29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í C-deild Alþingistíðinda. (3496)

71. mál, sauðfjármörk

Jörundur Brynjólfsson:

Það er þegar búið að ræða þetta mál talsvert, svo ég get farið fljótt yfir sögu. Ég get reyndar játað, að það kann að vera svo að ekki beri mikið á milli nefndarhlutanna. Þó sakna ég þess mjög hjá hv. frsm. minni hl., hvernig hann hefir orðað dagskrá sína. Þar segir, að vegna þess, hvers eðlis málið sé, þá sé rétt að bera það undir héraðsstjórnir. Af þeim sökum tekur d. fyrir næsta mál á dagskrá. En þar er engin áskorun til stj. um að framkvæma þetta verk, né heldur, að þessum upplýsingum fengnum, að leggja málið fyrir þingið. Dagskráin er að þessu leyti mjög óheppileg. Ég býst að vísu við, að stj. láti sér nægja, ef hv. frsm. lýsir yfir því, að þetta sé meiningin. Annars mun ég bera fram brtt. við dagskrána, svo þetta komi ljóslega fram.

Ég mun ekki fara langt út í umr. um þetta mál. Mér hefir þó virzt sumum hv. þm. finnast þetta mál einkar lítils virði. Einkum hefir þess gætt hjá hv. þm. V.Sk. Ég minnist þess, að fyrir tveimur árum lá hér fyrir þinginu frv. til l. um refaeldi og eyðingu þeirra. Þá lét þessi hv. þm. til sín heyra og taldi það mál harla lítils virði. Afgreiðsla þess máls varð miður heppileg. Hv. þm. V.-Sk. taldi, að V.-Skaftafellssýslu kæmi málið lítið við. En svo heilsuðu tófurnar upp á V.- Skaftafellssýslu næsta sumar. Er það óviðfelldið, þótt þm. telji einhver mál ekki snerta sitt hérað, að þeir séu tómlátir um þau, er þau varða heill landsins í heild. Verða þeir að setja sig í spor þeirra manna, er kemur málið meir við, en ekki að vera eins og indverskir fakírar, sem líta á naflann á sér, en hafa svo ekki víðari sjóndeildarhring. Mál geta verið mikilsverð, þótt þau snerti aðeins sum byggðarlög. Áður en hv. þm. kemur með fleiri fullyrðingar, ræð ég honum til þess að kynna sér gildandi lagastafi. Eru til ófullkomin l. um þessi efni, ákvæði Jónsbókar, sem nú eru reyndar orðin mjög úrelt. Hvernig ástatt er um þessi mál víða um landið, sest af því, að sýslunefndir hafa þau ekki á valdi sínu, hafa ekki úrskurðarvaldið um þau. Er ekkert, sem bannar manni að hafa hvaða mark, sem honum sýnist. Sýslunefndir reyna að koma í veg fyrir sammerkingar, en þó aukast þær stöðugt, og kemur það því meira í bága, sem vötn eru betur brúuð og fé fjölgar. Væri gaman að heyra álit Húnvetninga, Skagfirðinga, Árnesinga, Borgfirðinga og G.-K.-búa, því að þetta eru allt stór samgöngusvæði og mjög erfitt fyrir sýslur að útkljá slík mál, þar sem ekkert er til að halda sér við. Það er ekkert því til fyrirstöðu, að maður í Borgarfirði taki t. d. upp mark mitt. Þetta sýna markaskrárnar. Eftir síðustu markaskrá hefir maður í Mýrasýslu tekið upp mark manns í Árnessýslu, sem á talsvert fé, og hefir fé gengið saman milli þessara héraða. Efast ég ekki um, að allar sýslur vilji koma í veg fyrir þetta, en þær geta það ekki. Ég man eftir því frá umr. á síðasta vetrarþingi, að hv. 2. þm. Skagf., sem nú situr ekki á þingi, viðurkenndi, að hin mesta nauðsyn væri á því, að hér yrði ráðin bót á.

Um undirbúning málsins er það að segja, að það skiptir að vísu ekki miklu máli, hvort það gengur fram einu eða tveim árum fyrr eða síðar. Aðalatriðið er, að það komist fram. Get ég vel sætt mig við þá niðurstöðu, að leitað verði álits héraðsstjórna, ef menn leggja mikið kapp á það.

Hjá hv. frsm. minni hl. og hv. þm. S.-Þ. kom það fram, að agnúar væru á frv. Játa ég, að það geti verið, að okkur hafi yfirsézt um ýms atriði. En fyrst hægt er að fullyrða, að málið sé illa undirbúið, sakna ég þess, að þeir hafa ekki hent á neitt atriði, þar sem undirbúningi er áfátt. Væri þó mikils um vert, að bent væri á það, hverskonar ákvæði vantar og hverju þyrfti að breyta eða fella niður. En ennþá hefir ekki verið að því vikið. Á síðasta þingi, þegar málið var til meðferðar, var bent á það, að betra væri að hafa marga markadóma fyrir landið, en ekki einn. Vil ég ekki staðhæfa, að bezt sé að hafa markadóminn ekki nema einn. Skal ég nefna dæmi: Stærstu samgöngusvæði hér á landi held ég sé afréttur þeirra Biskupsungnamanna og Austur-Húnvetninga. Það samgöngusvæði. nær yfir Árnessýslu, Rangárvallasýslu, G.-Kjósarsýslu, Borgarfjarðar- og Mýrasýslu, Húnavatnssýslu og Skagafjarðarsýslu. Get ég ekki skilið, hvernig unnt er að útkljá, hverjir rétt hafi til marka og að koma í veg fyrir sammerkingar og námerkingar, nema einn dómur sé fyrir öll þessi héruð. En þótt þetta sé eitt aðalsamgangnasvæðið, þá taka aðrar sýslur við á jöðrunum, svo sem Eyjafjarðarsýsla, Stranda- og Dalasýsla og Snæfellsnessýsla. Svona bindur þetta hvað annað. Það skyldi þá helzt vera Austurland, á samt austurhluta Norðurlands, sem hefði einhverja sérstöðu, því að litlar líkur eru til þess, að fé gangi yfir Skeiðarársand. En aftur er meiri samgönguhætta milli Þingeyjarsýslna og Austurlands. Get ég tekið undir það, að æskilegt sé, að þetta mál sé sem bezt undirbúið, eins og öll önnur mál. En hinu mótmæli ég, að héraðsstjórnir geti upp á sitt eindæmi ráðið fram úr þessu. Það voru einu sinni gefin út lög um þessi efni, er áttu að vera allsherjarlög fyrir allt landið, eins og sjá má í Jónsbók. Reglugerðarákvæðin, er sett hafa verið um þessi efni, eru ekki fullkomnari en það, að einstaklingar eru eftir sem áður sjálfráðir um mörk sín. Að banna það hefir vist enga stoð í lögum. Það er hægt að meina mönnum að hafa mörk sín í markaskrá, en ekki er hægt að banna þeim að hafa hvaða mark sem er. Þetta sýnir sig í framkvæmdinni.

Einhver hv. þm. sagði áðan, að ekki ætti að vera að setja lög um þetta. Væri það bezt eins og nú er. Vilji menn vera meinsmenn fjölda manna hér á landi, þá er réttast að breyta eftir þessu. Reynslan er þessi, að alltaf hafa verið að aukast vandræðin um þetta efni, og að sama brunni ber þá þekkingu, sem sveitar- og héraðsstjórnir hafa aflað sér hér um. Er gott að njóta slíkrar þekkingar um þessa meinbugi, ef menn trúa því, að á skorti um undirbúning málsins. Ætla ég, að ekki þurfi frekar að víkja að þessu.

Hafi ég skilið meiningu hv. minni hl. rétt, að hann vilji greiða fyrir málinu, þá get ég ekki gert mikið úr því, að hér beri stórt á milli. Er ég ekki óánægður með afgreiðsluna, ef það er vilji minni hl., að málið sé sem bezt undirbúið. En það er aðalatriðið, að lög séu sett um þetta. Get ég sem flm. verið undirtektum hv. landbn. þakklátur. Þótt ég teldi það heppilegra að fara eftir till. meiri hl. og hafi mikla trú á því, að hans lausn sé betri, þá geri ég ekki mikið úr því, að ekki megi eins fara eftir till. minni hl. En ég vil andmæla þeirri skoðun, sem hér hefir komið fram, að málið sé ekki mikilsvert. Reynslan staðfestir það, að sýslunefndir skortir vald til að bæta úr annmörkunum. Eru erfiðleikarnir alltaf að aukast.

Hv. þm. S.-Þ. bjóst við því, að sýslunefndir myndu láta prenta markaskrár samkvæmt gildandi reglum, þegar tími væri til þess kominn. Held ég, að þær myndu fresta prentuninni í 1 eða 2 ár enn, ef þær vissu, að lög um þetta ættu að ganga í gildi. Get ég upplýst það, að prentun á markaskrá S.-Þ. fór fram á síðastl. sumri.