03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í D-deild Alþingistíðinda. (3648)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Mér er alveg óskiljanleg andstaða ýmsra hv. þdm. móti þessari till. Ég ímynda mér, að þeir, sem upphaflega hafa borið þetta mál fyrir brjósti, undrist, hvað mótmælendur till. hafa þyrlað upp miklu ryki út af henni. Það hefir beinlínis verið farið fram á það af iðnaðarmönnum sjálfum, að það yrði skipuð n. til að íhuga, að hve miklu leyti við gætum unnið meira úr okkar eigin efnum en hingað til hefir verið. Þeir hafa ákveðið farið fram á þetta, og þó ekki væri neitt annað, þá væri sjálfsagt að sinna þeirri málaleitun. Ég er að vísu ekki viss um, að þetta sé alveg það sama, sem þeir ætluðust til, á þann hátt sem till. nú er orðuð, en ég er hræddur um, að breyting á henni mundi verða til þess, að hún kynni að daga uppi. Og ég vil, að það, sem við höfum talað við þessa menn, stöndum við við; því við höfum lofað ýmsu í þessum efnum — það þýðir ekki að neita því — og hv. 4. þm. Reykv. ekki hvað minnstu; og ég fyrir mitt leyti treysti mér ekki til að standa á móti fyrsta sporinu.

Aðalmótmælin gegn till. hafa verið þau, að n. eigi að vinna kauplaust. En þetta er herfilegur misskilningur. Það, sem hér er um að ræða, er vitanlega hitt, að hér er verið að kasta félögum þeim, sem þátt taka í nefndarskipuninni, á herðar kostnaðinum af nefndarskipuninni að því er greiðslu til nm. snertir. Og ég segi fyrir mitt leyti að því er mitt félag snertir, þá sæi ég ekkert eftir þessu, þegar það opinbera greiðir allan annan kostnað við nefndarstörfin, og þar sem um mikilsvert mál er að ræða, eins og t. d. endurskoðun tollalöggjafarinnar, sem ein út af fyrir sig gæti meira en endurborgað hlutaðeigendum kostnað þeirra af þessu. (Forsrh.: Það er ekki hægt að skylda félögin til að greiða mönnunum kaup). Nei, það er ekki hægt að skylda þau til þess, en það er sjálfsagt, að þegar þau hafa beðið einhvern mann um að taka sæti í n., þá segir sá maður: Ég geri það ekki kauplaust. Og þá verður félagið að greiða þetta. Þetta er aðferð hjá Alþ. til að losna við kostnaðinn að þessu leyti og slengja honum yfir á félögin, og ég tel, að það megi gjarnan vera svo, því ef þau vilja ekki kosta til þessa nokkrum krónum, þá er nú ekki áhuginn fyrir þessu máli mikill. En það er alveg misskilningur, að nm. vinni starf sitt kauplaust; þeim verður borgað það frá félögunum.

Mér þótti hv. 4. þm. Reykv. tala um till. á nokkuð breiðum grundvelli, þegar hann var að skilja á milli iðnaðar og iðju, en þau mál eru náskyld, og það er, alveg óþarft að vera að skýra þau orð vísindalega eða að vera að gera vísindalega skilgreiningu á þessu tvennu í þessu sambandi. Enda fór það nú svo hjá honum, að þegar hann kom að því að fara að útskýra þetta, þá sagði hann að það, sem unnið væri í smáum stíl, væri iðnaður, t. d. heimilisiðnaður, en hitt iðja, sem unnið væri í stærri stíl, en þetta kom náttúrlega ekkert hinu við, hvort n. ætti ekkert að greiða fyrir starf sitt, enda þessu máli alveg óviðkomandi, hvað menn kalla iðnað og hvað iðju, og skiptir engu máli að greina það í sundur á þessu stigi.

Rökin, sem færð hafa verið fyrir því að vísa þessu máli til stj., eru þau, að hún eigi að safna um það gögnum hjá þeim aðiljum, sem nefndir eru í till., og leggja þau svo fyrir næsta þing, en í öðru orðinu hefir það þó komið fram hjá andstæðingum till., að það gerði ekkert til, þó þetta drægist 1 ár enn. (MJ: Aðallega til þess að fresta því). Já, það væri nú bezt að láta þann vísdóm koma undir dóm iðnaðarmanna og vita, hversu gott ráð það þætti. Ég held, að það verði ekki gripið til meiri örþrifaraka en þetta, enda er það sýnilegt, að það er bara til að tefja málið. Máltækið segir: „Hálfnað er verk, þá hafið er“, og ég tel, að verið sé að byrja á málinu með þessari nefndarskipun og að þeir, sem tilnefndir eru í till., eigi fullan rétt á að taka þátt í því starfi, sem þar um ræðir.

Ég held, að hv. þm. ættu vel að geta unað við, að till. verði samþ. óbreytt, því ég hefi fært rök að því, að það muni aldrei standa á þessum félögum, sem nefnd eru í till., að skaffa menn í n., því þau munu sjálf borga þeim, þó ríkissjóður geri það ekki.

Hv. þm. N.-Ísf. var að vísa til Fiskifélagsins og Búnaðarfélagsins, að þau gætu unnið þetta starf. En ég held, að ekkert sé fjarskyldara þeirra störfum en það, að fara inn í það að athuga tollalöggjöfina og sjá, hvar hægt sé og hvar eigi að létta tollum af iðnaðinum í landinu, og álít ég, að það sé hin mesta fjarstæða að senda málið þangað. — Ég álít, að það sé meginfjarstæða.

Hv. þm. (MJ) var nokkuð kvikur fyrir því, að það væri verið að afflytja hann fyrir að vera á móti þessu máli. Nei, a. m. k. ætla ég ekki að gera það. En hann vill ekki vinda bráðan bug að þessu máli. Og ég held, að þeim mönnum, sem hlustað hafa á hann og hans loforð um mál iðnaðarins í landinu, hljóti að finnast lítið til um allt það tal, ef hann ætlar nú að bægja þeim frá að taka þátt í þessu máli, sem er nauðsynlegt til þess að komast að góðri niðurstöðu. Það er ekki hægt að mæla á móti því, sem hv. 2. þm. Skagf. sagði, þegar hann sagðist ekki vonast eftir neinu góðu af þessu nefndarstarfi. Það er alltaf hægt að segja fyrirfram. En hitt er líka hægt að segja, að þó þetta starf verði ekki fullkomið, þá kæmu þó ýms drög fram, sem væri ólíkt hægara fyrir þingið að vinna úr við samningu löggjafar um þetta efni en það er að ganga nú til þess verks að öllu óathuguðu. Og þó menn vilji segja, að fulltrúar frá S. Í. S. og F. Í. B. eigi lítið erindi í n., þá veit ég þó ekki betur en að þau séu langstærstu aðilarnir eða framleiðendur í iðnaði og iðju hér á landi, ef menn vilja skilgreina eða sundurgreina það. Og það er því sjálfsagt, ef menn á annað borð sjá út fyrir trésmíðaverkstæði eða eitthvað þess háttar í þessum málum, að taka menn frá þessum aðilum í n.

Hv. þm. Vestm. taldi rétt að vísa þessu máli burt frá þinginu til stj. Hann hefir nú ekki hingað til haft neina tröllatrú á hæstv. ríkisstjórn, og ég vildi því mega biðja hann um skýringu á þessu fyrirbrigði og því, hvað hefir snúið honum svo, að hann er nú farinn að treysta henni svona vel. Ég þvert á móti treysti henni ekki til að gera neitt í þessu máli; ég trúi henni ekki til að vinna að því að fá þær upplýsingar, sem hún gæti fengið um þessi mál, og vinna úr þeim. Ég hefi ekki trú á, að hún kæmi neinu lagi á það verk, svo að það væri fallið til þess að leggja það fyrir Alþ.

Hv. þm. Vestm. sagði, að það væri meira unnið við að tefja málið en samþ. það. En ég mun óhræddur leggja það undir dóm þeirra iðnaðarmanna, sem hlustuðu á hann á stórum fundi hér í Rvík, hvort sé betra að vísa þessu máli til stj., þar sem ekkert verður gert í því, eða að fá menn til að hrinda af stað málinu og vinna að því, sem tími er til kominn, því þingið hefir mjög vanrækt þessi mál. Hann þykist alltaf hafa borið þessa atvinnugrein fyrir brjósti. En þegar nú kemur fram hér á þinginu till. um að gera eitthvað fyrir hana, þá byrjar hann á að rísa öndverður gegn því, að byrjað verði á byrjunarstiginu. Þetta er sú meginfjarstæða, þó ýmsir kynnu að óska, að það væri eitthvað öðruvísi frá till. gengið.

Það er engin ástæða fyrir mig að fara út í skinnaverzlunina. Það er alveg óskylt mál. Ég skal því ekki tefja þingið á því að fara minnstu ögn út í það. Það á ekki við á þessu stigi.