29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 535 í C-deild Alþingistíðinda. (3497)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég verð að segja það, að mér þótti ekki lítill munur á því, hvernig hv. 1. þm. Árn., sem er einn flm. málsins, tók á till. minni hl. landbn., og því, hvernig hv. l. þm. Eyf., sem líka er flm., tók í þær. Hv. 1. þm. Eyf. snerist á móti till. okkar um að fresta málinu til betri undirbúnings. En hv. 1. þm. Árn. viðurkenndi þó, að það skorti á undirbúninginn og að frv. tæki ekki nóg tillit til misjafnra staðhátta á landinu. Fellst hann á það hjá okkur, að rétt væri að leita frekari upplýsinga um málið.

Honum þykir vanta alvöru hjá minni hl. Segir hann, að í till. okkar felist ekki áskorun til ríkisstj. um það að bera þetta undir héraðsstjórnir. En þegar hv. þm. ber þetta saman við nál. okkar, þar sem segir, að mikil þörf sé á því að setja betra skipulag á markamálin, þá skil ég ekki, að hann geti efast um, að okkur sé alvara. Okkur þykir vanta betri upplýsingar, og hér viljum við fá með því að skjóta málinu til héraðsstjórna. Hélt ég, að þetta kæmi ljóst fram í dagskránni. Við gerum ekki ráð fyrir því, að skipuð verði mþn. í þetta mál, því að það er ekki ofverk hæstv. stj. að vinna úr þeim till., sem frá héraðsstjórnum kæmu. Hv. þm. þykir e. t. v. skorta, að ekki skuli skipuð að nýju mþn. í þetta mál. Hélt ég, að það kæmi skýrt fram, að tilgangur okkar með því að vilja ekki samþ. frv. nú, er sá einn, að safna gögnum í málinu. Þykir mér vænt um, að hv. 1. þm. Árn. hefir fallizt á rétta, og vona ég, að það verði ofan á í hv. deild að láta málið fá þessa afgreiðslu.

Ég skal ekki blanda mér í þá deilu sem hér er risin milli hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. V.-Sk. En út af því, sem hv. 1. Árn. minntist á ummæli þá. 2. þm. Skagf. (JS) á vetrarþinginu síðasta um það, að þörf væri betri löggjafar að því er snertir sammerkingar, vil ég segja nokkur orð. Þetta er rétt, en hann var þó á móti því ákvæði frv. að setja upp allsherjar markadóm, en vildi að markadómar yrðu settir fyrir þau svæði, sem fé gengur saman, og er það í samræmi við þá skoðun, sem við hv. þm. S.-Þ. höfum haldið fram. Tel ég svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Vona ég, að hv. 1. þm. Árn. sé nú ljóst, hvað minni hl. landbn. meinar með sinni dagskrártill.