20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (3688)

734. mál, leiga á landi Garðakirkju

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ég er hér á annari skoðun en hæstv. dómsmrh., því að ég álít, að bærinn þurfi að fá allt þetta land til umráða. Það mundi sýna sig fljótlega, að ef bærinn fengi allt þetta land, þá mundi það bráðlega verða allt tekið til ræktunar.

Ég álít, að það land, sem Hafnarfjörður á að fá þarna, eigi ekki að takmarkast við garðræktina eina, eins og kom fram hjá hæstv. dómsmrh. Hafnfirðingar eiga líka að fá þarna land til grasræktar, því að það má telja víst, að einhverjir vilji fá land til slíkrar ræktunar. Mér virðist því, að hér eigi að ganga lengra en hæstv. ráðh. gaf von um, að gert yrði.

Ég get ekki séð, að nein hætta sé á því, að presturinn í Garðaprestakalli setjist að í Görðum. Það er líka hægt að koma í veg fyrir það, með því að fá yfirlýsingu frá öllum þeim, er nú sækja um þetta prestakall, að þeir ætli sér ekki að setjast að í Görðum. (Dómsmrh.: Þær yfirlýsingar liggja ekki fyrir nú). Nei, en stj. getur útvegað þær. Og ég er þess fullviss, að sá af þessum umsækjendum, sem vill ekki gefa slíka yfirlýsingu, verður alls ekki kosinn í þessu prestakalli. Það er því engin hætta á, að kirkjumálaráðh. geti ekki útvegað þessar yfirlýsingar, ef hann vill beita sér fyrir því.

Að öðru leyti skilst mér, að hæstv. ráðh. væri velviljaður þessu máli, og vona ég, að hann sýni það í framkvæmdinni á þessari þáltill., ef samþ. verður.