11.04.1932
Neðri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 632 í C-deild Alþingistíðinda. (3598)

8. mál, erfðaleigulönd

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. frsm. vildi gera aths. mína um 3. gr. frv. að engu með því að vitna í jarðræktarlögin frá 1923, sem hann taldi, að hefðu samskonar ákvæði, og þar sem það hefði ekki orðið að skaða hingað til, þá væri óhætt að lofa því að standa hér. Ég held, að hv. frsm. fari hér ekki með fullkomlega rétt mál. Ég held, að það leiki meiri vafi á því samkv. jarðræktarlögunum en þessu frv., að heimilt sé að taka jarðir ríkisins þannig. 31. gr. jarðræktarl. og næstu gr. á eftir ræða ekki um það að taka þessar jarðir, heldur gera af heim uppdrætti og áætlun um skiptingu landsins. Síðar eru svo ákvæði um það, hvernig menn geti eignazt þessar skákir. Nú skal ég ekki skera úr því, hvort með þessum ákvæðum er hægt að taka jarðir hins opinbera, er það þarf sjálft á að halda. En hv. frsm. upplýsti, að þetta hefði ekki verið talið heimilt, því ávallt hefði verið komið til Alþingis, er um þetta var að ræða. Ef litið er aftur á móti á frv., þá er það tvímælalaust, að ekki kemur til kasta Alþingis. Það stendur skýrum stöfum í 2. og 3. gr.:

„2. gr. Nú á kaupstaður eða annað sveitarfélag, sem kauptún eða sjávarþorp, iðnaðar- eða verzlunarþorp er í, land, sem hæft er til ræktunar og eigi eru líkur til, að halda þurfi á til húsalóða í náinni framtíð, og skal það þá selt á erfðaleigu þeim íbúum bæjar- eða sveitarfélagsins, er þess óska, samkvæmt þeim reglum, sem settar eru í lögum þessum.

3. gr. Nú liggur þjóðjörð eða kirkjujörð að kaupstað, kauptúni eða þorpi, og gilda þá ákvæði 2. gr. um þá jörð, ef bæjar- eða sveitarstjórn krefst þess, enda hafi sveitarfélagið eigi til umráða annað ræktanlegt land, er nægi þörfum sveitarmanna á erfðaleigulöndum, og eigi sé að mun óhaganlegra til afnota fyrir þá“.

Ég get ekki séð, að hér séu nokkrar takmarkanir á. Bæjar- og sveitarstjórnir geta tekið þessar eignir hins opinbera, þegar þeim sýnist svo, og það kemur ekki að neinu leyti til kasta Alþingis. Ég tel nauðsynlegt að setja hér inn í frv. svipað ákvæði og er í l. um sölu þjóðjarða og l. um sölu kirkjujarða, að bæjarstjórnirnar geti ekki tekið þessar jarðir, ef ríkið þarf á þeim að halda til sinna þarfa. Mér finnst því þessi röksemd hv. frsm. um jarðræktarl. ekki duga.

Bæði þetta og eins það, er hv. 2. þm. Reykv. hefir bent á, veldur því, að ég tel það sjálfsagt að taka málið út af dagskrá, svo það verði athugað betur og menn eigi kost á að gera brtt. við það.