02.05.1932
Efri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í C-deild Alþingistíðinda. (3749)

15. mál, fimmtardómur

Frsm. minni hl. (Pétur Magnússon):

Ég get ekki látið hjá líða að leiðrétta herfilegan misskilning, sem kom fram í ræðu hv. 2. þm. Eyf. Hann var að tala um 25 þús. kr., sem málaflutningsmaður hefði reiknað sér málafærslulaun og taldi, að við þetta hefði fallið blettur á ísl. málaflutningsmenn. Þetta er afsakanlegur misskilningur hjá hv. þm. Málaflm. geta ekki reiknað sér tímakaup. Þeir verða að vinna fjölda verka, sem þeir fá ekkert fyrir, og verða m. a. oft að láta töluvert fé út fyrir skjólstæðinga sína, sem eðlilega gengur misjafnlega með innheimtu á. Auk þess eru ýmsar kröfur svo smáar, sem þeir hafa til innheimtu, að þær þola mjög lítinn kostnað. Þóknun málaflm. er því álagning á kröfurnar eftir föstum taxta, sem engin launung er á, svo að allir vita, að hverju þeir ganga. Mér er vel kunnugt um mál það, sem hv. 2. þm. Eyf. gat um, og þó að þóknun sú, sem hann skýrði frá, að tekin hefði verið, sé mjög orðum aukin, er það rétt, að á okkar mælikvarða var hún mjög há. En kröfuupphæðin máli þessu var líka yfir hálf millj. kr., og þegar þess er gætt, býst ég ekki við, að neinn, sem skyn ber á, telji þóknunina ósanngjarna. Um hana varð heldur enginn ágreiningur milli málsaðila og umboðsmanns. Hv. þm. þarf því ekki að gera sér neinar áhyggjur út af, að málaflm.stéttinni hafi verið gerð nein vanvirða með þessu, enda væri sá málaflm., sem hér átti hlut að máli, manna ólíklegastur til að gera stétt sinni vanvirðu.