04.04.1932
Neðri deild: 42. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í C-deild Alþingistíðinda. (3588)

8. mál, erfðaleigulönd

Magnús Guðmundsson:

Ég hefi skilið suma hv. þm., sem talað hafa, þannig, að þeir telji skákir þær, er um ræðir í 5. gr., of stórar. Út af þessu vil ég taka það fram, að ég hefi skilið þetta ákvæði þannig, að tveir menn eða fleiri gætu verið um sömu skákina, t. d. kálgarðann. Mér virðist, að skákirnar megi alls ekki vera mjög litlar; þær eiga að vera til frambúðar og verða að miðast við það, að hægt sé fyrir kaupstaðarbúa að hafa dálítinn landbúnað sér til styrktar. Mega þær því alls ekki vera minni en 2 ha., eins og gert er ráð fyrir í frv.