29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 529 í C-deild Alþingistíðinda. (3494)

71. mál, sauðfjármörk

Ingólfur Bjarnarson:

Hv. 1. þm. Eyf. hefir tekið það mjög óstinnt upp, að ég taldi hann hafa lítið gert úr væntanlegum till. frá sýslunefndunum um þetta mál. En ég þykist hafa haft fyllstu ástæðu til þeirra ummæla. Ég hafði stutt þá till., sem fyrir liggur um að skjóta málinu til sýslunefndanna til umsagnar og álits áður en því yrði ráðið til lykta hér á Alþ. En hv. þm. réðist hart á móti þeirri till. og sagði í því sambandi, að þó málið væri lagt undir 20 sýslunefndir, gæti hann eigi búizt við þeim vísdómi frá þeim, sem fengur væri í fyrir málið, og lagði eindregið til, að frv. væri samþ. eins og það liggur fyrir nú. Þetta virðist mér sannarlega benda á að hv. þm. telji sitt verk í þessu frv. meira virði en hann getur vænzt, að komi fram frá sýslunefndunum.

Nú segir hv. þm., að hann geri að sjálfsögðu ráð fyrir því, að nokkurn undirbúningstíma muni ætíð þurfa frá því að lögin eru staðfest og þangað til þau ganga í gildi. Vil ég benda á, að þessi skoðun er ný hjá hv. þm., því þegar hann leggur frv. fyrir, telur hann rétt og leggur til, að lögin gangi í gildi þegar í stað. Og ég vil halda því fram, að ef leitað væri till. sýslunefnda áður en gengið er til fulls frá þessum markalögum og tekið, eftir því sem henta þætti, tillit til framkominna bendinga, mundi auðvelt að láta lögin þá þegar koma til framkvæmda, betur úr garði gerð en nú.

Að sýslunefndir muni haga prentun markabóka sinna eftir þessu frv., ef að lögum yrði, þar til þau kæmu til framkvæmda, tel ég mjög hæpið. T. d. er það lögákveðið víða, með reglugerðum, nær markabækur skuli prentaðar, og tel ég líklegt, að þeim ákvæðum verði að fylgja, þangað til lagaákvæðin kæmu til framkvæmda.

Ég veit vel, að bæði ég og aðrir hv. þm. hafa rétt til að koma fram með brtt. við þetta frv. En af því, að ég fyrir mitt leyti tel mig ekki hafa jafngóða aðstöðu eða þekkingu á málinu eins og viðkomandi héraðsstjórnir mundu hafa, vil ég miklu heldur fara þá leið að bera málið undir þær, áður en því er ráðið til fullnaðar lykta. Ég vil því eindregið styðja hina rökst. dagskrá. Eins og ég benti á, þá er nauðsynlegt að vanda þetta mál sem bezt. Það er almenningi mjög viðkvæmt. Og þar sem sýslunefndir hafa um langt skeið haft á hendi alla skipun þessara mála, er réttmætt og sjálfsagt, að þær fái að gefa sínar bendingar, áður en gengið er til fulls frá framtíðarskipulagi þeirra.