06.06.1932
Sameinað þing: 16. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (3766)

851. mál, verzlunar- og siglingasamningar við Noreg

Jón Baldvinsson:

Ég ætla aðeins að spyrja utanríkismálanefnd, hvort hún hafi ekki athugað till., sem af hálfu Alþýðuflokksins var flutt hér snemma á þinginu einmitt um þessi sömu mál, sem hér liggja fyrir. Ég vildi gjarnan fá að vita það hjá hv. n., hvort hún ætli ekki að láta þessa till. koma fram, því mér skildist það vera tilætlunin þegar málið var hér til umr. En þessi þáltill. hljóðaði þannig: „Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að leita samninga, í samráði við stjórnir landsmálaflokka á Alþingi, við erlend ríki um að þau kaupi íslenzkar afurðir eða ívilni um tollkjör þeirra.

Sérstaklega er skorað á ríkisstjórnina að fá af létt innflutningstolli á fiski í Englandi og ná samningum um sölu síldar til Rússlands gegn vöruskiptum“. Mér hefði fundizt vel við eiga, að þessi till. kæmi nú frá n. og að hún yrði einnig afgr., ef stj. lýsir ekki yfir, að hún muni taka þetta mál til íhugunar. Út af orðalagi þeirrar till., er hér liggur fyrir, skal ég játa, að mér finnst það nokkuð „drastiskt“, og vildi ég í því sambandi spyrja stj., hvort hún teldi ekki heimilt að segja upp verzlunarsamningum við önnur ríki, þó það sé ekki samþ. af þinginu, ef tollstríð er milli Íslands og annara ríkja.