23.03.1932
Efri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Baldvinsson:

þetta frv hefir verið fyrir þinginu nokkrum sinnum, eða svipuð frv., og umr. orðið um þau hér í þingi, og við alþýðuflokksmenn höfum jafnan greitt atkv. á móti þeim, af því að það er ekki efamál, að skattur þessi mundi auka á erfiðleikana við samgöngur með bifreiðum; hann mundi hækka verðið á flutningi á fólki og vörum og hverskonar aðrir erfiðleikar myndu af honum stafa. Ég mun því eins og áður, greiða atkv. á móti þessum nýja skatti bæði við þessa umr. og aðrar, ef frv. kemst svo langt. Ég sé enga ástæðu til, að frv. fari í n. til þess að íhuga það. En fari svo, að frv. gangi fram, væri það sanngjarnt, sem upp á hefir verið stungið, að kaupstaðirnir fengju skattinn til að laga götur hjá sér og gera nýjar gotur, og get ég búizt við, að það fengist. En frv. er hægt að fella nú við þessa umr., ef Sjálfstæðisflokkurinn greiddi atkv. gegn því.