12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 841 í C-deild Alþingistíðinda. (3794)

15. mál, fimmtardómur

Frsm. minni hl. (Einar Arnórsson):

Ég held, að ég geti lofað því að verða heldur skammorðari um þetta mál heldur en hv. 4. þm. Reykv. var (MJ: Hv. þm. á líka færri brtt. við frv.). Það getur nú verið, að ræða þurfi um fleira en brtt. í sambandi við málið. Það er rétt hjá hv. þm., að mjög langar umr. urðu ekki um þetta mál, þegar það var hér fyrir hv. d. fyrr á þessu þingi, en jafnvel þó svo væri ekki, hefi ég hvorki í hv. Ed. né við þessa umr. hér heyrt heitt nýtt borið fram, sem máli skiptir og áður var ekki fram komið hér í hv. Nd. Í hv. Ed. urðu að vísu langar umr. um málið og langar ræður fluttar, en hvað snertir sjálft efnið, var ekkert nýtt á þeim að græða. Umr. þar fóru mikið í deilur um einstaka dóma, er hæstiréttur hefir dæmt, hvort þeir hefðu verið réttir eða rangir, en slíkt veitir vitanlega engar upplýsingar um það, hvort heppilegt sé að breyta skipun dómstólsins eða ekki. Frv. er að því leyti óbreytt enn frá því, sem það var afgreitt hér í hv. d., að enn eru á því tveir þeir höfuðgallar, sem ég taldi vera á því, þegar það var afgreitt til hv. Ed., og skiptu verulegu máli, en annað, sem menn hafa talið í frv. miða til skemmda eða bóta, tel ég allt fremur smávægilegt.

Hv. 4. þm. Reykv. benti á aðra höfuðástæðuna til þess, að ég hefi verið á móti frv., þá, að svo er fyrir mælt, að leggja skuli Hæstarétt niður, og margt af því, sem hann sagði, get ég skrifað undir. Þó get ég tekið fram, að stjskr. bannar hvergi að breyta dómstóli eða leggja hann niður, og gerir ráð fyrir, að það sé einmitt gert, en hún ákveður jafnframt, að dómarar í niðurlögðum dómstóli eigi að taka sæti í hinum nýja dómi. Það er rétt hjá hv. þm., að löggjafarvaldið getur misbrúkað þetta ákvæði, á þann hátt að leggja niður dómstól, þó aðeins sé um litla skipulagsbreyt. að ræða, í þeim tilgangi að losna við vissa dómara. Þetta er búið að margtaka fram, líka hér í hv. d. Hitt er annað mál, að sumum hefir kannske fundizt, að ég ekki breiða mig nóg út yfir það atriði hér í hv. d. og ekki vera svo illorður sem mönnum er nú orðið svo tamt að vera hér á þingi. Þó hygg ég, að ég hafi bent á aðalatriðin svo skýrt, að hver meðalgreindur maður hefði átt að geta skilið það. Hinn aðalgallinn á frv. er niðurfelling prófraunarinnar. Hv. 4. þm. Reykv. hefir víst ekki séð sér fært að koma með brtt. um að taka hana upp, af því sú till. var felld hér síðast, þó e. t. v. hefði mátt „variera“ hana á þann hátt, að þingsköp leyfðu nýja till., þótt hin væri felld. Ég ætla hér ekki að fara að endurtaka þau rok, sem eru fyrir því, að tryggara er að hafa prófraunina en ekki, en þó skal, ég taka það fram, að það virðast liggja í sögu þessa dómstóls rök fyrir því, að svo sé, og að almennt hafi verið álitið tryggast að hafa það fyrirkomulag. Árið 1919, þegar hæstaréttarlögin voru sett og dómstóllinn stofnaður, mætti ákvæðið um prófraunina engum mótmælum og ekki heldur árið 1924, þegar breyt. var gerð á lögunum, mun nokkur brtt. hafa komið fram í þá átt að fella niður dómaraprófið. Þá var dómendum í hæstarétti fækkað úr 5 í 3 og þá var einmitt stefna löggjafarvaldsins sú að auka sjálfstæði hæstaréttar, eins og sjá má á því, að þá er sú breyting gerð á lögunum, að rétturinn sjálfur skal velja sér ritara, og sömuleiðis var honum þá einnig falið að velja sér forseta, því það var álitið þá hagkvæmara heldur en að dómsmrh. væri falið að gera það. Og núv. dómsmrh., sem var þá hlynntur fækkun dómaranna, vildi, að hæstiréttur veldi sér forseta sjálfur heldur en að það væri á valdi pólitísks ráðh. og taldi það miklu tryggara fyrirkomulag. Aftur voru dálítið skiptar skoðanir um þetta þá, og voru sumir þeir, er nú vilja halda prófrauninni, á móti þessari breyt. á forsetakjörinu. Ég er sammála hæstv. dómsmrh. um, að þetta hafi verið spor í rétta átt, að láta réttinn sjálfan velja úr sínum hópi hann mann, sem á að vera fulltrúi og forsvarsmaður réttarins út á við og stjórnandi hans inn á við. En í samræmi við þessa stefnu er vitanlega prófraun dómaranna til að tryggja það, að engir taki sæti í réttinum, nema færir séu til þess, og þar eru vitanlega dómarar réttarins allra manna hæfastir til að dæma um, en eins og áður ef sagt, var ekki að búast við því, að það þýddi neitt að flytja um það brtt. við þessa umr.

Í hv. Ed. var gerð sú breyt. á frv. áður en embætti aðaldórmara í fimmtardómi er veitt, skuli taka veitinguna til umr. og ákvörðunar á sameiginlegum ráðherrafundi, og síðan skuli forsrh. bera till. um veitinguna fram fyrir konung. Sama á og að gilda, þegar veita skal dómara lausn frá embætti. Ég held, að ýmislegt mæli með því, að það beri að láta þetta ákvæði haldast óbreytt. Eins og menn vita, er ríkisvaldið greint í þrjá flokka: löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Það virðist fara vel á því, að æðsti handhafi veitingavaldsins um hæstarétt sé einmitt sá maður, sem æðstur er í stj., en það er auðvitað forsrh., sem einnig er æðsti yfirbjóðandi Alþingis, þar sem hann í umboði konungs kveður það til fundar og slítur því, og hefir ennfremur samsvarandi aðstöðu gagnvart framkvæmdarvaldinu, þar sem hann t. d. undirskrifar skipunarbréf sitt og samverkamanna sinna í ráðuneytinu. Þegar þessi breytingarákvæði hv. Ed. við frv. eru borin saman við afskipti forsrh. af framkvæmdarvaldinu og löggjafarvaldinu, þá er fullt samræmi í því, að forsrh. beri einnig fram till. um skipun æðsta dómstóls ríkisins, því sú stofnun er fullkomlega eins æruverð og virðuleg og hinar stofnanirnar. Það hefir verið sagt, að með þessari breyt. væri of nærri höggvið núv. dómsmrh., af því að afskipti dómsvaldsins er í hans verkahring, en þetta er auðsjáanlega ekki á neinum rökum byggt, því núv. dómsmrh. gæti t. d. orðið forsrh., og þá heyrði þetta undir hann, en ekki þáv. dómsmrh. þessari breyt. er því ekki stefnt gegn neinum vissum manni, heldur er tilgangur hennar að tryggja þessari virðulegu stofnun, að stöður hennar séu réttilega veittar, því fyrir því verður að telja það sérstaka tryggingu, að veitinguna á að taka til ákvörðunar á sameiginlegum ráðherrafundi, þar sem till. meiri hl. ráðuneytisins á að gilda. Ég get þess vegna ekki skilið, hvers vegna meiri hl. hv. n. vill fella burt þessi ákvæði.

Jafnvel þó að telja verði til bóta heldur en hitt þær breyt., sem á frv. hafa orðið í hv. Ed., þá býst ég samt ekki við, að þeir, sem voru á móti frv. síðast hér í hv. d., geti heldur nú gefið því sitt fylgi vegna ákvæðisins um niðurlagningu hæstaréttar og ákvæðisins um prófraunina. Eftir till. hv. allshn. á þskj. 686 er að vísu talað um, að veitingu embættis aðaldómara í fimmtardómi eigi að ræða á ráðherrafundi, en það er ekkert í þessum till., er tryggir það, að meiri hl. ráðh. eigi að ráða úrslitum um veitinguna, því þrátt fyrir það, þó þessar till. verði samþ. gæti dómsmrh. virt að vettugi till. samverkamanna sinna í því efni. Hann gæti t. d. rólegur látið dómara, sem orðinn er 65 ára, víkja úr embættinu, þó hann héldi óskertum hæfileikum sínum og meiri hl. ráðuneytisins væri því mótfallinn, að hann færi. Till. fyrirbyggir því ekki, að dómsmrh. geti gengið á móti vilja hinna ráðh., því skyldan nær ekki lengra en það, að málið á að ræða á ráðherrafundi og ráðherrarnir fái að segja sitt álit um veitinguna. Hitt segi ég ekki, að þetta skipti ætíð miklu miklu, því sennilegt er, að dómsmrh. fari venjulega oftar eftir því, sem hinir segja vegna þess að hann sé þeim sammála.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um brtt. á þskj. 668. Hv. 4. þm. Reykv. er mér sammála um það, að engin ástæða sé til þess að breyta nafni hæstaréttar. Hinsvegar tel ég það raunar litlu skipta, hvort rétturinn er látinn heita hæstiréttur, fimmtardómur eða landsdómur, því það er vitanlega aukaatriði. Hitt er aftur á móti aðalatriði, hvernig rétturinn er skipaður og hvernig hann starfar. Það mun fara svo um hvert heitið, sem valið verður, að fólk mun sætta sig við það, og það mun festast við réttinn, hvort sem það fullnægir ströngustu málfræðiskröfum eða ekki. Slíks eru alþekkt dæmi um heiti manna, stofnana eða hluta. Mér dettur í hug í því sambandi eitt heiti úr réttarsögu okkar í stofnun, sem látið var haldast, þó stofnunin breyttist í mjög verulegum atriðum. Árið 1271 var sú breyt. gerð á skipun Alþingis, eins og kunnugt er, að meginstofnun þess, lögréttan gamla, sem hafði haft löggjafarvaldið með höndum, var látin taka dómsmálin sem aðalstarf, en missa löggjafarvaldið, nema að mjög litlu leyti. Þannig var meginbreyt. gerð á stofnuninni, en nafnið látið haldast. Það er rétt hjá hv. 4. þm. Reykv., að störfum hæstaréttar og fimmtardómsins gamla er ekki hægt að jafna saman. Sá dómstóll hafði fyrst og fremst dómsvald, þegar dómendum í fjórðungsdómum kom ekki saman. Ennfremur dæmdi hann um þingsafglapanir og mútumál, um það er þræll strauk frá eiganda sínum og ef annar maður hýsti strokuþræl, og nokkur slík mál.

Það er og jafnvíst, að landsdóminum núv. og fimmtardómi verður ekki heldur jafnað saman. Landsdóminum er ekki sérstaklega ætlað að dæma mútugjafir og mútuþágur, og þingsafglöpin á hann alls ekki að dæma, enda verður enginn sérstaklega ákærður fyrir slíkt. Ráðh. geta að vísu brotið þingsköp, en ég geri ekki ráð fyrir, að það verði talið hegningarverðara fyrir ráðh. að brjóta þingsköp en fyrir forseta og aðra alþm.l. á landsdómurinn eingöngu að dæma um mál út af embættisverkum ráðh., hvort svo sem brotið fellur undir ráðherraábyrgðarlögin frá 1904 sérstaklega, 13. kap. hegningarl. eða önnur ákvæði í 1. Það má því ljóst vera, að ekki er meiri skyldleiki milli fimmtardóms hins forna og núv. landsdóms en er á milli fimmtardóms og hæstaréttar, og er nafnið því ekki rétt til fundið að því leyti, í hvorn staðinn, sem það kemur niður. Annað mál er það, að landsdómurinn er ekki starfhæfur, en það eru hinsvegar ekki meiri líkur til þess, að dómurinn yrði latinn starfa fremur en nú, þó að nafni hans væri breytt. Dómurinn verður ekki starfhæfur fyrir það eitt, þó að etikettunni sé breytt.

Þótt ég líti svo á, að ástæðulaust sé að vera að leggja niður heiti á æðsta dómstóli landsins, sem almenningur þekkir og hefir lært að nota, tel ég þetta atriði ekki mikilsvert, eins og ég hefi margtekið fram. Nöfn geta aldrei verið aðalatriðið, jafnvel þótt ekki séu réttnefni. Þegar okkur er sagt, að maður heiti Páll, spyrjum við ekki að því, hvort hann sé hár maður eða lítill maður vexti. Okkur er það nóg, að maðurinn heitir Páll. þótt maður heiti Magnús, skiljum við ekki endilega við það, að þar sé um mikilmenni að ræða, og þótt einhver heiti Tryggvi, þarf hann ekki þar fyrir að vera tryggur maður og vinfastur. Hér er aðeins um nöfn að ræða, setu við tengjum engar sérstakar hugmyndir við, en segja aðeins til um það, að einstaklingur heyri undir ákveðinn flokk í náttúrunni, sem við köllum mannkyn. Það er sama hvaða nafn æðsta dómstólnum er valið, erf það aðeins ekki er hneykslanlegt. Fólkið lærir að nota það smám saman, og festist nafnið þannig í málinu óðar en varir. Þegar hæstiréttur var stofnaður, voru ýmsir málskrúðsmenn, sem álitu það nafn ekki hæfilegt, þar sem það bæði væri málfræðilega skakkt og ekki heldur hugsunarrétt. Kom þetta fram í þeirri n., sem hafði hæstaréttarmálið til meðferðar á þinginu 1919, en þáv. forsrh. var áfram um að halda nafninu, með þeim röksemdum, að þetta væri æðsti liðurinn í ísl. dómsvaldi, og með því sigraði nafnið þá í bili.

Margar af brtt. hv. 4. þm. Reykv. eru afleiðing af þessari höfuðbreyt. hans, breyt. á heiti dómstólsins, en sú brtt. hans, sem máli skiptir, fjallar um það, að dómararnir skuli vera fimm.

Eins og ég hefi tekið fram, litu margir svo á 1924, þegar breyt. var gerð á tölu dómaranna í hæstarétti, að hún væri til skemmda, og tel ég vafalaust, að hv. 4. þm. Reykv. hafi litið svo á líka, þó að ekki sé mér kunnugt um það. Má deila um það, hversu fjölskipaður æðsti dómstóllinn á að vera. Víða mun látið nægja að hafa hann raunverulega skipaðan 3 dómurum. Í þýzka ríkisréttinum í Leipzig dæma t. d. aðeins 3 dómarar í hverju máli, en réttinn skipa hinsvegar tugir dómara, og starfar hann í mörgum deildum vegna málafjöldans. Mig minnir líka, að svo sé þessu einnig háttað í Englandi, þó að fleiri dómarar séu auðvitað alltaf til taks, þegar á þarf að halda. En í hinum fámennari löndum kunningsskaparins er líklega tryggara að hafa dómarana fleiri, því að þar er meiri ástæða til að hafa sem allra tryggilegast búið um æðsta dómstólinn en er í hinum fjölmennari löndum. Það er að vísu gott að hafa dómsvaldið, og þá sérstaklega æðsta lið þess, sem allra óháðast framkvæmdarvaldinu og óafsetjanlegan að því leyti, sem til framkvæmdarvaldsins kemur, en þetta er þó ekki nóg. Það er stundum ekki minni þrekraun fyrir dómara að standast álit einstakra manna og flokka utan að en vilja sjálfra stjórnendanna, því að í sumum málum er ekki aðeins, að stjórnendurnir láti sig miklu skipta úrslit málsins, heldur getur líka verið um kappsmál að ræða milli atvinnuflokks og pólitískra flokka í landinu, og þurfa dómararnir því líka að vera hafnir yfir vild eða óvild flokka og stefna í þjóðfel., er þeir taka afstöðu til máls. Þá er það og líka þrekraun fyrir dómara, tillitið til mannanna sjálfra, sem í málinu eiga, því að þessir einstaklingar hafa oft svo og svo mikil völd í þjóðfél. Verður þannig að gera kröfur um þrekraun í allar þessar áttir af dómaranum — að hann láti það engu skipta um niðurstöðu sína, hvort stj., pólitískir flokkar, stéttir eða einstaklingar reiðist dómsniðurstöðunni eða láti sér hana að góðu verða. Það er nú svo, að pólitískir flokkar og pólitískar stj. hafa ekki enn náð þeim þroska að taka dómsniðurstöðu með jafnaðargeði Og sama má segja um ýmsa einstaklinga. En ég get þó sagt það okkur báðum til hróss, mér og hv. 4. þm. Reykv., að þótt við báðir töpuðum máli, sem var að mörgu leyti líkt, tókum við þó þeirri niðurstöðu með jafnaðargeði, en ærðumst ekki eða skrípuðumst, þó að við töpuðum. En það er ekki svo um alla, sem eiga í málum. Því að ef málin ganga á móti heim, ærast þeir og skrípast og hella Skömmum og svívirðingum yfir dómarana leynt og ljóst, af því að þeir fengu ekki hann dóm, sem þeir sjálfir töldu réttan. Eiga hér víst allir pólitískir flokkar óskilin mál og bæði núv. og fyrrv. dómsmálaráherrar sumir hverjir. Öll þessi ókjör steðja að dómaranum, og má hann sannarlega vera að verði, ef hann vill vera samvizkusamur og hefir ekki hugsað sér að láta reiði, óvild eða hótanir stjórna till. sínum í máli. Get ég vel hugsað mér, að dómur með 5 dómurum sé sterkari gagnvart almenningi, stj., flokkum og atvinnustéttum en 3 manna dómur, sérstaklega hér í þessu fámenna landi kunningsskaparins, og get ég því fallizt á, að rétt sá að fjölga dómurunum, en ég geri þó hinsvegar ekki ráð fyrir því, að slík till. finni náð fyrir augum nógu margra, eins og stendur, í kreppunni og á þessum sparnaðartímum. Ég geri fremur ráð fyrir því, að þm. muni ekki telja sér fært að samþ. slíka till., sem mundi hafa í för með sér aukin útgjöld um nál. 17000 kr., eins og launaákvæðunum nú er farið, og telja margar ástæður fyrir því að geyma slíka ákvörðun þar til síðar. Fór og svo Ed., að samskonar till. þar fékk ekki nema lítinn hl. atkv., og fór þetta ekki eftir flokkaskiptingu, og jafnvel ekki allir andófsmenn frv. þar voru með þessari till. Minnir mig, að 4 atkv. félli með till. og from. Sjálfstæðisflokksins, hv. l. landsk., greiddi atkv. á móti henni.

Ef till. hv. 4. þm. Reykv. um dómarafjölgunina nær fram að ganga, kæmu aukadómararnir ekki lengur til greina, og væri þá ekki þörf að ræða um þá, en ég geri ekki ráð fyrir því, að till. verði samþ., eins og ég áður sagði, og skal því víkja að nokkrum ummælum, sem hv. 4. þm. Reykv. hafði um það atriði málsins.

Hv. þm. sagði, að það væri ógjörningur fyrir hina reglulegu 3 aðaldómara að skera úr því, áður en mál væri sótt og varið, hvort það væri svo umfangsmikið, þýðingarmikið eða vandasamt, að kveðja bæri til aukadómara. Býst ég við, að þessi ummæli stafi af athugunarskorti eða ókunnugleika. Skv. l. um hæstarétt eiga málaflutningsmennirnir að leggja fram útdrætti í öllum þeim málum, sem flutt eru munnlega, og eiga þessir útdrættir úr málunum að vera komnir til réttarins 14 dögum áður en málin eru þingfest. Í þessa útdrætti er allt það tekið, sem máli skiptir í hverju máli. A. m. k. hefi ég aldrei orðið var við það í þau allmörgu skipti, sem ég hefi tekið sæti sem dómari í hæstarétti, að neitt hafi vantað í útdrættina, sem máli skipti. Það er því hægurinn á fyrir dómarana að gera sér grein fyrir mikilsvægi máls af útdráttunum. Með allri virðingu fyrir málaflutningsmannastétt okkar, sem er yfirleitt skipuð ágætum mönnum, verð ég þó að segja það, að sjaldan er, að svo mikið nýtt komi fram í ræðum þeirra, að viðkomandi dómara sé ekki fullkunnugt áður, hver gögn eru komin fram í máli, og hæstaréttarstefnan sýnir, hvaða kröfur hafa komið fram í málinu. Og væri ég dómari, mundi ég ekki verða í vandræðum. Þess vegna með að ákveða, í hvaða málum bæri að kveðja til aukadómara. Fer slíkt ekki eftir stærð málanna, eins og ég hefi áður bent á, því að í smámálum, þar sem um er að ræða smáupphæðir, geta eins komið fram lögfræðileg stefnuatriði, t. d. í málum, sem rísa út af því, hvort maður sé skyldur að greiða útsvar í þessum eða hinum hreppnum eða kaupstaðnum.

Hv. 4. þm. Reykv. talaði um það, að ef dómararnir væru 5, væru minni líkur til þess, að kveðja þyrfti til varadómara, en þetta er þó engan veginn víst. Vildi hann og gera mikið úr þeirri hættu, sem af því stafaði, hve oft lagakennararnir tækju sæti í réttinum. vegna þess, að aðaldómararnir vikju þar sæti. En þetta er ekki svo mjög oft. Ég hefi að vísu ekki talið það saman, hve oft ég hefi tekið sæti í hæstarétti í forföllum aðaldómaranna þar, en ég býst við, að þetta hafi komið fyrir svo sem 5 sinnum síðastliðið 11/2 ár. Varla oftar a. m. k. Og þótt 2 af lagakennurunum skipuðu sæti í réttinum sem varadómarar, er þó alltaf sá þriðji til, sem hægt er að grípa til, ef á þarf að halda, og það er mjög sjaldgjæft, að fleiri en einn dómari þurfi að víkja sæti í sama málinu. Eru það hreinar undantekningar, að slíkt komi fyrir, og man ég í svipinn ekki eftir öðru dæmi en því frægasta, er við allir þrír kennararnir í lagadeild tókum sæti í réttinum og dæmdum þennan nafnkunna dóm, sem síðan hefir verið við okkur kenndur og kallaður prófessoradómurinn. Virtist hv. 4. þm. Reykv. vera eitthvað reiður út í þennan dóm okkar. (MJ: Ég minntist ekki á hann). Jú, það var eitthvað í þessum dómi, sem stakk hv. 4. þm. Reykv., en hann fór vel með það. þótt hann hinsvegar gæti ekki stillt sig um það með öllu að láta gremju sína í ljós. (MJ: Þetta er alls ekki rétt). Jú, það er hárrétt. Hv. þm. lét svo um mælt, að hann vildi sem fæsta prófessoradóma. Skrifaði ég þetta upp um leið og hann sagði það. Hann er diplómatískur, hv. 4. þm. Reykv., og kann vel að haga orðum sínum, en í þessum orðum hans kom það þó greinilega fram, þó að óbeint væri, að hann hefir horn í síðu þeirra ágætt dómara, sem dæmdu þennan dóm. Skil ég þetta allvel, því að dómurinn hefir að geyma ummæli um frammistöðu bankastjóra Íslandsbanka, er hv. þm. hefir af flokkslegum ástæðum eigi talið hentug. Hefi ég ekkert á móti því, að dómarar verði fyrir gagnrýni. Með því, sem ég áður sagði um þá þrekraun, sem hæstaréttardómarar verða að sýna í allar áttir, vildi ég ekki sagt hafa, að þeir væru hafnir yfir gagnrýni. Ég lít svo á, að þeir hafi gott af gagnrýni, en sú gagnrýni á að koma fram á svipaðan hátt og þegar lagakennararnir gagnrýna l., vera um málefnin, er ekki mennina. Er það eitt af því marga, sem skortir á í opinberum málum hér á Íslandi, að gagnrýnin kemur hér ekki fram að hætti siðaðra manna, ekki heldur, þótt æðsti dómstóllinn eigi í hlut.

Annars er það fjarri því að vera eins mikið eindæmi og hv. 4. þm. Reykv. virtist halda, að lagakennarar taki í viðlögum sæti í æðsta dómstólnum. Þetta hefir t. d. tíðkazt í Noregi um langan aldur. Og víðar er þetta gert og hefir hvergi komið að sök, að því er mér er kunnugt.

Þótt það skipti ekki máli hér, getur það verið til athugunar síðar, þeim, sem tækju þetta mál upp aftur, að það er til ein leið enn, til þess að taka dómara í Hæstarétt. Það er til stétt manna fyrir utan lagakennarana, sem er sérstaklega hæf til þessa, og það eru Hæstaréttarmálaflutningsmennirnir, setu yfirleitt eru hæfir til að ganga í skarðið, ef autt sæti verður í réttinum einhverra hluta vegna. Því hefir verið haldið fram, að hættulegt væri, að kennarar lagadeildarinnar tækju sæti í Hæstarétti sem aukadómarar, og jafnvel þótt ekki sé nema varadómarar, af því að þeir væru umboðsembættismenn, Sem stj. gæti sett af, þegar hún vildi. Og þetta er rétt, a. m. k. á pappírnum. En það eru óskrifuð lög alstaðar, nema e. t. v. í Rússlandi, að háskólakennarar verða ekki settir af, þó að þeir láti uppi skoðun sína á siðsamlegan hátt um eitt og annað. Þetta var ekki svo fyrr, en nú er óhætt að segja, að þetta sé svo alstaðar, og hér hefir þetta verið svo líka. Eins og kunnugt er, hafði núv. hæstv. dómsmrh. heldur lítið álit á mér sem lögfræðingi og manni, og kom þetta ósjaldan fram í skrifum hans í Tímanum síðastl. vor, þar sem hann lét það skýrt í ljós, að ég gegndi illa stöðu minni við háskólann. Bjóst ég þess vegna við því, að ég þá og þegar mundi fá consilium abeundi. Ég tek það ekki illa upp, þó að lítið sé gert úr því, sem ég hefi lagt af mörkum til ísl. lögfræði. Og ég firrtist ekki, þótt blað stjórnarinnar telji mig óhæfan kennara. En ég bjóst jafnvel við, að núv. dómsmrh. mundi fá að sinni skoðun hæfari mann í embætti mitt og leysa mig frá því. En ekki hefir úr því orðið ennþá. Síðan hefi ég m. a. s. tekið sæti í Hæstarétti í máli einu, sem ríkisstj. stóð að, og komst þar að niðurstöðu, sem var þvert ofan í vild núv. dómsmrh., og taldi mér skylt að birta þessa niðurstöðu mína, af því að ég áleit, að meðdómarar mínir hefðu ekki komizt að réttri niðurstöðu í málinu. En þrátt fyrir allar þessar sakir lafi ég þó enn, og er þetta sýnilegur vottur þess, að stj. telur sig verða að fylgja þeirri reglu, að setja háskólakennara ekki af nema fyrir mjög grófar sakir, og setja hann þá fyrst af um stundarsakir, en höfða síðan mál á hendur honum til að hafa fyrirgert stöðu sinni. Annars má segja það um mann, sem svo er þreklaus, að hann dæmir ranga dóma, af því að hann er hræddur um að missa embætti sitt, að því fer fjarri, að tryggt sé, að hann dæmi eftir sannfæringu sinni, þó að hann sé ekki afsetjanlegur. Það er ósköp hætt við, að óttinn við óvinsæld, ekki sízt óvinsæld af hálfu valdhafanna, hafi meiri og minni áhrif á dómsniðurstöður svo veiklundaðs manns, sem ég að vísu ekki skal neita, að geti verið til.

Þá hafði hv. 4. þm. Reykv. það út á lagakennarana að setja, að þeir væru oft ungir menn, og er það rétt hjá hv. þm., að eldri menn hafa meiri lífsreynslu en ungir, en það er líka hætt við, að þeir gömlu séu farnir að stirðna og hættir að fylgjast með, af því að þeirra andlega lífsafl er minna. Ég skal ekki lasta ellina, og til þess að róa hv. 1. þm. S.-M. skal ég gjarnan taka undir það, að gamlir menn athuga einatt betur gang sinn en ungir, en ég verð þó að segja það, að ekki ætti að vera til spillis, þótt nokkuð ungir menn á góðu reki gætu átt sæti í réttinum með mönnum, sem e. t. v. væru orðnir töluvert fullorðnir. Ég get viðurkennt, að það eru fjölmargir menn með það góða líkams- og sálarkrafta hálfsjötugir, að þeir geta prýðilega gegnt dómstörfum. En það getur verið gott að fá nýtt blóð í réttinn í stórum og vandasömum málum. Þessi mótbara hv. 4. þm. Reykv. varðar ekki einungis það, að lagaprófessorar séu aukadómarar, heldur líka, að þeir séu varadómarar, því, að þótt mál séu færð, þar sem þeir eru varadómarar, þá getur það verið alveg eins mikilsvert malefni. sé ekki hægt að trúa þeim fyrir því að taka sæti sem aukadómarar, þá er ekki heldur hægt að treysta þeim sem vardómurum. Hv. 4. þm. Reykv. hefði því verið samkvæmastur sjálfum sér, ef hann hefði líka lagt til, að það yrði fellt niður. Það er álit hv. 4. þm. Reykv. og ein höfuðástæðan, að kennarar lagadeildar væru ekki hæfir að skipa sæti í æðsta dómstóli landsins, þar sem þeirra hlutverk væri að gagnrýna lögin, en hlutverk dómstólanna væri að dæma eftir lögunum. Hér get ég ekki verið hv. þm. sammála. Hlutverk háskólakennara í lögum er fyrst. og fremst að skýra fyrir nemendum sínum, bæði munnlega og skriflega, hvað felst í lögunum, hvaða reglur þau hafa að geyma um hvert það efni, sem heyrir undir hans fræðgrein. Svo er það og hlutverk kennara í guðfræði að skýra ákveðna texta, t. d. heilaga ritningu og finna út, hvað er satt og rétt í hverju efni. Lagaprófessorar geta auðvitað vakið athygli nemenda sinna á því, að eitthvert lagaákvæði sé óheppilegt og rekist á önnur lagaákvæði o. þ. h., en aðalhlutverkið er þetta, og aðalhlutverk kennara og dómara er hið sama. Dómarinn á líka að rannsaka, hvað séu lög um ákveðið efni, og hann á auðvitað ekki að fylgja einhverri ákveðinni skoðun eða skilningi blint, heldur hafa opin augun að velja þann skilning, ef um marga er að ræða, sem réttlátastur verður og hentugastur um samskonar atvik í framtíðinni. Ég gæti ekki skilið það, þótt einhver segði mér það t. d., að hv. 4 þm. Reykv. væri óhæfur til að gegna prestsembætti, af því að hann hefði verið guðfræðiprófessor við Háskóla Íslands í mörg ár. En mér skilst þó, að hér sé nokkuð svipuðu saman að jafna. Presturinn á vitanlega að inna siðsamlega og sómasamlega af hendi þau störf, sem löggjöfin felur honum. Hann á að fara eftir handbók þjóðkirkjunnar, þegar hann grefur, messar, skírir og giftir, og guðfræðiprófessorinn getur þó vel í sínu starfi hafa gagnrýnt þetta og talið það ekki rétt að öllu leyti. Einnig gæti hann sagt sem svo, að þjóðkirkjan heldi fram þessari og þessari kenningu, og aðrir heldu fram hinu gagnstæða, og svo rakið fyrir nemendum sínum hvorttveggja. Þótt hann gerði þetta í kennarastóli, þá get ég ekki skilið, að honum sé ekki trúandi fyrir að ganga upp í predikunar stól í kirkjum landsins og halda þar ræðu fyrir fólki, halda þar fram kenningum, sem gagn- og sómasamlegar mættu teljast. Ef það er rétt, sem hv. 4 þm. Reykv. segir, að búast megi við, að oft a. m. k. veljist í þessar stöður skarpleika- og gáfumenn með nokkurri þekkingu, þá verður það heldur ekki mótmæli gegn því, að þeir gætu í viðlögum tekið sæti í æðsta dómstóli landsins. (MJ: Ég átti við sem dómarar, en ekki sem varadómarar). Það rekst dálítið á hjá þm. að telja þá óhæfa sem aukadómara, en vel hæfa sem varadómara. Ég skal endurtaka það, til þess að fyrirbyggja allan misskilning, að frá mínu sjónarmiði er það alveg rétt, þótt ég hafi verið að hrekja rök hv. samþm. míns, að 5 fastir dómara séu í réttinum, þótt ég álíti, að þetta, að taka aukadómara, sé til bóta frá því, sem nú er. (MJ: Ég taldi það eina kostinn við frv., og það væri þó framför). Ég verð að segja, að mér virtist hv. 4. þm. Reykv. taka nokkurnveginn með annari hendinni það, sem hann gaf með hinni. (MJ: Það gerir þessi hv. þm. líka).

Ég held, að ég sé í aðalatriðum búinn að ræða um bæði það, sem hv. þm. Barð. sagði í sinni ræðu, sem var stutt, og eins það, sem hv. 4. þm. Reykv. tók fram í sinni ræðu, sem var löng — óþarflega löng. Hv. 4. þm. Reykv. er svo tölugur maður og svo langorður, að það má vel vera, að mér hafi þá gleymzt eitthvað af því, sem hann sagði og þörf hefði verið að athuga, annaðhvort til andmæla eða stuðnings, en ég man ekki fleira.