15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (3453)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Flm. (Guðbrandur Ísberg):

Mér þótti kynleg. sú yfirlýsing hv. 1. þm. S.-M., að þetta frv. ætti ekkert erindi til nefndar, samtímis því, sem hann lýsir þeim afarkostum, sem síldarsaltendur austanlands hafi orðið að sæta síðastl. sumar. Þetta frv. á að ná til allra síldarsaltenda, hvar sem er á landinu, og þá auðvitað einnig til Austfjarða, og bæta úr þeim órétti, sem þeir og aðrir síldarsaltendur hafa verið beittir. Í sjútvn. er einmitt hægt og skylt að taka til nánari athugunar aðstöðu þeirra síldarsaltenda á Austurlandi, sem að sögn hv. þm. hafa orðið harðast úti, sem ég og geri ráð fyrir, að rétt muni vera. Gæti n. þá breytt frv. í það horf, er rétt þætti með tilliti til Austfirðinganna, og ætti hv. þm. S.-M. að verða allra manna síðastur til að sporna við því, að frv. fari til n. Vil ég svo vona, að hv. 1. þm. S.-M., að fenginni þessari skýringu styðji að því, að frv. gangi til 2. umr. og n.