19.03.1932
Efri deild: 33. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í D-deild Alþingistíðinda. (3705)

167. mál, ljóslækningar berklasjúklinga

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég held, að hv. þm. Hafnf. ímyndi sér, að hann sé kominn í annan þingflokk en þann, sem hann hefir verið í. Læzt hann nú vera fulltrúi fátæklinganna, í stað þess að vera fulltrúi burgeisanna, sem líta á málin frá sama sjónarmiði og Jósafat kaupmaður, sem nýlega var sýndur hér á leiksviði. Virðist mér þetta vera krókódílstár, sem hann grætur yfir fátækum börnum.

Það er ekki hægt að breyta lögum með þáltill. Hv. þm. veit, að landlæknir samdi við þær 3 stofnanir, er hann tiltók, og kemur málið því ekki við aðrar stöðvar en þær. Ef hann vill lögþvinga breytingu, þá ætti hann að koma á lögum, þar sem ákveðið væri, að hver og einn gæti fengið úr ríkissjóði það, sem hann setti upp, ef hann kæmi upp einhverri ljóslækningaholu, þar sem reknar væru skottulækningar með kvartsljósum. Annars er fróðlegt fyrir hv. þm. að athuga, hversu langt hann kemst með þetta og hvort hann muni geta breytt lögum með þál. Hv. þm. viðurkenndi, hversu fánýtar hafa reynzt áætlanir þeirra manna, er undirbjuggu berklavarnalögin. Virðist hann halda, að hann og aðrir læknar geti hvað eftir annað gert þær breyt. hér á, sem þeim sýnist, þó reynslan sýni, hve lítið er hægt að byggja á þessum pólitísku atvinnubótum læknanna.

Hv. þm. sagði, að það væri af harðúð minni og hjartavonzku, að ég væri á móti þessum ríkisgreiðslum. Játaði hann þó í fyrra, að það var landæknir, sem lagði línurnar í þessu máli, og að stj. fylgdi ráðum hans, þar sem þau studdust við reynslu og heilbrigða skynsemi. Er þá spurningin um það, hvort Guðmundi Björnsyni sé svona illa við læknastéttina og beri til hennar þær illu hvatir, sem hv. þm. finnst liggja hér á bak við. Hv. þm. hafði mjög óvarleg orð í sumar um landlækni, og kom það þá fram, að landlæknir hafði hvað eftir annað orðið að lækka reikninga hv. þm. fyrir aðgerðir. Var ekki hægt að skilja framkomu hv. þm. gagnvart Guðmundi Björnsyni öðruvísi en sem löngun til að gera árás á hann.

Það, að hv. þm. og fylgifiskar hans ásaka mig fyrir að hafa fallizt á till. landlæknis, læt ég mér í léttu rúmi liggja. Það hefir líka sýnt sig, að viðleitni okkar í þá átt að stilla eyðslunni í hóf hafa borið árangur. Munu líka margir mæla, að það hefði verið brot á heilbrigðislöggjöfinni, ef stj. hefði ekki farið eftir þessu.

Ég held því, að þetta aðhald, sem fyrrv. landlæknir kom til leiðar, hafi verið gott. og nauðsynlegt. Hinsvegar sé ég ekkert því til fyrirstöðu, að bæjarfélagið í Hafnarfirði greiði ljóslækningar að einhverju leyti, ef það ber það traust til þeirra, sem lækningarnar hafa á hendi. Það kemur ekki ríkinu við. En ríkið hefir ekki viljað taka á sig þessa ábyrgð, þvert ofan í skoðanir landlæknis, ef ekki var full trygging fyrir því, að hæfir menn stunduðu lækningarnar.