04.06.1932
Efri deild: 94. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 831 í B-deild Alþingistíðinda. (367)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Eins og ég gerði grein fyrir við fyrri meðferð þessa máls, þá hefi ég í því nokkra sérstöðu, sem ég hefi lýst á þskj. 494. Ég er í sjálfu sér ekki á móti því, að lagður sé á benzínskattur, en ég vil, að það sé gert í því augnamiði að gera varanlegar umbætur á vegakerfi landsins. Ég hefi einnig lýst því, að ég get ekki fylgt þessari löggjöf óbreyttri, en óska eftir því, að kaupstöðum landsins og fjölmennari verzlunarstöðum verði ánafnaður einhver hluti af þessu gjaldi til samgangna og varanlegra umbóta á vegum, sem rætt er um í 8. gr. c-lið þessa frv., að því er snertir varanlegar umbætur á þjóðvegum, malbikun eða önnur varanleg slitlög. Nú hefir á milli umr. verið reynt að fá samkomulag um frv. í þessa átt, og hefir komið fram vilji til samkomulags um þetta, en vegna naumleika tímans hefir þótt mjög torvelt að gera þær uppástungur svo vel rökstuddar, að telja mætti öruggt að þær hefðu varanlegri löggjöf. Hinsvegar er því auðvitað haldið fram, að eins og nú standi megi að nokkru leyti skoða þetta frv. sem kreppuráðstöfun til fjáröflunar handa ríkissjóði í yfirstandandi fjárþröng. Og ég hefi fallizt á að láta niður falla á þessu þingi ákvarðanir um breyt. um meðferð fjárins, því að löggjöfin verður í þetta sinn einungis sett til bráðabirgða, þannig að hún gildi til ársloka 1933, og verði næsta þing þá að taka málið til meðferðar. Vænti ég, að þá náist samkomulag um að ætla verzlunarstöðum svipaðan hundraðshluta eins og t. d. kaupstaðir í Danmörku njóta af útsvarandi skatti þar. Með þessu fororði get ég greitt atkv. með frv., svo framarlega sem brtt. fjhn. verður samþykkt.