19.03.1932
Neðri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (347)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég hreyfði nokkrum andmælum gegn þessu frv. við 2. umr. Þá lágu fyrir brtt. frá hv. meiri hl. fjhn., og lýsti ég því yfir fyrir hönd okkar jafnaðarmanna, að við mundum greiða atkv. með þeim brtt., nema einni. En þó að þessar brtt. yrðu samþ., þá mundum við ekki greiða atkv. með frv. Nú gerðust þau tíðindi við 2. umr., að hv. flm. brtt. tók þær aftur. Við jafnaðarmenn leyfum okkur því að taka þær hér upp aftur og flytja þær sem skriflegar brtt. nú við þessa umr. Vænti ég, að hæstv. forseti og hv. þd. heimili afbrigði frá þingsköhum, þannig að brtt. megi koma hér til atkv. — Eftir þessum brtt. á skatturinn að lækka um helming. Samkv. a-lið brtt. við 1. gr. frv. er ætlazt til, að skatturinn verði 2 aur. af hverjum benzínlítra, í stað 4 aura í frv.; og samkv. b-Iið 1. gr. er í brtt. ætlazt til, að innflutningsgjaldið verði 50 aur. á kg. af hjólabörðum og gúmmislöngum, í stað þess að í frv. er það 1 kr. af kg. En c-lið í brtt. hv. 4. þm. Reykv. við 1. gr. frv., um sérstakan þungaskatt á vöruflutningabifreiðum, hofum við ekki tekið upp.

Ennfremur er lagt til samkv. þessum brtt., að tekjum af skattinum skuli varið nokkuð á annan veg en frv. gerir ráð fyrir. Ætlazt er til, að þungaskatti af bifreiðum skuli varið til aðgerða á götum í bæjum eða lögsagnarumdæmum, þar sem bifreiðarnar eiga heima eða eru skrásettar.

Svo afhendi ég hæstv. forseta þessar brtt., og vænti, að hv. þd. veiti afbrigði til þess að þær megi koma til atkv.