26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 584 í C-deild Alþingistíðinda. (3560)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Frsm. (Jakob Möller) [óyfirl.]:

Nokkuð snemma á þingi var vísað til sjútvn. þessarar d. frv. um heimild fyrir ríkisstj. til þess að veita nokkrum tilteknum mönnum skírteini til að mega stunda vélgæzlu á gufuskipum. Seinna var einnig vísað til hennar frv. frá hv. Nd. um að veita einum manni slíkt skírteini, og svo loks því frv., sem hér liggur fyrir og einnig er komið frá hv. Nd., um að veita þeim mönnum almennt, sem gegnt hafa vélstjórastörfum með undanþágum, réttindi til að stunda þá atvinnu áfram, ef þeir uppfylla viss skilyrði.

Undanþágurnar hafa verið veittar til tiltekins tíma, frá ári til árs, en frv. fer fram á, að þessum mönnum verði veitt óskoruð þau réttindi til vélstjórnar, sem þeir áður hafa fengið með undanþágum.

Nú hefir n. ekki getað fallizt á að samþ. þetta frv., né heldur hitt, að veita tilteknum mönnum vélstjóraréttindi með sérstökum logum. Telur hún varhugavert að fara út á þá braut, jafnvel þó hún hafi ekki ástæðu til að efast um hæfileika þeirra manna, sem hér hefir sérstaklega verið farið fram á að veita skírteini. Fyrst og fremst eru bæði frv. um það flutt með skokkum forsendum. Flutningur þeirra er, eins og fram hefir komið í framsögu og grg., byggður á því, að á vetrarþinginu í fyrra hafi verið afgr. lög um að veita tilteknum manni vélstjóraréttindi. En sá maður hafði áður tvímælalaust löglegan rétt til vélstjórnar, því hann hafði vélstjóraskírteini frá öðru landi. Það hafa ekki þeir menn, sem farið hefir verið fram á á þessu þingi að veita vélstjóraréttindi, og er hér því ólíku saman að jafna.

Að þingið hinsvegar afgreiði lög um að svo að segja hver, sem eitthvað hefir fengizt við vélgæzlu, geti fengið vélstjóraskírteini, telur n. einnig mjög varhugavert. Álítur hún, að þá verði ekki haft það eftirlit, sem nauðsynlegt er, með því, að allir þeir, sem skírteini fá, séu færir um að gegna vélstjórastarfinu. Auðvitað er það aldrei nema ófullkomin sönnun fyrir því, að maður sé vel hæfur vélstjóri, þó þeir skipstjórar og vélstjórar, sem hann hefir starfað með, gefi honum meðmæli.

Auk þess hafa n. borizt eindregin mótmæli gegn því frv., sem hér liggur fyrir, ekki einungis frá vélstjórastéttinni, sem náttúrlega má segja, að ekki sé óhlutdrægur aðili í þessu máli, heldur einnig frá Sjóvá tryggingarfélaginu og frá eftirlitsmanni með gufuvélum.

Hinsvegar er beinlínis gert ráð fyrir í logum frá 1915, að komið verði á fót námskeiði við vélstjóraskólann fyrir þá menn, sem frv. fjallar um, þar sem þeir geta lokið prófi á tiltölulega skömmum tíma og með litlum tilkostnaði og fengið þar með rétt til þess að mega hafa á hendi stjórn smærri gufuvéla, allt að 200 ha. Telur n. nauðsynlegt, að komið verði á sem fyrst slíku námskeiði með minna prófi fyrir vélstjóra, því það hefir verið og mun verða örðugleikum bundið að fá fulllærða vélstjóra á minnstu gufuskipin. sé það gert, telur n., að þeir menn, sem stundað hafa vélstjórn með undanþágum, fái tækifæri til þess að afla sér þeirra réttinda, sem með frv. er farið fram á að veita þeim með sérstakri lagasetningu, án þess að fullkomið eftirlit sé með því, að þeir séu færir um að gegna starfinu. Þess vegna leggur n. til, að frv. verði vísað til stj. með þeim forsendum, að þessu umrædda námskeiði verði komið á fót hið bráðasta. Þannig er þessum mönnum, sem varið hafa tíma og fyrirhöfn til að koma sér inn í starfið, gefið tækifæri til að halda þessari atvinnu áfram an þess að nokkur hætta stafi af því fyrir siglingarnar.

Ég get bætt því við, að það hafa verið hafin afarsterk mótmæli gegn því, að almenn undanþága væri veitt. Það hefir verið bent á, að vélstjóraskólinn væri vel sóttur og innan skamms mundi verða nógur fjöldi lærðra manna handa öllum íslenzkum skipum, og hefir verið talið, að það mundi ef til vill hnekkja þroska vélstjórastéttarinnar, ef þar væru festir svo margir menn lítt lærðir, sem hér er farið fram á.