15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 498 í C-deild Alþingistíðinda. (3448)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Magnús Guðmundsson:

Það er svo langt liðið síðan fyrri hl. umr. þessarar fór fram, að ég er nærri búinn að gleyma, hvað ég ætlaði að segja. En það, sem verið var að ræða um sérstaklega, er sú skylda, sem hv. flm. ætlast til, að lögð verði á bú Síldareinkasölunnar um að greiða söltunarlaun þeirra manna, sem unnið hafa að síldarsöltun vegna einkasölunnar. Það, sem ég vil fá skýrt og greinilega upplýst, er það, hvort hér sé um að ræða menn, sem skoðast megi að hafi verið ráðnir starfsmenn Síldareinkasölunnar, eða ekki. Mér finnst hæpið, að þeir menn geti talizt starfsmenn einkasölunnar, sem t. d. hafa unnið hjá manni, sem fengið hefir leyfi til síldarsöltunar hjá Síldareinkasölunni. Slíkir menn geta ekki, að mínu viti, átt neinar kröfur á Síldareinkasöluna. En séu þeir starfsmenn hennar, skilst mér að þeir eigi forgangskröfu um launagreiðslu úr búi einkasölunnar.

Ef menn, sem að lögum eru ekki starfsmenn einkasölunnar, eru samt sem áður gerðir jafnréttháir starfsmönnum hennar, þá er með þessu farið inn á víðara svið en ætlazt er til með skiptalögunum. — En sem sagt, ég vænti skýrari yfirlýsingar um þetta og tel ófært að hrapa að því að samþ. frv. og þar með fella úrskurð um atriði, sem ekki er vitað um, hvernig liggur í.