15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (3469)

368. mál, skiptalög

Magnús Guðmundsson:

Ég get ekki betur séð en að þetta frv. sé algerlega óþarft. Á því er enginn vafi, að símagjöldin falla undir 83. gr. skiptalaganna. Þar stendur, að skattar og gjöld til ríkissjóðs hafi forgangsrétt í dánarbúum, og hið sama er um þrotabú. Ég sé ekki betur en að símagjöld og útvarpsgjöld heyri þar undir. Ef setja á inn í lögin ákvæði um, að einhver sérstök gjöld, sem upp eru talin, hafi forgangsrétt, þá gæti það litið þannig út, að önnur gjöld til ríkissjóðs eða ríkisstofnana heyrðu ekki undir þessa gr. og hefðu þess vegna ekki þennan forgangsrétt, sem gert er ráð fyrir í 83. gr. skiptalaganna.

Ég vil skora á hv. samgmn. að athuga þetta mál betur, og ég held, að það bezta, sem hún gæti gert fyrir málið, væri að taka þetta frv. aftur. Þessi úrskurður eins skiptaráðanda, sem virðist vera tilefni þessa frv., virðist mér ótvírætt rangur: Það er margsinnis búið að úrskurða upp þessi efni hér í Reykjavík við meðferð þrotabúa á þá leið, að símagjöld hafi forgangsrétt. Þó að það komi fyrir, að gagnstæður úrskurður falli hjá einhverjum skiptaráðanda, þá sannar það ekki neitt um réttan skilning þessa lagaboðs, og þetta frv. bætir ekkert úr því. Við slíkan úrskurð er ekkert annað að gera en áfrýja honum til hæstaréttar, ef það þykir þá borga sig, en um það er mér alveg ókunnugt. Ég álít, að það væri nóg, að stjórnin gæfi út umburðarbréf um þá venju, sem er mynduð í þessu, því að ég er þess fullviss, að það er deilulaus venja hér í bænum að telja símagjöld forgangsskuld.