11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í C-deild Alþingistíðinda. (3595)

8. mál, erfðaleigulönd

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég vildi styðja þá till. hv. 2. þm. Reykv., að málið verði tekið út af dagskrá og athugað nánar í landbn. Það er ekki hægt að benda á þann möguleika, eins og hv. þm. A.-Sk. gerði, að láta athuga málið í Ed. Við höfum ekkert vald yfir því, hvað við það er gert þar, en ráðum aðeins, hvað gert er við það hér. Ég vildi gera eina aths. við 3. gr. frv. Hún gerir engar takmarkanir á því, að leggja megi undir sig jarðir, og þá heldur ekki þær jarðir, sem eftir 1. frá 1905 um sölu þjóðjarða og 1. frá 1907 um sölu kirkjujarða eru samkv. 2. gr. téðra laga undanþegnar sölu, vegna þess að þær eru ætlaðar fyrir embættissetur, skóla, sjúkrahæli eða til annara almenningsnota.

Ef frv. þetta verður samþ. óbreytt, þá virðist líka mega taka slíkar jarðir, sem hið opinbera ætlar að nota, ef þær þykja hentugri til þess en annað land. Þetta tel ég viðurhlutamikið. (ÞorlJ: Þetta sama ákvæði er í jarðræktarlögunum).

Það getur verið, að þetta sé líka í þeim. Og þó að annað sé sagt í eldri 1., þá er hætta á því, að þau yrðu látin víkja fyrir ákvæðum nýrri laga. Heimildin í þessu frv. er skilyrðislaus, og það tel ég ótækt og óhæft.