17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í C-deild Alþingistíðinda. (3511)

71. mál, sauðfjármörk

Einar Árnason:

Þegar frv. þetta var hér til 2. umr., flutti ég till. um, að því væri vísað til ríkisstj., sem svo bæri það undir álit héraðsstjórna og fengi till. þeirra um þetta mál, áður en það verður lagt næst fyrir þing. En þessi till. mín var felld með jöfnum atkv. hér í deildinni. En þá vantaði 4 menn í hana, svo ég er þess vegna ekki alveg viss um, að fram hafi komið fullur vilji dm. um þetta mál. Ég færði þá fram rök fyrir því, að rétt væri að hrapa ekki svo mjög að því að samþ. þetta frv. Nefndi ég sérstaklega til þess tvær ástæður, er mér virðast liggja fyrir um það. Sú fyrri er, að hér er verið að taka úr höndum héraðsstjórna það skipulag, er þær hafa haft á þessu máli frá alda öðli. Hitt er, að svo er til ætlazt, að lög skv. þessu frv. komi ekki til framkvæmda fyrr en 1935. Þyrfti það því ekki að tefja málið, þó því væri skotið undir álit héraðsstjórnanna, áður en það er afgr. að fullu.

Það hafa oft komið fram áður till. um breyt. á sauðfjármörkum. Þær uppástungur hafa verið sitt á hvað, en aldrei fengið verulegan byr enn sem komið er. Það hafa jafnan þótt koma fram ýmsir agnúar á því að setja heildarlöggjöf um þetta efni. Ég jata að vísu, að hér er um frjálslegra fyrirkomulag að ræða, heldur en í ýmsum öðrum uppástungum, sem fram hafa komið. En það, að setja einn markadóm fyrir landið allt, hlýtur að verða þunglamalegt fyrirkomulag og hafa aukinn kostnað í för með sér. Í frv. er gert ráð fyrir því, að 3 menn skipi þennan markadóm. Eiga þeir að sjá um útgáfu á markaskrám fyrir landið allt. Skilst mér, að ríkissjóður eigi að fá ákveðið gjald fyrir þetta frá markeigendum, en kosta síðan prentun markaskránna. Nú verður það ekki vitað, hvort þetta gjald vegur á móti útgáfu markaskránna, en ég er þó hræddur um, að tekjurnar verði rýrari en útgjöldin. Kemur þá sá kostnaður á ríkissjóð. (MT: Ekki kostnaður á prentun). Ég er þó hræddur um, að kostnaður ríkissjóðs verði nokkur af þessu. Það kostar markadóm áreiðanlega mikla vinnu að sjá um útgáfu markaskráa á hverju ári. Í byrjun mun a. m. k. verða mikið verk að koma þessu í það horf, sem um getur í frv.

Þá er annað, að í frv. er ráð fyrir því gert, að sérstök markaskrá verði gefin út fyrir hverja sýslu. Þetta á máske sumstaðar við, en hreint ekki alstaðar, og getur enda reynzt mjög óheppilegt ákvæði. Það er alls ekki víst, að hagkvæmast sé að fylgja sýslumörkum um það svæði, sem markaskrá nær yfir. Ég vil t. d. benda á, að í markaskrá Suður-þingeyinga er jafnan tekinn með einn hreppur ú Norður-Þingeyjarsýslu, sem liggur vestan Jökulsár á Fjöllum. Þetta skýlausa ákvæði frv. mundi því geta valdið örðugleikum eða óþægindum, nema undantekningar væru gerðar á því.

Þá er í frv., að mér skilst, bann lagt við sammerkingum í nágrannasýslum. Þetta getur nú verið rétt í sumum tilfellum, en þó ekki alltaf. Ég vil t. d. geta þess, að sammerkingar eru leyfðar í Eyjafjarðarsýslu og Suður-Þingeyjarsýslu. Þar hefir verið unnið saman að þessum málum og hefir það leitt til betra skipulags. Markaskrár hafa verið gefnar út samtímis og bannað að hafa sammerkingar aðrar en þær, sem leyfðar eru af markadómi. Þær sammerkingar, sem leyfðar eru, eru svo prentaðar í markaskrám beggja sýslnanna, svo það er sama, í hvorri þeirra maður flettir upp. Markið finnst í heim báðum. Hér gengur frv. því í bága við það, sem þessar sýslur telja þægilegast fyrirkomulag fyrir sig.

Ýmislegt fleira mætti nefna, sem ég tel varhugavert að lögfesta. Nú vil ég ekki neita því, að það kann að vera erfitt að lagfæra það, sem ábótavant er í núgildandi fyrirkomulagi, nema með löggjöf. En þá þarf að sjálfsögðu að fá áður umsögn héraðanna. Í framhaldi af því, sem ég sagði við 2. umr., vil ég því leggja til, að málinu verði vísað til stjórnarinnar.