07.05.1932
Efri deild: 69. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í C-deild Alþingistíðinda. (3776)

15. mál, fimmtardómur

Jakob Möller í [óyfirl.]:

Það er í raun og veru skemmtilegt að fá játningu hæstv. dómsmrh. fyrir því, að tilgangur frv. sé fyrst og fremst sá, að fá þá dómara afsetta, sem nú sitja í hæstarétti. Hann komst að vísu að því að sanna þetta eftir nokkuð skrítinni leið. Hann byrjaði á því að svara hv. 4. landsk. og vildi þá ekki viðurkenna að hafa sagt, að dómararnir ættu að dæma eftir almenningsálitinu. En síðar sagði hann þó, að ef dómararnir dæmdu ekki eftir almenningsálitinu, þá yrði dómarastarfið af þeim tekið. En nú er það svo, að stjskr. bannar, að dómari sé sviptur embætti nema eftir dómi. Það vissu líka allir, að tilgangurinn með frv. var sá einn að fara í kringum þetta ákvæði stskr., koma dómurunum út úr dómnum og skipa hann svo mönnum eftir eigin vild. Hér er því um stjórnarskrárbrot að ræða, því til hvers væri að setja þetta ákvæði í hana, að ekki mætti víkja dómurum úr embætti nema með dómi, ef fara mætti ýmsar aðrar krókaleiðir til að svipta þá dómarastarfinu.

En þetta var ekki eina ákvæði frv., sem braut í bág við ákvæði stjskr. Þar var alveg krökkt af slíkum ákvæðum. Og því hafa nú verið gerðar þær breyt. á frv., sem hæstv. ráðh. er svo sár yfir, eins og lesa má út úr svari hans nú við þessa umr. Þessi orð hans, sem eru af sársauka töluð, fá á sig nokkuð skringilegan blæ öðruhverju. Eins og t. d., er hann hélt, að við værum fegnir því, að veiting í dómaraembættin væru tekin úr höndum dómsmrh. og fengin forsrh., af því við streystum forsrh. betur til að halda uppi rétti þeirra manna, er halda vilja uppi lögleysum í landinu. Það væri nú að vísu ekki að undra, þótt svo væri, eftir að hæstv. forsrh. hefir haft svona mikil mök við núv. hæstv. dómsmrh. En það er þó frekar um traust að ræða frá okkar hálfu, þar sem þetta er vottur þess, að Hæstv. forsrh. hverfi frá villu síns vegar. En það er yfirleitt kunnugt, að hæstv. dómsmrh. er allra manna þekktastur að því að vilja halda uppi ofbeldi og ranglæti í landinu. Í stjskr. er svo ákveðið í 57. gr., að þeim dómendum, sem ekki hafa að auki umboðsstörf, verði ekki vikið úr embætti nema með dómi. En með þessu frv. er verið að skipa hæstarétt mönnum, sem umboðsvaldið hefir aðstöðu til að svipta embætti án dóms. Með þessu frv. hefir stj. aðstöðu til að ráða, hverjir dómarar eru í hvert sinn, því gagnvart þeim dómendum, sem hafa umboðsstörf að auki, hefir stj. þá aðstöðu að geta svipt þá embætti og fengið aðra dómara til að dæma í einstökum málum. Það er tvímælalaust ætlazt til þess í stjskr., að hæstiréttur sé skipaður dómendum, sem eru þannig verndaðir gagnvart umboðsstj., að hún geti engin áhrif haft á þeirra starfsemi. En þessu frv. er stefnt að því að gefa umboðsstj. þessa aðstöðu, og þessi stefna er mjög háskaleg að því leyti, að hún flytur ekki aðeins veitingarvaldið óskorað í hendur pólitískra stj. heldur gefur henni líka aðstöðu til að hafa áhrif á dómara í hverju einasta máli, sem dæmt er. Þó Hæstv. dómsmrh. hafi í bili mistekizt að koma fram því, sem hann ætlaði sér í upphafi, að fá aðstöðu til þess að svipta núv. dómara hæstaréttar embætti og skipa nýja menn, þá hefir hann þó getað gert málið í meðferðinni þannig úr garði, að hann heldur aðstöðunni eftir sem áður að beita pólitískum áhrifum gagnvart dómurum. — Í þessu samb. vil ég leiðrétta ummæli hæstv. ráðh., þar sem hann talar um hatramlega áras á hæstarétt í ritlingi Sig. Eggerz, þar sem hann sakar þá Einar Arnórsson og Ólaf Lárusson um, að þeir séu háðir stj., af því þeir hafi unnið fyrir hana. Þetta er helber misskilningur á því, sem Sig. Eggerz segir. Hann sagði ekkert annað en það, sem ég hefi sagt nú, að þessir dómarar hafi öðruvísi aðstöðu í hæstarétti en hinir reglulegu dómarar. Þeir eru háðir umboðsvaldinu í sambandi við sin aðalembætti og því í raun og veru ekki samskonar dómarar og þeir forsteta dómarar. Þetta voru ekki persónulegar ákærur í þeirra garð, heldur staðhæfing, sem á jafnt við alla, líka þriðja dómarann, sem eins var ástatt um. Úr því að ég er kominn út í þetta, verð ég að mótmæla því, sem hæstv. ráðh. hélt fram, að Hæstiréttur hafi orðið fyrir hatramlegum árásum í sambandi við þennan dóm. Því fer fjarri. Ég hygg, að ekki sé hægt að sýna dæmi í blöðum andstöðuflokkanna um að ráðizt hafi verið á hæstarétt fyrir þennan dóm, og þó er ekki laust við, að það þyki orka tvímælis. hvort sá dómur hafi verið rétt dæmdur. Dómarar eru eins og aðrir menn meira og minna ófullkomnir, og dómar þeirra bera þess að sjálfsögðu merki.

Hæstv. ráðh. fór svo víða um, að ég sé ekki ástæðu til að fara að elta hann allar þær koppagötur. Mér er ekki fært að dæma um mál Garðars Gíslasonar, sem hæstv. ráðh. sakar hæstarétt um að hafa dæmt rangt. (Dómsmrh.: Snúizt í málinu.). Ég er ekki svo kunnugur málinu, að ég geti um það rætt. En það hefir orðið upplýst í málinu, að þessi kaupmaður hefir keypt færri hross eftir að þessar látlausu árásir í Tímanum hófust. og sýnir það, að þessar greinar hafa haft þau áhrif, að hann hefir misst viðskipti. Ég geri ráð fyrir, að dómurinn hafi verið byggður á þessu, en ekki á hrossasölunni einni. Við í þinginu erum ekki færir um að ræða svona dóma eins og þessa eða dæma mál upp á ný, þó það sé síður hæstv. dómsmrh. Ég benti aðeins á þetta til að sýna, að það er ekki nema hálfsögð sagan hjá hæstv. dómsmrh. um þennan dóm. Annars skal ég ekki taka fram fyrir hendur þeirra hv. þm., sem hæstv. ráðh. var að tala um. Mitt erindi var að undirstrika þetta, að frv. eins og það er nú, þó hæstv. ráðh. hafi að vísu beðið ósigur og orðið að halda undan í ýmsum atriðum, er ennþá með þeim ágöllum, sem gera það óhæft að verða að l., og frv. getur að ýmsu leyti orðið til þess, að ráðh. fái tækifæri til þess að þjóna sínum tilhneigingum til að halda uppi ofbeldi og rangsleitni í landinu, eins og hann hefir orðað það sjálfur.