28.05.1932
Neðri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í C-deild Alþingistíðinda. (3573)

44. mál, vegalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Mér þykir sennilegt, að hv. flm. frv. á þskj. 44, og eins ýmsir þeirra hv. þm., sem borið hafa fram viðaukatill. og brtt. við frv., muni ekki vera sammála samgmn. um þá afgreiðslu þessa máls að vísa því til stj. Hygg ég þó, að allir þeir, sem bezt hafa hugsað rétta mál og ekki eru einhliða bundnir við áhugamál síns héraðs, muni kannast við það, að heppilegast sé að láta úrslit málsins bíða næsta þings, eins og ástatt er og málinu nú er komið, ekki sízt þar sem telja má víst, að málið komi aftur til þingsins kasta betur undirbúið en það er nú. Það er nú svo um marga þá vegarkafla, sem skv. brtt., er fyrir liggja, mundu bætast í vegal., ef samþ. yrðu, að við þá vantar bæði mælingar á vegalengdunum og eins allar kostnaðaráætlanir, en samtals eru þessir vegakaflar, sem ætlazt er til, að bætist inn í vegal., um 500 km., og sjá þá allir, að hér er um allstórfelldan viðauka viðauka við vegakerfi lánsins að ræða, og virðist því óneitanlega, að réttast sé, áður en gengið er að því að lögfesta þetta, að afla þeirra gagna, sem frekast verða fengin um staðhætti, þörf og ástæður og bíða þar til fram hafa farið nákvæmar mælingar á hverjum stað og fengizt hafa áætlanir yfir þann kostnað, sem þessar vegalagningar hafa í för með sér. Auk þess er á það að líta, að ekki er nærri því komið, að búið sé að leggja alla þá vegi, sem lögfestir voru með vegal. frá 1924. Vegalögin næstu á undan, frá 1907, fengu að vísu nokkra viðauka á tímabilinu frá 1907–1924, en entust þó langan tíma samanborið við núgildandi vegalög. Það er vitanlegt, að meira en helmingur þeirra vega, sem áætlaðir voru með vegal. 1924, er enn ólagður, og má segja, að 5 sýslur landsins séu ennþá að mestu utan við þessar þjóðvegalagningar, nefnil: Skaftafells-, Múla- og Norðurþingeyjarsýslur. Enn vantar því mikið á það, að fullnægt sé þeirri hugmynd, sem vaki fyrir Alþingi 1924, að tengja saman með einum aðalvegi öll helztu héruð landsins á 15-20 árum. Þegar þessa er gætt, sýnist því sem ekki sé mikil þörf á að flyta þeirri vegalagabreyt., sem hér liggur fyrir. Ég sé ekki ástæðu til fara um þetta fleiri orðum, en vil að öðru leyti vísa til nál. samgmn. á þskj. 713.