11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í C-deild Alþingistíðinda. (3593)

8. mál, erfðaleigulönd

Sveinn Ólafsson:

Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú bent að ýms smíðalýti á frv. þessu, og er ég að vísu samdóma honum um flestallt það, sem hann tók fram. Hygg ég því heillavænlegast, að hv. landbn. taki málið enn af nýju til athugunar og færi ákvæði þessi í betra horf. Hér eru að vísu fram komnar frá n. brtt. á þskj. 369. Kann ég henni þakkir fyrir þær, því að hún hefir með þeim sýnt það, að hún hefir viljað taka fullt tillit til þeirra aths., sem ég gerði við frv., þegar það lá fyrir til 2. umr. Ég gæti því, að svo miklu leyti sem aths. mínar náðu þá, fellt mig við afgreiðslu málsins með þeim till. til breyt., sem frá landbn. hafa komið. En vegna þeirra aths., sem hv. 2. þm. Reykv. gerði nú, teldi ég það betra, að frv. fengi nýja athugun og væri fært í nýjan búning. Mér er það mikið áhugamál, að frv. þetta verði vel úr garði gert og að fyrirmæli þess geti komið sem fyrst til framkvæmda.

Í framhaldi af því, sem ég tók fram við 2. umr. um 8. gr., vil ég geta þess, að vafasamt er, hvort þau fyrirmæli hennar getu staðizt, að leigan af hálfu leigusala sé uppsegjanleg um aldur og æfi. Ég hefi jafnan vitað erfðaleigusamninga, sem gerðir hafa verið til langs tíma, miðaða við eitthvert árabil. Ég hefi vitað þá látna gilda til 50 ára, 75 ára eða jafnvel 95 ára. En slíka eilífðarsamninga, sem ræðir um, hefi ég, aldrei heyrt talað um fyrr. Í uppkasti til breyt. á frv., er landbn. fékk hjá mér og hún að mestu leyti hefir þrætt í brtt. sínum, er nú liggja fyrir, hafði ég gert till. um, að erfðaleigutímabilið væri kveðið 75 ár, eða 95 ár, ef n. vildi heldur fallast á það. En brtt. n. sýna það, að hún hefir ekki viljað taka þetta upp.

Ég skal ekki tefja umr. lengur, en ég endurtek þá ósk mína, að málið verði tekið út af dagskrá og umr. frestað, svo að n. gefist færi á að taka málið til athugunar af nýju áður en því verður lokið í d. Það ætti ekki að tefja frv. mikið. Hitt er mest um vert, að málið fái sem bezta búningsbót áður en það fer héðan úr deildinni.