03.05.1932
Efri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (3558)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Jón Baldvinsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir og komið er frá hv. Nd., hefir verið allmikið um þráttað mál, þar sem ýmsir hafa dregið í efa, að það væri rétt að láta þessa löggjöf ganga í gegn. Vélstjórar eru nú orðnir allt að því nógu margir svo að eigi þarf að veita undanþágur. Þeir hafa mælt á móti þessu frv., svo og ýmsir menn, sem hafa með þessa hluti að gera. Ég vil því víkja því til þeirrar n., sem væntanlega fær þetta mál til meðferðar, að hún rannsaki þessa hluti. Það liggja hér fyrir frá vélstjórum ýmis plögg og umsagnir þeirra manna, sem mest hafa með það að gera, hvernig hagað er vinnu í vélum og skipum, og framkvæma þessa vinnu og hafa eftirlit með henni.

Ég er ekki alveg viss um, að það sé svo hagkvæmt að samþ. lög um þetta efni nú, þegar allt er alveg að fyllast af vélstjórum með réttindum, og mér virðist það vera spor aftur á bak, því í því felst að minnka þær kröfur, sem settar hafa verið í þessu efni, en þær eru í lögunum um vélgæzlu, og þar er heimtuð fullkomin þekking á starfinu, jafnvel þó þá væru fáir vélstjórar til. Það mætti því frekar gera þær kröfur nú, þegar búið er að setja upp vélstjóraskóla og búast má við, að nú þegar séu nægilega margir menn út með fullkominni þekkingu til að inna þetta starf af hendi.

Ég vil aðeins víkja þessu til þeirrar n sem væntanlega fær málið.