04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í C-deild Alþingistíðinda. (3582)

8. mál, erfðaleigulönd

Frsm. Þorleifur Jónsson):

Eins og sest á nál., leggur landbn. til, að frv. verði samþ. með nokkrum breyt. Brtt. er að finna á þskj. 261.

1. brtt. er orðabreyt. um, að „aðra“ í síðara málsl. 1. gr. falli burt. Er talið nægilegt, að leigutaki megi fara með leigutakarétt sem eign sína.

Þá er brtt. við 4. gr. um heimild landræktarfélags til eignarnáms. Er þar ákveðið, að réttur landræktarfélags til eignarnáms byggist á því, að félagið telji minnst 10 félaga. Vill n. fyrirbyggja með þessu, að 3–4 menn geti tekið sig saman og kallað sig landræktarfélag, til þess að taka land eignarnami, land, sem síðan yrði ef til vill látið liggja ónotað og lenti í braski. Í b-lið brtt. hefir n. sett nokkrar hömlur gegn því, að tekið verði svo að segja allt land jarðar eignarnámi. Ef engar slíkar hömlur væru settar, gæti svo farið, að allur bithagi jarðar og engjar væru af henni teknar, svo að óbúandi yrði á jörðinni á eftir, er ekkert væri eftir nema túnið og stórar byggingar. N. leggur til, að ekki verði tekið meira land af jörð en svo, að eftir sé nóg land til nýræktar og heybeitar. Eiga úttektarmenn að meta þetta, og greini þá á, sker eftirlitsmaður Búnaðarfél. Ísl. úr. N. telur þetta tryggara. Vera má, að einhverjir líti svo á, að þörf og réttur kauptúna til lands geti verið svo mikill, að í þetta megi ekki horfa, en við álítum, að til þess að taka heilar jarðir þurfi sérstaka lagaheimild í hvert skipti.

Þá er brtt. við 6. gr. Í frv. er gert ráð fyrir, að kauptúnin og hrepparnir kosti alla framræslu landsins. N. vill draga úr þessu, þannig að í stað „framræslu“ komi aðalframræsluskurðir. Þetta atriði gæti orðið sveitarfélögunum æðierfitt, og gæti einnig orðið vafasamt fyrir leigutaka, leiga yrði dýrari en ella, og reynsla er fyrir því, að leigutaki getur oft unnið nokkuð að slíkum undirbúningi sjálfur á þeim tímum, er hann hefir lítið að gera.

Þá er brtt. við 11. gr. Í frv. er ákveðið, að leigutaki gjaldi 5% af matsverði í leigu. N. vill ekki lögbinda leiguna, svo leigan verði alstaðar jafnhá og verði þá að elta verðgildi peninga, sem oft er breytilegt. Leggur hún til, að Búnaðarfél. Ísl. ákveði leiguna, og ef leigusali vill ekki una við þá leigu, skeri atvmrh. úr. Hinsvegar ætlast n. til að endurskoða leigumálann, er fasteignamat fer fram, eða á 10 ára fresti. N. virðist, að með þessu móti sé tryggilegast um hnútana búið og á þann hátt verði hægt að hafa leiguna misháa, eftir því hvar á landinu er og hvernig á stendur. Þannig er nú eftirgjald eftir slík lönd lægra í Hornafirði en í Vestmannaeyjum, og er það sanngjarnt og eðlilegt.

N. hefir sett inn ákvæði um, að land skuli að jafnaði vera komið í rækt eftir ár. Vitanlega er heppilegast, að þessi lönd komist sem fyrst í rækt, og reynslan hefir sýnt, að þetta getur orðið á 5 árum. 5 brtt. er við 12. gr. Í frv. er ákveðið, að taka megi land af leigutaka, ef almenningsheill krefst, og skuli bætur til leigutaka miðaðar við sannvirði landsins til landbúnaðar. N. hefir viljað bæta við og kostnað við ræktun landsins og önnur mannvirki á því.

6. brtt. er við 14. gr., að aftan við hana bætist: jafnskjótt og eldri samningar eru endurnýjaðir eða ganga úr gildi.

7. brtt. er við 18. gr. frv., þar sem gert er ráð fyrir, að atvmrn. feli sérstökum manni eftirlit erfðaleigumála í landinu. N. hefir ekki viljað fallast á þetta. Hún telur þessi mál svo náskyld starfsemi Búnaðarfél., að eftirlitið eigi að vera hjá því, og þótt það kosti auðvitað eitthvað aukið skrifstofufé, yrði sá kostnaður samt ávallt minni en ef sérstökum manni yrði falið eftirlitið. N. telur heppilegast, að jarðræktarráðunaut félagsins yrði falið starfið. Það yrði sá maður, er gerði áætlanir og uppdrætti af löndum þessum og myndi því vera þessum hnútum kunnugastur. Þó höfum við ekki viljað binda svo hendur Búnaðarfél. að einskorða eftirlitið við þennan mann.

Þá er brtt. við 19. gr. um skrásetningu erfðaleigulanda. Ætlazt er til, að bæjar- og sveitarstjórnir semji skrá yfir löndin og sendi eftirlitsmanni Búnaðarfél., er síðan semji allsherjarskrá. Síðasta brtt. er í samræmi við næstu brtt. á undan.

N. ætlar, að brtt. séu yfirleitt til bóta. Þetta mál er mjög mikilsvert, enda einkum fyrir daglaunamenn í kauptúnum og þorpum. Með þessu er þeim gert kleift að afla sér kýrfóðurs og matjurta. Og loks má nefna hin bættu uppeldisáhrif, sem ræktun jarðarinnar hefir í fór með sé. Fátt mun betur fallið til að auka átthaga- og ættjarðarást en að efla gróður jarðarinnar og auka frjómagn hennar.