15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (3451)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Mér þætti næsta undarlegt, ef þessu frv. væri ekki leyft að fara til 2. umr. og nefndar. Það stendur nú svo fyrir mér, að um samninga hafi verið að ræða á milli einkasölunnar og saltenda. Á Vesturlandi er maður, sem saltaði allmikið af síld síðastl. sumar, og hann vissi ekki betur en að hann væri að gera það fyrir Síldareinkasöluna. En hann hefir ekkert fengið fyrir starf sitt, og ekki heldur það, sem hann hefir lagt út úr eigin vasa. Þegar menn vinna slíkt fyrir síldarútveginn í heild, þá er hart, að þeir fái ekki endurgreitt útlagt verkakaup til verkafólks. Aftur á móti er mér kunnugt um, að sumir síldarsaltendur hafa fengið fullnaðargreiðslu hjá einkasölunni, og er það ekki nema eðlilegt, því að það er ekki svo, að þessir menn hafi grætt á sinni vinnu. Svo er það vitanlegt, að Síldareinkasalan setti hámarksverð á söltunarlaun á hverjum stað, sem svo var sniðið við hóf, að þeir menn, sem lánuðu bæði bryggjur og söltunarstöðvar, hefðu lítið fengið fyrir það, þó að allt hefði verið greitt eins og til stóð samkv. samningum.