28.05.1932
Neðri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 610 í C-deild Alþingistíðinda. (3577)

44. mál, vegalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Ég get vel unað við undirtektir þeirra hv. þm., sem talað hafa um þetta mál, því að heita má, að þeir séu n. sammála um, að rétt sé að láta málið bíða, í stað þess að flaustra því af nú, þegar komið er alveg að þingslitum.

Út af því, sem hv. þm. Borgf. sagði um vegarkafla þá, sem eftir eru ólagðir af heim vegum, sem taldir eru í vegalögunum frá 1924, vil ég taka það fram, að hann fór þar ekki rétt með. Hann vildi halda því fram, að þeir kaflar væru svo greiðfærir frá náttúrunnar hendi, að við þá þyrfti lítið að gera. En slíkt hygg ég af ókunnugleika mælt hjá honum. Því að þegar litið er á Skaftafellssýslurnar og Múlasýslur, sem að mestu er veglaust svæði, þá verður ekki annað sagt en að þar séu eftir mjög torsóttar leiðir, sem gert var ráð fyrir, er vegalögin voru samin, að búið yrði að vega fyrir 1940. Þannig mætti og benda á fleiri staði, sem ennþá eru eftir óvegaðir af þeim leiðum, sem vegamálastjóri hafði hugsað sér, að yrðu fullgerðir um 1940.

Að hér sé um stórmál að ræða, má vera augljóst af því, að eftir frv. og brtt. er gert ráð fyrir nýjum þjóðvegum, allt að 500 km. að lengd, sem myndu kosta 3–5 millj. kr., eftir því sem vegagerðakostnaðurinn hefir orðið að undanförnu, en hann hefir verið frá 5–10 þús. kr. pr. km. Hér er því um stórfyrirtæki að ræða, sem brýn ástæða er til að undirbúa vandlega. Skal ég svo ekki fara frekar út í þetta nú eða mæla fyrir brtt. mínum. En ég verð þó að leiðrétta dálítið það, sem hv. þm. Borgf. sagði í ræðu sinni. Hann sagði, að n. hefði „skapað tillögunum aldur“. En hvað er að skapa aldur annað en að drepa, fella eða stytta stundir? Það hefir n. þó alls ekki gert við neina till. Mér hefði fundið réttara af honum að kveða svo að orði, að n. hefði skotið þeim á frest til tryggingar því, að málið í heild yrði betur af hendi leyst, og hefði þá ekkert verið ofmælt hjá honum.