06.06.1932
Neðri deild: 96. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 833 í B-deild Alþingistíðinda. (374)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jóhann Jósefsson:

þetta frv. um benzín- og bifreiðaskatt er þá komið svona langt. Ég get þess til, að þegar farið verður að framkvæma þessi lög, muni sum ákvæði þeirra vekja óánægju, sérstaklega í þeim kaupstöðum, sem ekki hafa aðstöðu til þess að njóta góðs af því fé, sem veita skal samkv. 8. gr. frv. En ég þykist vita, að ekki tjái að deila við dómarann í þessu máli; meiri hl. þings mun vera ráðinn í því að láta frv þetta ná fram að ganga, enda þótt sum ákvæði þess séu ósanngjörn í verulegum atriðum. En það er í sambandi við 7. gr. frv., sem opnar möguleika fyrir fjmrh. til þess að veita undanþágu um það benzín, sem ekki er notað til bifreiða, sem ég aðallega kvaddi mér hljóðs. Út af þessu ákvæði vil ég leyfa mér að gera fyrirspurn til hæstv. fjmrh. um það, hvort það sé ekki tilætlun hans að nota þetta ákvæði frv. og setja reglugerð þá, er þar um ræðir. Ég hefði að vísu kosið, að í stað „getur“ stæði „skal“ í greininni. Ég þykist hinsvegar vita, að orð og yfirlýsingar hæstv. ráðh. um þetta atriði myndu nægja, en með því að hér er um svo mikið sanngirnismál að ræða, þá vildi ég óska frekari upplýsinga um ætlun hæstv. ríkisstj. um þetta atriði.