03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í D-deild Alþingistíðinda. (3652)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Ólafsson [óyfirl.]:

Hv. 4. þm. Reykv. vildi ekki kalla lýsisframleiðslu iðnað. Ég vil benda hv. þm. á, að til er sú tegund lýsis, sem kölluð er iðnaðarlýsi. Það vita allir, sem til þekkja, að slíkt lýsi er til; um það þarf ekki að deila. Hv. þm. hlýtur því að skilja, að lýsisframleiðsla er iðnaður.

Hv. þm. heldur fram, að það séu einhverjir ógurlegir leyndardómar, sem vaxi upp hjá öllum, sem hafa þekkingu á þessum málum, og þó vill hann ekki menn í n. frá þessum 5 félögum, af því að þetta sé allt svo mikið og háfleygt og þess vegna sé ekki hægt að nota þá.

Hverjir eiga þá að vera í n.? Á að fá einhvern rúnalesara til að koma lagi á þetta?

Það er ekki hægt að mæla á móti því, að ef þessir aðilar vilja sinna þessari nefndarskipun, þá verða þeir að leggja eitthvað á sig. Ég tel sjálfsagt, fyrst Alþingi fellst ekki á að greiða þennan kostnað að fullu, þá vilji félögin sjá fyrir þessu, því að það er ákaflega mikils virði fyrir þau, að þessi n. verði sett til starfa. Þó að hún gerði ekkert annað en að gera nauðsynlegar athuganir á tollalöggjöfinni, þá gæti af því einu hlotizt ómetanlegt gagn. Þetta er að vísu á byrjunarstigi, en samt má vona, að þetta leiði til einhvers betra og knýi menn til að leggja eitthvað á sig, hver fyrir sitt félag, eða þá að félögin greiði þeim eitthvað fyrir.

Hv. 4. þm. Reykv. var að tala um, að það ætti að ganga til undirbúnings. Það er einmitt undirbúningur, sem hér er um að ræða og er í því falinn, að þessi 5 manna nefnd verði skipuð.