um fjall. Hann hækkar verð á þungavöru úti um landið og gerir fiskflutning hér dýrari. Hæstv. ráðh. segir nú, að það sé ekki svoleiðis verðhækkun, sem leiði út úr kreppunni, og er ég honum þar alveg sammála. En hvaða verðhækkun þá? Þessi leið til að afla ríkissjóði tekna er bæði ranglát og heimskuleg. Hæstv. ráðh. sagði, að benzínverð héldist oft óbreytt í löndum, har sem benzínskattur væri mishár. Gaf hann í skyn, að olíuverzlanir hér ættu að taka á sig benzínskatt, til þess að verð gæti haldizt óbreytt. Það væri ágætt, ef olíuverzlanir vildu gera þetta, en það hefði hann átt að vera búinn að athuga, áður en hann bar fram frv., og tryggja sér, að olíufélögin greiði sjálf skattinn.

Hæstv. ráðh. vék því næst að kreppunni. Ég hygg, að hvað sem hæstv. ráðh. segir um þetta, þá sé þó næst honum að vera mér sammála. Hann sagði, að benzínskattarnir í útlöndum hefðu ekki megnað að bæta úr kreppunni þar, og má virða þá játningu við hann.

Hann endurtók, að eina ráðið við kreppunni væri það, að vöruverð hækkaði og framleiðslukostnaður minnkaði. Hann sagði ennfremur, að ef vöruverð kæmist í sama horf og 1929, væri engin kreppa lengur þetta eru nú ærið loftkenndar fullyrðingar, ef ekki eru jafnframt gerðar stórfeldar ráðstafanir aðrar. Hvað myndi nú leiða af þessari kenningu hæstv. ráðh. um minnkaðan framleiðslukostnað og hækkað verðlag? Ég spurði hann, hvort hann ætti við kaupið, þegar hann talaði um framleiðslukostnað. Hann svaraði mér svo, að kaupið væri þar á meðal. En ég hygg, að auðvelt sé að sýna fram á, að framleiðslukostnaður sá, sem hæstv. ráðh. er að tala um að þurfi að lækka, sé ekkert annað en kaupið. Ráðh. segir, að vöruverð þurfi að hækka. Allar vörur, sem þarf til framleiðslunnar, þurfa að hækka: olía benzín, kol, salt, byggingarefni, áburður og allar lífsnauðsynjar. Hvað er þá eftir af framleiðslukostnaðinum, sem getur lækkað, nema kaupið? Afleiðingin verður auðvitað ekki annað en aukin bölvun kreppunnar. Kaupgeta minnkar og vörur hrúgast upp þetta eru bjargráð hæstv. ráðherra.