15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3449)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Það er eins og hv. 2. þm. Skagf. sagði, langt um liðið síðan umr. þessa máls var frestað, enda kom það í ljós af ræðu hans, því að annaðhvort hefir hann ekki tekið eftir því, sem ég sagði í síðari ræðu minni, er málið var hér til umr., eða hann hefir gleymt því.

Frv. ber ekki með sér, að þær greiðslur, sem farið er fram á, byggist á forgangskröfu, því að ef um það væri að ræða, þyrfti ekkert lagaboð um slíka greiðslu. Eins og ég tók fram við fyrri hl. þessarar umr., er hér um sanngirniskröfu að ræða, af því að gengið hefir verið á rétt síldarsaltenda, sem áttu heimting á, að verkunarlaun við síldarsöltun á vegum einkasölunnar yrðu greidd, áður en nokkuð var greitt út á síldina sjálfa.

Viðvíkjandi upphæðinni skýrði ég frá á dögunum, að hún mundi nema sem næst 210 þús. kr. En nú hefi ég spurzt fyrir um þetta af nýju og fengið þær upplýsingar hjá skilanefnd, að til frádráttar komi allmiklar kröfur á síldarsaltendur. Hve miklu þær kröfur nema, er ekki vitað með vissu enn, en þó er gert ráð fyrir, að þessi frádráttur muni skipta tugum þúsunda. Þetta atriði og fleira í því sambandi er ekki nægilega upplýst enn.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri, en vil endurtaka þau tilmæli mín, að málið fái að ganga til 2. umr. og verði vísað til hv. sjútvn.