15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 499 í C-deild Alþingistíðinda. (3450)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Haraldur Guðmundsson:

Ég tel sjálfsagt, að frv. þetta fari í öllu falli til 2. umr. og nefndar. En ég vil vekja athygli á því nú þegar við 1. umr., að mér finnst vel til fallið, að hv. sjúvn. kynni sér rækilega hjá skilanefnd öll þau gögn, er sýni, að hve miklu leyti skemmdir hafi orðið á saltaði síld í sumar og hvort þeir saltendur, sem skemmzt hefir hjá, eigi ógreiddar kröfur á einkasöluna. Hv. flm. var að impra á, að skilanefnd teldi sig hafa kröfur á hendur nokkrum saltendum vegna síldarskemmda. Þetta verður að rannsaka til hlítar og hv. sjútvn. verður að sjá um að svo verði gert.

Annars vil ég benda á, að svo virðist vera, sem síldarsöltuninni hafi verið fyrir komið með mismunandi hætti í hinum ýmsu landsfjórðungum. Á Austurlandi voru engin söltunarlaun greidd af einkasölunni á þeirri síld; er hún leyfði að salta. Útgerðarmenn söltuðu sjálfir, en fengu svo ábyrgð Síldareinkasölunnar fyrir upphæð út á hverja tunnu, sem svaraði söltunarlaunum. Ef gengið er út frá, að Síldareinkasölunni sé skylt að greiða söltunarlaun á Norðurlandi, þá hlýtur það sama að eiga að gilda um Austurland, þó að útgerðarmenn hafi þar sjálfir séð um söltunina. Þetta vil ég mælast til, að hv. sjútvn. athugi og kynni sér mjög rækilega.