03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í D-deild Alþingistíðinda. (3646)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Magnús Guðmundsson:

Ég er mjög samdóma hv. þm. Vestm. í þessu máli og get því látið mér nægja örfá orð.

Ég held, að það sé mikið til í því, að bezta ráðið til að draga mál á langinn sé að skipa í það nefnd. Það hefir verið reynslan undanfarið, að slíkar nefndir bera ekki mikinn árangur. Síðustu 4 árin hafa verið notaðar um hálft annað hundrað þús. krónur til nefndarstarfa, og ég held, að störf þeirra borgi illa þann kostnað. Ég er því ekki trúaður á þessar nefndir yfirleitt. Ég held, að það hefði verið betra að verja þessu fé t. d. í sútunarverksmiðju, því ég býst við, að það hefði nægt til að koma upp einni slíkri myndarlegri og allfullkominni verksmiðju.

Ég þykist nú sjá það í hendi mér, að ef þessi n. á að vinna kauplaust, þá muni hún ekki leggja í starfið gífurlega mikla vinnu; hún mun þá kaupa út þá vinnu. við þetta; sem hægt er, því flestir hafa nóg við tímann að gera til að vinna fyrir sjálfa sig.

Að því er snertir samsetning n. vil ég segja það, að þó það komi í hana maður frá S. Í. S. og maður frá Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda, þá hefi ég enga trú á, að þeir muni finna upp, hvað við eigum að gera til að vinna iðnaðarvörur úr skinnum og fiski, og allra sízt, að þeir finni upp neitt í því efni, sem þeir gætu ekki fundið upp hvor í sínu lagi. Ég lít svo á, að S. Í. S. beri skylda til að gera sitt til að gera landbúnaðarafurðirnar svo verðmætar sem unnt er, og að F. Í. B. beri á sama hátt skylda til að gera sitt til að gera sjávarafurðirnar svo verðmætar sem unnt er. En hvers vegna ættu svo þessar skyldur að margfaldast, þó menn frá þessum aðilum kæmu á fund til að tala saman? Ég hefi enga trú á, að þær geri það. Hér þarf að gera mikið, en ekki að tala mikið. Það nær ekki tilganginum, það sem þessi nefnd mundi gera, að tala mikið, skrifa mikið, láta prenta mikið og búa til einhver frv. Ekkert af þessu þarf að gera, heldur eitthvað í verklega átt. Ég er ekki í vafa um það, að S. Í. S. mundi útvega upplýsingar um, hvað það kostar að setja á stofn sútunarverksmiðju, alveg án allrar nefndarskipunar. Og ástæðan til þess, að S. Í. S. hefir ekki þegar sett á stofn slíka verksmiðju, er engin önnur en sú, að það vantar fé til þess, og við bætum ekki nokkurn skapaðan hlut úr því með nefndarskipun.

Út af því, sem hv. frsm. n., þm. Barð., sagði, að stjórn Iðnaðarmannafélagsins hafi fallizt á þessa till., þá andmæli ég því ekki, en ég hefi heyrt það á iðnráðinu, að það sé á móti henni. Og það er vitanlega ekki sama, stjórn Iðnaðarmannafélagsins og iðnráðið, því iðnráðið er saman sett af fulltrúum allra félaga iðnaðarmanna hér í bæ.