02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 540 í C-deild Alþingistíðinda. (3501)

71. mál, sauðfjármörk

Ingólfur Bjarnarson:

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að ég teldi þörf á að breyta sumum ákvæðum frv., sérstaklega að því leyti, sem þau kæmu í bága við aðstöðu míns héraðs í þessu efni. Nú hefi ég ekki haft tækifæri til að semja brtt. við frv. fyrir þessa umr., bæði vegna þess, að stuttur tími hefir verið á milli umr., og þó einkum vegna þess, að ég var fjarverandi úr bænum. En úr því að hv. þd. sá ástæðu til að afgr. frv., enda þótt hún hafi talið sjálfsagt að breyta ýmsum ákvæðum í því áður en það kemur til framkvæmda sem lög, þá sé ég ekki, að brýna nauðsyn beri til að flytja þessar brtt. nú, en vænti þess, að þær verði betur athugaðar, þegar tími vinnst til heima í mínu héraði, og komi svo síðar fram hér á þinginu, áður en lögin koma til framkvæmda. Ég sé því ekki ástæðu til að tefja málið að þessu sinni með því að óska eftir fresti til að bera fram brtt. Án þess svo að vilja lengja umr. finnst mér ég þurfa að leiðrétta þá missögn hv. 1. þm. Eyf., að ég væri sýslun.maður í S.-Þingeyjarsýslu. Síðasta áratuginn hefi ég sem sé eigi setið þar né verið til þess kosinn. Hugleiðingum. hv. þm. um vitsmuni mína þar virðist því raunar ofaukið. Og ég býst við, að önnur rök hans í málinu hafi viðlíka mikið við að styðjast.