28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í C-deild Alþingistíðinda. (3554)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Jón Ólafsson:

Ég held að komnar séu nægilega langar umr. um þetta mál. Í 1. gr. frv. er svo ákveðið, að 1. vélstjóri, sem væntanlega er í vélstjórafélaginu, eigi að gefa þeim vottorð til þess að þeir geti fengið undanþágu frá þessari gr. Vegna þeirra vélstjóra, sem hér um ræðir og ég ber aðallega fyrir brjósti, tel ég sjálfsagt að fyrirbyggja, að þessir menn geti haldið áfram vélstjórastarfi til lengdar. En þó er ætlazt til þess í frv., að ef þessir menn fái vottorð ár frá ári frá vélstjórum, sem þeir hafa unnið með og verið hafa í vélstjórafélaginu, og sömuleiðis frá þeim skipstjórum, er þeir hafa siglt með, þá geti þeir fengið að starfa áfram. Ég get fullvissað hv. 4. þm. Reykv. um það, að þessir menn hafa innt af hendi töluvert starf áður en þeir urðu vélstjórar. Flestir munu vera búnir að vera 4–5 ár kyndarar á skipum og hafa kynnzt vélinni á sinni „vakt“, svo að þeir eru alls ekki taldir þekkingarsnauðir, þegar þeir eru búnir að vera kyndarar, og þegar yfirvélstjóri, sem er í vélstjórafélaginu, gefur þeim vottorð, má gera ráð fyrir, að því megi treysta. Annars þótti mér vænt um það, að hv. 4. þm. Reykv. dró heldur inn seglin hvað fullyrðingar snertir um, að þessir menn væru sérstaklega hættulegir. Það kemur fram hjá hv. 4. þm. Reykv. og þeim öðrum, sem mæla gegn þessu frv., að bein lífshætta geti stafað af starfi þessara manna í vélinni. En hann sagðist ekki þekkja þessa menn. Það er rétt hann þekkir þá ekki. Og þau ummæli, sem hann hafði, bera fullkomlega vott um það, að hann hefir ekki þekkt þá og lífsstarf þeirra, heldur haft það eftir öðrum, sem hann fór hér með. Ég held, að það sé röng og ill meðferð á þeim, sem um langt skeið hafa stundað þessa atvinnugrein og hvað eftir annað fengið undanþágu með meðmælum þeirra manna, sem ég hefi nefnt, að taka nú af þeim þessi réttindi, þótt vélstjórafélaginu sýndist einn góðan veðurdag, að nú væri komið nóg af lærum mönnum til að fylla öll rúm og þeir vilji ekki bæta við þann fjölda. En þeir eru ekki allir þau „autoritet“, að ekki megi finna menn, sem standa þeim á sporði. Út úr vélstjóraskólanum hafa komið menn, sem eru algerlega óhafandi og hafa látið eftir sig vel í þeirri vanhirðu, að með engu móti er forsvaranlegt. Það er því ekki enn hægt að fá lærdómsmenn í hvert rúm, því að sumir skólamenn eru algerlega óbrúkandi í vélarúm. En manni, sem hefir undanþágu og siglt hefir mörg ár, er vel trúandi til að vera fyrsti maður í vel, þó ég vilji ekki mæla með því nema hvað smærri skip snertir. Ég er á því hreina með það, að ekki sé gerlegt að hlaða undir þessa menn að öðru leyti en því, að þeir geti haldið áfram að njóta þeirra réttinda, sem þeir ná hafa fengið, og síðan setja skorður við frekari undanþágum fyrir vélamenn, nema sérstakir erfiðleikar séu á því að fá fagmenn.

Hv. þm. talaði um, að þessir menn hefðu notið svo lengi sérréttinda, sem þeir hefðu ekki átt. Ég veit ekki, hvernig hann skilur þetta, en ég held, að þeir hafi unnið til þeirra. Og ef svo er, sem ég ekki efast um, þá hygg ég, að þeir hafi nokkurn rétt til þeirra sérréttinda, sem þeir hafa fengið. En ég vil endurtaka það, að gömlum mönnum þykir leitt að þurfa að fara í skóla. Þeim er erfitt um lestur ýmsra fræðibóka og að þurfa að taka próf í þeim. Hygg ég því að eldri menn, sem bunir eru að starfa að þessu lengri tíma, myndu heldur hverfa frá sínu starfi en leggja sig niður við slíkt.