29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (3492)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Það verða aðeins örfá orð, því hv. þm. S.-Þ. hefir rækilega áréttað það, sem ég sagði í upphafi, að heppilegra væri að fá málið frekar athugað og betur grundvallað, með því að vísa því til héraðsstjórnanna. Hv. 1. þm. Eyf. vildi gera lítið úr því, en eins og ég benti á áður, þá er alveg sérstök ástæða til að vísa þessu máli þangað, því frá öndverðu hafa héraðsstj. haft með höndum alla skipun og framkvæmd fjallskilamála. Það er sérstaklega óráðlegt að ganga framhjá þekkingu og reynslu héraðsstj. sem hafa aflað sér aldalangrar reynslu í þessum málum. Það er alveg rétt, að það má búast við misjöfnum till. En það er eðlilega höfuðkostur, að geta sniðið lögin sem bezt eftir breytilegum staðháttum hinna ýmsu héraða. Það er ákveðið, að frv. komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir nokkur ár hvort sem er, og þá er bezt að nota frestinn til að fá sem beztan grundvöll undir lagasetninguna, og út á það gengur dagskrá okkar minni hl. Ég hygg, að sú hætta, að sýslufélögin prenti upp markaskrár sínar rétt áður en lög yrðu sett um þetta efni, sé ekki til staðar, því þegar vitað er, að það liggur í loftinu að setja löggjöf um þetta efni, þá mun því sjálfsagt verða frestað með hliðsjón af því.

Það er ástæðulaust að ætla, að sýslunefndirnar taki það ekki alvarlega, þegar þeim eru send mál til umsagnar. Ég er ekki í vafa um, að það er hyggilegasta aðferðin við afgreiðslu þessa máls að fá umsögn héraðsstj. og það er með öllu ástæðulaust að ætla, að þær leggi ekki fulla rækt við athugun þessa máls, enda skiptir það miklu fyrir héruðin, hversu tekst til með þessa lagasmíð. Á þennan hátt fæst beztur grundvöllur undir það að sníða þessa löggjöf eftir hinum mismunandi staðháttum í landinu.