27.05.1932
Efri deild: 85. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 602 í C-deild Alþingistíðinda. (3568)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Guðrún Lárusdóttir:

Mér þykir leitt, ef ég hefi aflagað orð hv. þm. Hafnf. Ég sagði nú raunar ekki, að hann hefði sagt, að vélstjórar væru yfirleitt óreglumenn, því sagðist ég aldrei hafa heyrt haldið fram af neinum, og þá ekki heldur af hv. þm., eins og gefur að skilja.

En mér þótti honum dveljast óþarflega lengi við „öryggisleysið“, sem mér fannst hann setja í samband við drykkjuskap vélstjóra. Hv. þm. sagði t. d., að í vélstjórastéttinni væru allmargir óreglumenn, og fór svo að tala um, að hann kysi fremur að sigla með gömlum vélstjóra — mér skildist ólærðum — heldur en lærðum vélstjóra drykkfelldum.

Af þessum ummælum réð ég þá það, að hv. þm. teldi „lærðu“ vélstjórunum hættara við drykkjuskap en hinum, og að hætta stafaði af þeim. Nú þykir mér gott að heyra, að minna bjó undir þessum orðum hv. þm. en ætla mátti.

Hv. þm. sagði, að ég hefði aflað hér allgóðra upplýsinga í þessu vélgæzlumáli, en þær væru ekki allar sannleikanum samkvæmar. En þegar hv. þm. fór svo að tilgreina sannleikann í málinu, kom það í ljós, að það, sem hann telur rangfærslur hjá mér, lá aðeins í hans eigin misheyrn, því ég sagði nákvæmlega það sama sem hann um tölu undanþágumanna á togurunum í vetur. Ég vona, að hv. þm. taki þessa leiðréttingu mína til greina, og ég treysti því, að skrifararnir hafi heyrt rétt það, sem ég sagði. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að segja fleira um málið.