15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í C-deild Alþingistíðinda. (3470)

368. mál, skiptalög

Einar Arnórsson:

Hv. 2. þm. Skagf. hefir nú tekið fram það, sem ég ætlaði að segja, og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það, en get aðeins staðfest það með honum, að öll gjöld til ríkissjóðs, sem eigi eru sérstaklega veðtryggð og eigi eldri en skiptalögin segja, koma undir 83. gr. b. 3. lið skiptalaganna. Það er villandi, að taka sérstaklega fram um forgangskröfurétt á símagjöldum, því að þá kæmi til álita að álykta gagnstætt um hin, sem eigi eru nefnd þar, að þau hefðu ekki forgangsrétt. Mætti því ekki nema þar staðar viðsímagjöld, heldur yrði að telja upp alla romsuna af opinberum gjöldum, og bæta við t.d. erfðafjárgjaldi, vitagjaldi o. s. frv. Það er auðskilið mál, að ef tekið er aðeins eitt af þessum gjöldum, þá mundi það gera skiptaráðendur óvissa, því að þeir hefðu þá ástæðu til að halda, að einungis það, sem nefnt er, ætti forgangsrétt, en hitt, sem ekki er nefnt, kæmi þar eigi til greina. Það er mjög óheppilegt að gefa tilefni til þess. — Ég hefi kynnzt þrotabúaskiputm hér í Reykjavík og man ekki betur en að símagjöld hafi verið greidd eftir 83. gr. b. 3. lið skiptalaganna. Ég get því hugsað mér, að þetta frv. mundi valda misskilningi, ef að lögum yrði. Hin eina breyting, sem ég gæti hugsað mér, að ekki þyrfti að leiða til hins verra. Væri það að nefna einstök gjöld sem dæmi þeirra, er hafa forgangsrétt, þ. a. m. símagjöld. En að taka einhvern gjaldaflokk út af fyrir sig, yrði aðeins til þess að villa þá, sem eiga að framkvæma skiptalögin.

Að því er afnotagjald til útvarpsins snertir, þá gildir vitanlega hið sama um þau og önnur gjöld til ríkissjóðs, á meðan ríkið rekur útvarpið. Á því er enginn vafi. Ég held, að hv. flytjendur þessa frv. geti tekið það til baka að skaðlausu, en vilji þeir það ekki, þá mætti breyta orðalagi á 1. gr., þannig að símagjöld væru aðeins nefnd sem dæmi.