03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í D-deild Alþingistíðinda. (3644)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jóhann Jósefsson:

Þegar maður hlustar á jafnalvöruþrungnar ræður og þær, sem hér hafa heyrzt, bæði til hv. 1. þm. Rang. og til hv. 1. þm. Skagf., þar sem þeir hafa lýst því, hversu mikil verkefni á þessu sviði séu óunnin, þá er það broslegt að sjá, að að þessum framkvæmdum eiga að starfa nokkrir menn milli þinga, er vinni kauplaust. Hinsvegar vil ég bæta því við, svo ekki verði misskilin aðstaða okkar, sem ekki getum fallizt á þessa till., að það, sem við meinum með andstöðu okkar, er það, að við teljum, að með þessari till. sé verið að bægja frá þeim sérstöku óskum, er frá iðnaðarmönnum hafa komið og hér liggja fyrir, um ófyrirsjáanlegan tíma. Hv. 4. þm. Reykv. tók þetta líka fram og á þetta hafa fleiri hv. þm. fallizt. Hv. 1. þm. Rang. sagði, að við værum að tefja fyrir málinu með þessu. En ég vil spyrja hv. þm., fyrir hverju verið sé að tefja. Ekki er það fyrir iðnaðinum, hvorki til sjávar eða sveita. Hið eina, sem við kunnum að tefja fyrir, er yfirborðsafgreiðsla á mikilsverðum málum. Ég hefi átt tal við iðnaðarmenn um þessa till. Þeir líta svo á, að í henni felist þetta svar Alþ. við málaleitunum þeirra: „Farið þið burt að sinni“. — Af hverju er nú þessi till. fram komin? Hún er fram komin eftir óskum iðnaðarmanna. Þeir senda stj. óskir sínar bréflega. Stj. leggur svo þessa till. fyrir og í öðru formi en hún hefir nú, þar sem henni var breytt í Ed. Upphaflega var verkefni það, sem n. var ætlað að vinna, í 4 liðum. 1. að endurbæta iðnaðarlöggjöfina frá 1926; 2. að endurskoða tollalöggjöf iðnaðarins; 3. að athuga möguleika um aukinn iðnað, einkum úr íslenzkum efnivörum; 4. að athuga um skipun menntamála iðnaðarins.

Af þessu er það ljóst, að ríkisstj. hefir takmarkað sig í till. við þau mál, er snerta iðnað. En í meðferð Ed. breyttist þetta svo, að iðjan var tekin með. Nú er það, að því er virðist, ekki ljóst í hugum manna, hvernig skilgreina skuli þessi tvö hugtök, iðju og iðnað. En iðja er vinnsla hráefna í nokkuð stórum stíl, eða þá að bæta þær vörur. Iðnaðurinn er annað. Til hans teljast félög þau, er iðnaðarmenn þessa lands hafa stofnað, og það var að undirlagi þeirra, að þetta mál var tekið upp. Þó nú að við þetta væri bætt einhverju fleira, sem t. d. snerti sjávarútveginn, svo sem hreinsun meðalalýsis o. fl., þá þarf enga mþn. til að vinna að þessu. Aðeins þarf að fá till. frá eða kveðja til aðstoðar þá menn, sem bezt þekkja til þessara mála, hver á sínu sviði. En hitt er óþrjótandi verkefni, ef athuga skal á öllum sviðum þau verkefni, er fyrir geta legið um vinnslu úr framleiðslu landsmanna. En ef það virkilega væri á færi mþn. að vinna að því máli svo verulegt gagn væri að, þá mundi ég ekki telja eftir, þó skipuð væri slík n., og jafnvel þótt eitthvað þyrfti að borga henni. En ég er afskaplega vantrúaður á, að starf slíkrar mþn. beri raunhæfan og verulegan árangur í þeim efnum, sem hér um ræðir. Eins og tveir hv. þm. hafa drepið á, þá er ég hræddur um, að slík n. myndi kosta stórfé. Er það og venjulegt, þegar um störf slíkra n. er að ræða. Hitt er öllu eðlilegri gangur um þessi mál, að einstaklingar eða félög, sem hagsmuna eiga að gæta um þessar vörur, ryðji brautina. Og þegar um vinnslu útgengilegra vara hjá efnilegum mönnum er að ræða, þá er rétt, að hið opinbera styðji menn yfir byrjunarerfiðleikana, þegar séð er, að þeir eru á réttri braut. En því er ekki að neita, að hv. Alþ. hefir oft fatazt í því að gefa tilraunum manna viðeigandi gaum.

Hér er eiginlega blandað saman tveimur óskyldum atriðum. Það, sem stj. lagði fyrst til, hefir hún vel á sínu valdi að gera án þess að hafa n. sér til aðstoðar. Einhver stjórnarsinni var að tala um það, að með því að vísa þessari till. til stj. væri henni sýnt mikið traust. En hér er hvorki um traust né vantraust að ræða. Hver stj. sem er á að geta annað eins og þetta milli þinga.

Hv. 1. þm. Skagf. talaði um það, hversu skinnin væru í lágu verði, og leit á það sem bjargræði til þess að fá verð fyrir skinnin, að skipuð yrði mþn., er settist á rökstóla. En ég vil benda hv. þm. á það, að til eru nú þegar sútunarverksmiðjur hér. Og þeir menn, sem eru riðnir við S. Í. S. og líklegir væru til að verða skipaðir í mþn., sitja tæplega inni með neina þá þekkingu, er þeir væru líklegir til að koma fram með frekar í mþn. en þótt hún væri ekki skipuð. Ég tel það víst, að S. Í. S. hafi athugað, hvað hægt væri að gera í þessu efni, en geymi það ekki mþn. að gera þá athugun. Að því er snertir meðferð og sölu hráefna þeirra, sem framleidd eru, þá er þar um verk að ræða, sem ekki er hægt að gera í flýti. Og með því að taka það með, þá er gengið inn á aðra braut en þá, sem iðnaðarmennirnir höfðu hugsað sér að fara, — braut, sem ég að vísu ekki lasta, að farin verði, en frá því þarf þá líka svo að ganga, að von sé um árangur, en hans er varla að vænta af slíkri n. sem hér um ræðir. Og það eitt er víst, að iðnaðarmenn munu engar bráðar bætur sjá á sínum atvinnurekstri, þó þessi leið verði farin.

Það, sem þeir fara fram á, sem ekki vilja vísa þessu máli til stj., og það, sem stj. hafði ætlazt til með upprunalegu till., var alls ekki meira verkefni en þinginu er fært að inna af hendi. Hinn upphaflegi tilgangur iðnaðarmanna var sá, að unnið væri að því að gera tollalöggjöfina að því er iðnaðinn snertir betur úr garði, svo að þeir ættu betri aðstöðu í lífsbaráttunni gegn erlendum iðnaðarvörum. Þessa væntu iðnaðarmenn sér í upphafi, en þegar þessu svo var snúið upp í það að samþ. þessa þáltill. eins og hún nú er útbúin, þá er eðlilegt, að þeir séu ekki ánægðir. Mín andmæli eru byggð á því, að þetta verði ekki til að greiða fyrir málefnum iðnaðarmanna, en á hinn bóginn verði það til að svæfa þær litlu umbætur, sem ýmsir þm. hafa hugsað sér að gera, jafnvel á þessu þingi, á málum iðnaðarins. Því það hefir jafnan verið svo, að þegar búið er að setja n. í eitthvert mál. Þá er vísað til hennar, ef farið er fram á einhverjar umbætur, er snerta það mál, og sagt, að það verði að bíða þangað til viðkomandi n. sé búin að ljúka störfum. Ég vil benda á eitt dæmi þessu til sönnunar. Það var sett mþn. til að athuga tryggingarlöggjöfina, en ég veit ekki til, að það sé farinn að koma fram neinn árangur af þeim undirbúningi undir að setja nýja tryggingarlöggjöf. Og það þýðir ekki að hreyfa neinum breytingum t. d. á sjúkra- eða ellitryggingarlögunum, þó þess sé hin mesta þörf, því það er alltaf sagt, að þetta verði að gera í einu lagi. Og svona mundi þetta fara hér, ef farið væri inn á þá braut, sem till. gerir ráð fyrir.

Tilgangurinn er þessi hjá okkur, sem viljum vísa þessu máli til stj., að það komi þaðan betur undirbúið og að við því verði snúizt af meiri alvöru en að vera að kasta upp um það þáltill. og segja svo, að það verði afgr. af mþn., og þar á ofan að láta hana vinna kauplaust. Þá sjá allir, hvers árangurs er að vænta af starfi n. fyrir iðnaðarmenn, þegar hún á að vinna kauplaust að meðferð slíkra mála.