14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í C-deild Alþingistíðinda. (3508)

71. mál, sauðfjármörk

Einar Árnason:

Tilgangur þessa frv. mun eiga að vera sá, að bæta úr þeim göllum, sem taldir eru á fjárskilum í héruðum landsins. Með þessu er löggjafarvaldið að grípa inn í aldagamalt skipulag, sem hingað til hefir verið að öllu leyti í höndum sveitar- og sýslufélaga. Ég ætla ekki að neita því, að þörf kunni að vera einhverra umbóta. En það getur verið álitamál, hvaða leið skal fara. Ég býst við því, að löggjöfin ein út af fyrir sig sé ekki einhlít. Það, sem mestu varðar, er hirðusemi og alúð einstaklinganna sjálfra. Hafa oft komið fram uppástungur um nýtt skipulag sauðfjármarka, en þær hafa jafnan lítið fylgi fengið. Þetta fyrirkomulag, sem hér er stungið upp á, er einna frjálslyndast af þeim uppástungum, sem áður hafa fram komið, og má því vera, að í því felist einhverjar umbætur. Fer ég ekki út í einstök atriði frv. En það, sem mér er sárt um, er þetta, að tekið er frá sýslufélögum og héraðsstjórnum að þeim fornspurðum vald, sem þær hafa haft. Hefði ég því óskað eftir, að frv. yrði ekki nú þegar gert að 1., en þessum aðilum gert fært að segja álit sitt um málið. Held ég, að það ætti ekki að þurfa að tefja framgang málsins, þar sem frv. sjálft gerir ráð fyrir því, að l. komi ekki til framkvæmda fyrr en 1935. Er því nógur tími til þess að leita álits sveitarstjórna um ýms atriði þess. Hygg ég, að þá kynnu sveitarstjórnir að sætta sig betur við fyrirmæli frv. en verða myndi, ef þetta vald yrði tekið af þeim svona óundirbúið og fengið löggjafarvaldinu í hendur. Þegar frv. var til umr. í Nd., kom fram rökst. dagskrá þess efnis, að leitað yrði álits sveitarstj. um málið. Leyfi ég mér að taka upp þessa dagskrá óbreytta að efni og legg því til, að frv. sé afgr. með svofelldri rökst. dagskrá.

Með því að mál þetta er þess eðlis, að rétt virðist, að ríkisstj. beri það undir héraðsstjórnir landsins og leiti álits þeirra og tillagna áður en sett eru lög um þetta efni, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.