04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 618 í C-deild Alþingistíðinda. (3585)

8. mál, erfðaleigulönd

Frsm. (Þorleifur Jónsson):

Ég get sagt eins og hv. 1. þm. S.-M., sem nú var að setjast niður, að ég tel þýðingarlítið að halda hér langar ræður, þar sem flestir hv. dm. eru uppi í efri deild að hlýða á umr. um stjórnarskrármálið.

Hv. þm. V.-Húnv. sagðist mundu aðhyllast brtt. n. Þó skildist mér á honum, að hann hefði það helzt við frv. að athuga, að n. færði ekki niður lágmark ræktunarlandanna og benti til, að ef 10 landræktarfélagar tækju land eignarnámi, þá yrði að taka 20 ha. og spurði, hvort það væri ekki rétt skilið.

Það er nú að vísu rétt, ef brtt. verða samþ. Um stærð leigulandsins gerði n. yfir höfuð engar breyt., en mér virðist rétt að taka til frekari athugunar, hvort ekki mætti minnka það, t. d. úr 2 ha. niður í 1 ha., og býst ég við, að það verði athugað til 3. umr.

Þá gerði hv. 1. þm. S.-M. nokkrar aths. við frv., og mér þótti leitt, að hann skyldi lýsa því yfir, að hann gæti ekki fylgt því út úr d., því að ég tel mikla þörf á að setja löggjöf um þessi mál, því eins og kunnugt er, hafa mikil lönd umhverfis kauptún og kaupstaði verið tekin til ræktunar nú hin síðari ár, eftir að jarðræktarlögin komu í gildi. Það, sem hv. þdm. fann frv. til foráttu, var það, að það gæfi mönnum of víðtækan rétt til eignarnáms, víðtækari en þekkzt hefði áður. En ég vil benda hv. þm. á 33. gr. jarðræktarlaganna. Þar segir svo: „Nú óskar maður að fá skak til ræktunar, og skal hann þá snúa sér til hlutaðeigandi hreppsnefndar eða bæjarstjórnar með beiðni um meðmæli hennar. Að fengnum meðmælum þessum getur hann snúið sér til sýslumanns eða bæjarfógeta og fengið hjá honum útnefnda tvo hæfa og óvilhalla menn til að meta skákina til peningaverðs, ef hann nær eigi samkomulagi við eiganda um árgjald af henni“.

Hér stendur, að einstaklingar þurfi ekki annað en að snúa sér til hreppsnefndar eða bæjarstjórnar um meðmæli; þurfi svo ekki annað en að fá sýslumann eða bæjarfógeta til þess að útnefna menn til þess að meta landið til peningaverðs, ef samkomulag næst ekki við eiganda. Eru þá fengin umráð yfir landinu. Hér er því ekkert um annað að ræða en áframhald af þeirri löggjöf, sem sett var fyrir 9–10 árum. Og ég fyrir mitt leyti tel það ekkert hættulegt fordæmi, þó heimilað sé að taka óræktað land eignarnámi. Þess ber ennfremur að gæta, að Reykjavík á t. d. margar jarðir og hefir mikið ræktunarland kringum sig. Getur hún því úthlutað íbúum kaupstaðarins landinu sjálf. Akureyrarbær sömuleiðis. Vestmannaeyjar á ríkið sjálft og er þegar búið að úthluta þar miklu landi til ræktunar. Hvernig hagar til í þessu efni á Ísafirði, Siglufirði og Hafnarfirði, þekki ég ekki. En ég gæti bezt trúað, að heimild þessara laga kæmi til mestra nytja einmitt fyrir þorpin á Austfjörðum. Eskifjarðarkauptún hefir t. d. orðið að seilast í annan hrepp eftir landi til ræktunar. Hefðu lög þessi verið komin í gildi þá, má vel vera, að hægt hefði verið fyrir það að fá eitthvað af því óræktaða landi, er liggur þar umhverfis. Það hagar víða svo til, að kringum kauptúnin og í grennd við þau liggja stórar jarðir, sem hafa mikið af óræktuðu landi. Fyrir eigendur þeirra er það í raun og veru gróði að geta selt nokkuð af hinu óræktaða landi og nota andvirðið til þess að rækta upp heimajörðina, því hér er ekki átt við, að tekið sé land af mönnum nema fullt verð komi fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fjölyrða frekar um þetta nú.