28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 559 í C-deild Alþingistíðinda. (3549)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég held, að þetta sé 3. frv., sem borið er fram á þessu þingi um þetta efni. Fyrst komu fram frv. sitt í hvorri deild um það, að veita einstökum mönnum vélstjóraréttindi, sem áður hafa gegnt því starfi með undanþágum. Sjútvn. þótti réttara að orða þetta í einu frv., og skal ég játa það, að svo framarlega sem á að veita einstökum mönnum þessi réttindi, verða aðrir að fá þau líka, sem eins stendur á fyrir. En spurningin er bara sú, hvort það sé heppilegt að veita slík réttindi. Ég hefi fengið skrá yfir þá menn, sem hafa fengið þessar undanþágur, og eru á henni nöfn 29 manna, sem hafa gegnt vélstjórastarfi misjafnlega lengi. Auk þess hafa 4 sótt um réttindi til þingsins í vetur, svo að það yrðu alls 33 menn, sem fengju áframhaldandi skírteini, ef frv. yrði að lögum. Eins og ákvæði frv. sýna, eru það allvíðtæk störf, sem ætlazt er til, að þessir menn fái fullan rétt til að taka að sér, en það er nokkuð takmarkað í brtt. sjútvn. Ég verð að líta á þessar brtt. sjútvn. þannig, að hún hafi nú sannfærzt um, að hér er ekki að ræða um eins einfalt mál og hún hélt í byrjun, og því sé hún nú komin á undanhald í málinu. Þó að þessir menn, sem hér um ræðir, hafi gegnt þessa starfi undanfarið, er með þessu verið að veita nýjum straumi inn í vélstjórastéttina, sem er líklegt að tefji fyrir þeim, sem hafa þreytt langt og erfitt nam í þessari grein, í atvinnuleit þeirra. Auðvitað er ekki hægt að lá þeim, sem nú eru í vélstjóraskólanum, þótt þeir séu óánægðir með það, að sumir geti tekið af sér þennan 7 ára krók, og fengið sömu réttindi þrátt fyrir það. Nú sem stendur eru 40 menn á leiðinni, þ. e. a. s. í vélstjóraskólanum. Alls tekur það um 7 ár að ná fullkomnum réttindum. Fyrst þurfa þeir að hafa verið 3–4 ár á verkstæði, svo 2 ár eingöngu við bóklegt nám í skólanum, og þar að auki, að hafa siglt eitt ár sem kyndarar. Það er engin furða, þótt menn kjósi heldur að taka af sér þennan krók, ef hægt er að ná sama marki án hans, þetta er ekki svo lítill hluti af lífi manns, sem í þetta fer. Það væri óneitanlega þægilegra að fara til Alþ. og fá sér undanþágu, það er því engin furða, þótt allhörð mótmæli komi gegn þessu frv. einmitt frá þeim, sem nú eru að læra. En það er langt frá því, að andmæli gegn þessu frv. hafi komið frá heim einum. Þótt menn vildu væna stjórn vélstjórafélagsins um það, að hún horfði blint á stéttarhagsmuni, þá vill nú svo vel til, að hér liggja fyrir mótmæli frá skipaskoðunarstjóra, hr. Ólafi Sveinssyni, frá Gísla Jónssyni skipaskoðunarmanni, og þar að auki frá vátryggingarfélögum hér í bæ. Mig langar til þess að gefa hv. þdm. hugmynd um efni þessara plagga, því að ég veit ekki, hverju á að trúa í þessu máli, ef ekki vitnisburði slíkra manna. Ólafur Sveinsson segir í bréfi sínu, eftir að hafa látið í ljós undrun sína yfir því, að slík frv. skuli koma fram:

„Alstaðar í heiminum er unnið að því að auka þekkingu þeirra manna á starfi sínu, er stunda siglingar, en hér virðist eiga að stíga stórt spor aftur á bak. Nýlega hafa verið haldnar alþjóðaráðstefnur í Lundúnum um öryggi mannslífa á sjónum, og einn þátturinn í ákvæðum Lundúnasamþykktarinnar er sá, að gæta þess, að skipin séu vel mönnum skipuð“.

Eins og sjá má af þessu, er mikil áherzla lögð á það alstaðar meðal siglingaþjóða, að menn séu vel vaxnir starfi sínu. Og það þarf enga fagmenn til þess að sjá, að öryggi mannslífanna á sjónum er miklu minna, ef við vélstjórn er maður, sem ekki er starfi sínu vaxinn.

Gísli Jónsson skrifar langt mál um þessi frv. og leggur fastlega á móti því, að Alþ. slaki á núgildandi löggjöf um þetta efni. Hann lýsir afleiðingum undanþáganna:

„Menn, sem að mörgu leyti voru mjög efnilegir til vélstarfa, hópuðust að með undanþáguheimild í stað þess að ljúka námi, en samtímis stóð vélstjóraskólinn svo að segja tómur árum saman. — — Þegar svo undanþáguheimildin var runnin út 1925, vorum við enn í sama öngþveitinu, og heimildina varð enn að framlengja. Aðsókn að skólanum vex í raun og veru ekki eðlilega fyrr en farið er að gera undanþágumönnunum erfiðara fyrir“.

Ennfremur bendir Gísli Jónsson á eitt atriði, sem ágætt er að komi fram:

„Eins og yður er ljóst, hefir bæði Eimskipafélag Íslands og togaraeigendur gert sér mjög mikið far um að hafa sem allra kolasparastar vélar í skipum sínum, vegna hins háa kolaverðs, er við eigum við að búa. Til þess að þetta gefi sem allra beztan árangur, hafa á síðari tímum verið sett allskonar nýtízku kolasparnaðartæki í skipin. Tæki þessi koma þó ekki að notum sem skyldi, nema í höndum þeirra manna, sem með þau kunna að fara, en þar spara þau um 25% í eldsneyti, og er það miklu meira en svo, að landsmenn hafi ráð á að notfæra sér það ekki“.

Þarna bendir hann á allverulegt atriði í þessu máli. Eftir því, sem vélarnar eru gerðar flóknari, því meira hagsmunamál er það fyrir útgerðarmenn að hafa við þær menn, sem kunna að notfæra sér til fullnustu öll nýtízku tæki. — Ennfremur segir hann:

„Þótt alveg sé lítið í burt frá öryggi, sem farmenn eiga heimtingu á um gæzlu véla, og frá þeirri vernd, sem vélstjórastéttin á siðferðis- og lagalegan rétt á sem stétt, þá er það að mínu áliti ákaflega misráðið með tilliti til þjóðarbúskaparins að rýra að nokkru leyti þær kröfur, sem nú eru gerðar til undirbúnings vélstjórum. Reynslan hefir sýnt, að allar, undanþágur á þessu sviði draga úr aðsókn að skólanum og skapa vöntun á hæfum mönnum, og að þjóðin hefir ekki ráð á að reka útgerðina á þeim grundvelli“.

Þannig komast þessir tveir menn að orði, sem bezt skilyrði hafa til þess að dæma um þetta mál og ekki verður bent á annað en sé óvilhallir í þessu máli. Ennfremur hafa borizt andmæli gegn frv. frá vátryggingarfélögum hér í bæ, og finnst mér þær mótbárur vera einna alvarlegastar og ættu að vera þungar á metunum hvar sem er. Þar segir svo m. a.:

„Sérstaklega viljum vér taka það fram, með tilliti til þeirrar ábyrgðar, sem vér tökum á oss, að oss þykir mikið á því ríða, að þeir menn, sem vélum skipanna stjórna, hafi svo fullkomna bóklega og verklega menntun sem auðið er. Teljum vér það með öllu óhafandi, að menn, sem engrar menntunar hafa notið í þessari grein, fái heimild til vélstjórnar, meðan aðrir vinnast til. Fyrir þá sök mótmælum ver eindregið frv.“ o. s. frv. — — —„Vér getum þess, að vér þorum ekki að ábyrgjast nema samþykkt slíkra frumvarpa kunni að hafa óheppileg áhrif á vátryggingaiðgjöld íslenzkra skipa“.

Þá vil ég ennfremur benda á það, að hæpið er að samþ. frv., sem kannske fara í bág við Lundúnasamþykktina. Í 4. gr. laganna um eftirlit með skipum og öryggi þeirra segir svo:

„Ennfremur getur ráðuneytið sett reglur um það, hvað til þess þurfi, að starfsmenn á skipum, aðrir en þeir, sem verða að fullnægja kröfum þeim, sem lögin um atvinnu við siglingu og vélgæzlu setja, geti fengið vottorð um að vera hæfir til starfa þeirra, er heim eru ætluð“.

Hér er gengið út frá því sem gefnu, að þessi lög um vélgæzlu verði haldin með fullum strangleik, og að setja þurfi sérstaka reglugerð um aðra en þá, sem falla undir þau lög. Ég tel því sennilegt, að þetta frv., sem nú er hér til umr., geti farið í bág við Lundúnasamþykktina.

Ég býst við, að það sé rétt hjá vátryggingarfélögunum, þegar þau benda á, að það sé mjög misráðið, og komi jafnvel í bága við samning þann, sem ég áður nefndi, að fara að veita stórum hóp manna, sem eru ómenntaðir í þessari grein, undanþágu frá lögmætum skilyrðum. — ég vona, að menn taki það ekki svo, að ég sé að segja, að þessir menn hafi ekki getað stundað starf sitt vel, það hefir sjálfsagt orðið upp og ofan, eftir því sem verkast vildi, en það er engin trygging fyrir því, þegar menntunina vantar. Og það er eins með þessi störf og hver önnur vandasöm störf, að það er sjálfsagt að sýna þeim fullan sóma. En þó svo þessir menn hafi rækt störf sín vel, þá sannar það ekki, að þetta fyrirkomulag sé heppilegt, því menn vita, að þeir hefðu orðið enn meiri prýði sinnar stéttar, hefðu þeir haft sérmenntun, hefðu þeir allir numið til starfsins í byrjun.

Mér finnst, að eins og þau andmæli eru sterk, sem fram hafa komið, þá sé mjög erfitt að mótmæla þeim og viðurhlutamikið fyrir hv. Alþ. samþ. slíkt frv. sem þetta. Og mér þykir dálítið undarlegt, að hv. sjútvn. skuli öll vera sammála um að flytja slíkt frv. mér þykir ekkert einkennilegt, þó einstakir þm. beri fram svona mál, til þess geta legið margar ástæður og einkar skiljanlegar. En það er einkennilegt, þegar einmitt sú n., sem á að bera hag sjávarútvegsins fyrir brjósti, fer að bera fram frv. um að gera minni kröfur til einnar nauðsynlegustu stéttarinnar í þessari stóru atvinnugrein.

Eins og ég hefi áður getið um, hafa undanþágurnar stafað af því, að það hafa ekki verið til nógir menn til að taka starfið að sér, og það hafa ekki verið til nógu margir menn í stöðurnar af því, að undanþágurnar hafa verið til. Þetta hefir þannig verið hreinasta svikamylna, sem verið var að koma upp með lögunum frá 1915. En nú hefir litið út fyrir, og lítur út fyrir, að þessi svikamylna ætli að fara að hætta að verka. Í þessum skóla, sem um mörg ár var nærri að segja tómur, eru nú 40 menn, og eftir því, sem mér er tjáð, eru það alveg nægjanlega margir menn til að fylla þau skörð, sem nú eru, og það kemur því ekki til nokkurra mála, að horgull verði á lærðum vélstjórum eftir að skólinn er búinn að koma upp svona mörgum lærðum vélstjórum, ég hefi fengið skýrslu um, hvað til sé af lærðum vélstjórum og um vélstjóraþörfina. Sú skýrsla sýnir, að nú sem stendur er þörf fyrir 168 vélstjóra, en lærðir vélstjórar eru 168, eða jafnmargir. En þar frá má draga 15 menn, sem gegna störfum í landi. Það er þá það skarð, sem þarf að fylla með undanþágumönnum, en 14 menn útskrifast af skólanum í vor, svo að heita má, að í vor verði til nægilega margir lærðir vélstjórar í öll skiprúm. A. m. k. má segja, að það sé alveg komið í burðarliðinn að ná því marki, sem vitanlega ber að stefna að, að við höfum nægilega marga menn og varalið í þessari stétt til þess, að engin hætta sé á, að skipaeigendur þurfi að sæta duttlungum þeirra manna innan stéttarinnar, sem vilja setja sig á háan hest. Og ég er viss um, að ef ekki verða hafðar hendur á að eyðileggja starf skólans, þá verður innan fárra ára alveg eðlilegur fjöldi sérmenntaðra manna í þessari grein til í landinu. Og þá mundi það gera ljótan glundroða að fara nú að taka inn í þessa stétt stóran hóp ófaglærðra manna. Þessi þörf, sem var í raun og veru það eina, sem á sínum tíma réttlætti það að veita undanþágur, er nú að hverfa, en einmitt þá á að fara að fitja upp á nýjum lögum til að halda þessu vandræðaástandi áfram.

N. segir í grg. frv., að það sé alkunnugt, að vélstjóraskólinn hafi eigi útskrifað svo marga vélstjóra, að nægt hafi á fiskigufuskip landsins á undanförnum árum, en eins og ég hefi áður lýst, er eðlilegt, að undanþágurnar valdi þessu. Það er mjög eðlilegt, að menn séu ekki að leggja á sig að stunda dýrt og erfitt nam, sem þeir sjá, að aðrir geta sloppið við.

Þá vil ég minnast á eina ástæðu, sem hv. frsm. n. var að bera fram með frv., þá ástæðu, sem ég viðurkenni, að á nokkum rétt á sér. Hann segir, að það sé kaldrifjuð stéttapólitík að taka hóp manna, sem hafi unnið við þetta árum saman, og kasta þeim út á kaldan klakann — segja við þá: nú fáið þið ekki lengur að vinna við þetta; nú verðið þið að fara úr þessari atvinnu og taka annað lítilmótlegra starf. Það er alveg satt, ef þetta er sett fram á þennan kaldrifjaðasta hátt, þá má segja, að það líti illa út. En í raun og veru lítur þetta ekki eins illa út og í fljótu bragði virðist, ef það bara er athugað frá réttu sjónarmiði. Þessir menn hafa raunverulega haft þarna um 3 til 12 ára skeið stórkostleg og mikilsverð sérréttindi. Þeir eru ekki verr settir en þeir voru áður eða aðrir menn, sem gegna sömu störfum og þeir gegndu áður. Og þó þeir hafi haft þessi sérréttindi, hafa þeir vitað það frá upphafi, að þetta var bráðabirgðaráðstöfun og að hvenær sem ekki væri lengur þörf á að veita undanþágur, yrðu þær ekki veittar. Því það er engin heimild til þess, hvorki í l. frá 1915 né l. frá 1926, að veita þessar undanþágur lengur en meðan hörgull er á mönnum með fullum réttindum. Þeir hafa því alltaf vitað það, að þeir yrðu að fara úr þessu starfi. Sumir þessara manna hafa líka viðurkennt þetta, því eftir því sem mér hefir verið tjáð, þá hafa sumir þeirra manna, sem hafa starfað að vélstjórn samkv. bráaðabirgðaskírteinum, yfirgefið starf sitt í svip og gengið í vélstjóraskólann til að standa ekki uppi atvinnulausir, er þeim yrði kastað út á kaldan klakann. Þetta er heilbrigð aðferð. Það er ekki erfiðara fyrir þá að nema fyrir það, þó þeir hafi stundað þennan starfa fyrst, heldur þvert á móti léttara, alveg eins og það væri ekki erfiðara fyrir menn að nema t. d. til læknis eða prests, þó þeir hefðu gegnt þeim starfa um tíma. Það yrði náttúrlega miklu léttara. Það er ekkert annað, sem veldur því, að þessir menn hafa kveinað og kvartað um það ranglæti, sem þeir verði fyrir, en það, að þeir hafa sjálfir gert sér of miklar vonir um, að allt myndi halda áfram að vera eins og það hefir verið, af því að skólinn yrði þess aldrei umkominn að útskrifa svo marga menn sem þyrfti.

Þá vil ég minna á það, að vélstjórastaða er vel launað starf og veglegt. Þetta eru hvorki smáar né illa launaðar stöður. Og það eru miklir möguleikar fyrir menn að komast þar áfram — að fá allt af betra og betra starf og engin minnsta ástæða til sérstaklega að ívilna þeim mönnum um nam, sem taka að sér þetta starf. Skólagangan er að vísu nokkuð pung, en alls ekki óeðlilega erfið, og sízt, ef maður vill nú bera það saman við minna launuðu störfin, sem heimtuð eru kandídatspróf til. Tökum t. d. guðfræðingana; þeir þurfa að nema í 11–12 ár og fá svo þriðjung þeirra launa, sem vélstjórar fá. Engum dettur í hug að veita þeim undanþágu frá námi og prófi. Nei. Þjóðfélagið má ekki gera sig sekt í þeirri vatnsgrautarmiskunnsemi að vera að ívilna um nám þeim mönnum, sem gegna vel launuðum, vandasömum stöðum, og leggja líf manna og eignir, sem eru miklar að verðmæti, í hættu fyrir það, að þeir vilja ekki eða koma því ekki við að stunda nám, þó nokkrir menn hafi komizt af með það um tíma. Út á þá braut má þjóðfélagið, ekki ganga.

Til andsvara því, að þetta sé kaldrifjuð stéttapólitík af okkar hálfu, sem viljum ekki veita þessar undanþágur, gagnvart þessum mönnum, vil ég benda á það, að eftir brtt. okkar er þeim opnuð leið til þess, að þeir þurfi ekki að láta af starfi sínu. Till. gengur út á það, að þeir geti fengið inngöngu í vélgæzludeild vélstjóraskólans samkv. l. frá 1915, og að þessir menn geti þess vegna á fáeinum mánuðum aflað sér þeirrar sérmenntunar, sem þeir eiga að hafa, svo öll stéttin sé sérmenntuð. Nú má að vísu segja, hvað þá sé orðið úr öllum stóru orðunum um vel menntaða vélstjórastétt, ef þessir menn geti orðið fulllærðir á einum 7 mánuðum. En til þess er það að segja, að þessir menn hafa við vinnu sína um mjög mörg ár fengið svo mikla undirstöðu undir námið, móts við þá menn, sem koma nýir að náminu, að þeir ættu á þessum mánuðum að geta aflað sér þeirrar bóklegrar þekkingar, sem þeir þurfa til þess að geta talizt fullgildir menn í sínu starfi.

Viðvíkjandi brtt. hv. sjútvn. á þskj. 556 vil ég segja það, að hún er að vísu að því leyti til bóta frá því, sem er í frv., að hún dregur talsvert úr skaðsemd þess, en það er þó mjög langt frá því, að hún geri það nægjanlega. Ég hefi nú ekki séð hana fyrr en ég stóð upp, svo ég hefi ekki haft mikinn tíma til að athuga hana. (Einhver: Henni var útbýtt í fundarbyrjun). Já, en þó hún sé komin fyrir nokkru, þá verð ég sem skrifari að vinna fullt verk, svo ég hefi sem sagt ekki séð hana fyrr en nú, að ég stóð upp. En mér virðist, að munurinn á henni og frv. sé ekki annar en sá, að skv. henni eru þau réttindi, sem hver maður fær, bundin við þau réttindi, sem hann hefir haft, og það starf, sem hann hefir unnið við. Þetta takmarkar auðvitað nokkuð áhrif frv. og einskorðar hvern einstakan mann, og er að því leyti til bóta, en hugsunin í brtt. og grundvallarreglan er þó sú, að inn í faglærða stétt kemur hópur 30–40 manna og getur setið þar fyrir þeim mönnum, sem brjótast í því að afla sér sérmenntunar. Og þetta er alveg rangt. Það er miklu réttara að samþ. brtt. okkar hv. 1. þm. Skagf. og samþm. míns, hv. 3. þm. Reykv. um, að menn þessir fái að taka nokkurra mánaða námsskeið, ljúka vélstjóraprófi, og geti svo komið glaðir og ánægðir inn í stéttina og notið með því móti sinna réttinda sem sérmenntaðir menn. Ég fyrir mitt leyti, ef ég gegndi slíku starfi sem þessu og það lægi fyrir mér að velja um, hvort ég vildi heldur fá undanþágu skv. brtt. n. eða skólaréttindi skv. þeirri till., sem ég ber fram, þá vildi ég miklu heldur reyna að klifa til þess þrítugan hamarinn að taka námskeiðið og koma svo sem vel séður og sérmenntaður maður meðal minna stéttarbræðra. Því þeir menn eru ávallt illa séðir, sem hafa fengið einhver forréttindi óverðskuldað. Ég vil því eindregið mæla með því, að brtt. okkar á þskj. 518 verði samþ., og get ég þá vel unað við frv. í þeirri mynd, þó það verði afgreitt.