05.04.1932
Neðri deild: 43. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í B-deild Alþingistíðinda. (36)

1. mál, fjárlög 1933

Dómsmálarh. (Jónas Jónsson):

Við hæstv. fjmrh. verðum að skipta með okkur þessum stundarfjórðungstíma, sem okkur er ætlaður. Ég ætla að nota fyrstu mínúturnar til þess að leiðrétta ósannindi, sem hv. þm. G.-K beindi til mín í ræðu sinni. Að vísu eru það ekki hættuleg ósannindi, en þau eru þó þess eðlis, að ekki er rétt að láta þeim ómótmælt. Hv. þm. sagði, að ég hefði sýnt eyðslusemi í því að kaupa bíl fyrir ríkissjóðsfé til minna afnota. Ég seldi bíl fyrir ríkisins hönd um þingrofið í fyrra, og enginn bíll hefir verið keyptur af stjórnarráðinu síðan. Það hefir aldrei komið svo mikið sem til orða, að ég keypti bíl fyrir landið síðan um alþingishátíð. Þetta eru náttúrlega ekki mikil ósannindi, ef miðað er við daglegan munnsöfnuð þessa hv. þm. En einmitt þessi rakalausu ósannindi, þótt um lítið se, sanna, hve tilgangslaust er að trúa nokkurri fullyrðingu þessa manns.

Þá sagði hv. þm., að ég væri frekur á minn hluta í landssjóði til minna eigin þarfa. En ég vil segja honum það, að ég held, að enginn embættismaður í Íhaldsflokknum hafi fallið frá að taka dýrtíðaruppbót á launum sínum og þingkaupi, en það hefi ég gert. Það er skrítið að beina ásökunum um fjáreyðslu einmitt til þeirra, sem sýna, að þeir vilja lækka við sig. Þá eru það líka ósannindi, að ég hafi notað varðskipin í mínar þarfir. Hv. þm. á víst við það, að ég átti þátt í því, að öllum frambjóðendum við landskjörið 1930 var boðið að hafa tal af kjósendum sínum með því að fara með varðskipunum kringum land, þegar björtust var nóttin og næstum ekkert fyrir skipin að gera við gæzlu. Þetta varð sú myndarlegasta fundarferð, sem farin hefir verið af öllum flokkum í alþjóðar þágu. En kostnaðurinn var ekki mikill, þegar þess er gætt, að skipin hlutu að vera á kostnaði landsins þessa daga sem aðra.

Það er aðallega tvennt, sem hefir komið íhaldinu í þetta úfna og órólega skap, sem speglast í barnalegum og kjánalegum ásökunum á andstæðingana. Það er það, að við höfum hafið nýja fjármálastefnu í landinu. Það var hæstv. forsrh., sem stöðvaði hið mikla eyðsluskuldasafn 1922, sem andstæðingar okkar höfðu efnt til. Ennfremur höfðum við framsóknarmenn bent á, hvað hættulegt væri að hafa hin gífurlega þau laun, sem andstæðingar okkar höfðu komið á við Íslandsbanka, útgerð, við skipstjóra og við Eimskip, o. s. frv. Þessar óhæfilega háu launagreiðslur eru algerlega óheilbrigðar og þær eru undirstaðan undir dýrtíðinni í Reykjavík, sem mergsýgur landið. Það er rétt, að andstæðingunum hefir staðið stuggur af þessari pólitík okkar framsóknarmanna, og þeir hafa leitað ýmsra ráða til þess að rógbera þessa stefnu okkar. Ég get gjarnan minnt á eitt dæmi, af því að áður hefir verið drepið á það hér við umr., er flugumaður einn var til mín sendur um það leyti, sem loka átti Íslandsbanka. Sá flugumaður hafði ákveðið erindi, en það fór nú svo, að það var bankinn sem dó, en ekki ég, þó að til annars væri ætlazt.

þessi barátta er ekki ný. Hún hefir nú staðið hér á landi á verzlunarsviðinu síðan kaupfélögin voru stofnuð. Hún fluttist inn á svið stjórnmálanna með stofnun Framsóknarflokksins, og hefir gert vart við sig í flestum stærri málum þjóðarinnar síðan, og nú síðast er þessi barátta flutt yfir á kjördæmamálið. Við framsóknarmenn höfum alltaf haft ákveðinn málstað að verja í þessari baráttu. Við höfum barizt fyrir rétti almennings gegn ójafnaðarmönnum þjóðfélagsins. Við höfum staðið á hinni sögulegu þróun og við stöndum á hinum sögulega rétti. Ég get sagt það, að við framsóknarmenn erum ekki hræddir við byltingar. Við látum ekki undan hótunum frá hægri eða vinstri. Og ef íslenzka þjóðskipulagið fellur í rústir, þá verður það ekki fyrir það, að við svíkjum ráð, heldur hitt, að ofbeldismennirnir verða yfirsterkari. Það hafa flugumenn komið til mín, en þeir voru sendir út aftur. Og ég vonast eftir því, að þegar mesti móðurinn rennur af þeim, er digurbarkalegast hafa talað hér, þá sjái þeir að sér, sjái, að það er ekki réttasta og sigursælasta leiðin að fara með hótunum, og þegar dómurinn kemur næst utan af landinu, þá veit ég, að hann fellur þeim ekki í vil. Hann dæmir þannig, að þeirra bardagaaðferð sé ekki bardagaaðferð góðs málstaðar. Við framsóknarmenn munum standa fast að okkar stefnu. Við treystum því, að ráðið til þess að komast út úr kreppunni með sigri sé skipuleg vinna í vandamálum þjóðarinnar, en ekki uppreisn og bylting, og við treystum því, að dómur þjóðarinnar verði staðfesting okkar stefnu. Þá vona ég, að íslenzka þjóðin komist yfir kreppuna með sigri, eins og svo marga erfiðleika fyrr og síðar.

Ég vil svo kveðja alla heiðraða áheyrendur og þakka áhugann og vökurnar, sem þeir hafa á sig lagt til þess að hlýða á mál okkar. Ég veit, að við framsóknarmenn megum vænta stuðnings frá hinum dreifðu byggðum landsins til þess að leysa vandamálin á þessum erfiðu tímum.