19.03.1932
Efri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í D-deild Alþingistíðinda. (3704)

167. mál, ljóslækningar berklasjúklinga

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson):

Eins og ég held, að hæstv. dómsmrh. hafi tekið eftir, ætlaðist ég til þess, að till. væri borin fram í báðum deildum. Held ég, að þýðingarlaust sé að fá málið afgr. frá annari deildinni aðeins. Bjóst ég ekki við því, eins og líka kom fram í ræðu hæstv. dómsmrh., að stj. tæki hana til greina, ef ekki yrði afgr. frá báðum deildum. Vil ég þegar taka það fram, að hér er ekki um nein ný fjárframlög að ræða, sem ekki eru skýrt tekin fram í lögum. Stendur í till., að leita skuli samninga við ljóslækningastofur, og skuli landlæknir gera þann samning, en ekki er skýrt tekið fram, hvaða stofur það skuli vera. Eru það e. t. v. þessar stofnanir, sem hæstv. dómsmrh. kallar iðnaðarstöðvar. Fer hér sem oft áður, að það andar kalt frá dómsmrh. til lækna og heilbrigðismála. Vil ég þó ekki rífast við hann um þetta mál. Gerði ég það í sumar, og býst ég við, að hann hafi fengið nóg af því.

Hæstv. dómsmrh. byrjaði með því að segja, að það hafi sennilega ekki verið lögum samkv. að borga þessar ljóslækningar, því að ef svo hefði verið, hefði ég og aðrir hlutaðeigendur farið í skaðabótamál við ríkið. Vil ég því taka það fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, að ég hefi ekki eyris hagnað af ljóslækningunum. Ég kem aðeins fram í þessu máli sem læknir, sem bæjarstjórnarmeðlimur og sem forsvari margra vesalinga, sérstaklega barna, sem geta ekki leitað sér ljóslækninga, t. d. vegna þess, að foreldrar þeirra kinoka sér við því að fá ókeypis læknishjálp hjá bænum. Því hefir oft verið dróttað að mér, að ég hafi hafið máls á þessu af því, að það komi við mína pyngju, en ég vona, að hv. dm., nema e. t. v. hæstv. dómsmrh., taki mig trúanlegan án þess að ég leggi fram sannanir, er ég segi, að ég hafi engra fjárhagslegra hagsmuna að gæta í þessu máli.

Þá er að minnast á berklavarnalögin. Var talað um, að þeir mætu læknar, er þar koma við sögu, væru ekki starfi sínu vaxnir, þar sem kostnaður við lögin hafi farið svo mikið fram úr áætlun. Má það segja um öll mannaverk, að menn sjá seinna, að betur hefði mátt fara. Hafa komið fram ásakanir á ýmsa starfsmenn, hvort sem verið hafa brúarsmiðir, húsasmiðir eða annað, um það, að þeir hafi gert of lágar kostnaðaráætlanir o. s. frv., og dettur þó engum í hug, að slíkt hafi verið gert með vilja eða gegn betri vitund.

Síðan berklavarnalögin voru sett hefir verið gerð breyt. á öllum fjárframlögum ríkisins. Hví skyldi þá ekki mega gera slíkt hið sama um þessi lög?

Berklaveiki hefir e. t. v. aukizt hér mjög á síðari tímum, enda þótt segja megi, að fyrir vaxandi þekkingu lækna og betri athuganir víðsvegar um landið hafi fleiri sjúklingar komið í leitirnar en áður.

Það er leiðinlegt, þegar þm. vilja ekki hlusta á svarræður, sem til þeirra er beint í þingtímanum, heldur ræða við utanþingsmenn. Vona ég, að aðrir hv. dm. taki tillit til þessarar framkomu dómsmrh.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að það hefði áður verið blómlegur atvinnurekstur að halda uppi hælum fyrir berklaveika sjúklinga. Vil ég ekki svara slíku, en hitt ætla ég að taka fram, að vissulega hefir ekki verið hugsað um að bæta sjúkrahúsin í ráðstöfunum hæstv. stj., þar sem öllum sjúkrahúsum er greitt það sama úr ríkissjóði, hvernig sem útbúin eru, hvort sem það eru örgustu holur eða góð sjúkrahús.

Hvað viðvíkur því, að fyrrv. landlæknir hafi viljað gæta hófs í reikningum, þá kom það ekki til greina um reikninga berklaveikra sjúklinga, heldur aðeins um þá, sem styrkhæfir voru af hreppsfélögunum samkv. fátækralögum. Viðvíkjandi kostnaðinum var lagður til grundvallar kostnaður við Vífilsstaðahælið, án tillits til þess, hvort sjúklingur þyrfti kirurgiskrar meðferðar við eða ekki. Sýndi það sig, að þetta var ekki rétt, og þegar sjúklingur kom þaðan til kirurgiskrar stofnunar, t. d. á landsspítalann, voru dagpeningar hans hækkaðir í 6 kr. úr 5 kr.

Vil ég þá víkja að því, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að áhöld væru betri á hælinu en á þessum ljóslækningastofnunum. Áhöldin eru þau sömu. Þeir, sem bezt vita um þessi mál, segja áhöld stofnananna eins góð og bezt geti verið. En um það, hvort læknar við ljóslækningastofnanirnar séu óvanir og ekki góðir, er eðlilegast að fara eftir áliti yfirlæknis ljóslækningadeildar landsspítalans, en ekki mínu eða hæstv. dómsmrh., þó að búast mætti við, að ég væri færari um að fara rétt með þessi mál en hann, sem fullur er af ofstæki gagnvart læknum. Vona ég, að hv. d. skilji þetta mál allt og láti ekki blekkjast af ofstopa dómsmrh. Er t. d. athugaverð sanngirni hans, þar sem hann segir í svarræðu sinni, að eitthvert gagn af einhverjum ljóslækningum hefði orðið einhversstaðar á landinu. Skilja allir andann í þessu. Mun hvorki hæstv. dómsmrh. eða aðrir dm. geta sagt um, hvar og hvenær gagn hafi orðið af þeim. Myndi aðferð þessi ekki vera notuð um allan heim, ef hún hefði ekki komið að gagni. Um það, hvort tækin séu hættuleg eða ekki, eru læknarnir sjálfir færastir að dæma. Læknar vita vel, við hvaða tegundum berklaveiki ljóslækningar eru hættulegar og hvar beri að nota þær. Álit Vífilsstaðalækna á aðferðinni er það, að hún geti vel komið að gagni, því að annars væru þeir ekki að vísa sjúklingum á ljóslækningastofur. Vona ég, að hv. d. láti það ekki hafa áhrif á atkvgr., hvaða hug hæstv. dómsmrh. ber til lækna og hvaða óbótamenn hann álítur þá vera. E. t. v. hafa ýmsir þdm. eitthvað misjafnt af einhverjum læknum að segja, en ekki ber að láta börn og smælingja gjalda andúðar til einstakra manna. Þessa vesalinga er verið að hugsa um, þegar verið er að gangast fyrir því, að létt sé af hrepps- og bæjarfélögum skatti þeim, sem þau gjalda til þessa í viðbót við berklavarnastyrkinn. Er það augljóst misrétti, að stærsta bæjarfélag á landinu skuli geta fengið þessar lækningar fyrir ekki neitt, en smærri og verr sett bæjarfélög verði að borga þær fullu verði. Gæti ég trúað því, að ef engin lausn fengist á þessu máli, þá myndu bæjarfélög fara í skaðabótamál við stj. Finnst mér það undarleg ráðstöfun, ef nú á að fara að neyða hið opinbera í mál út af atriðum, sem Alþingi samþykkir. Verður að virða einstökum mönnum það til vorkunnar, þótt þeir þykist þurfa að hefna sín á læknum, en þá má ekki láta börn og smælingja gjalda.