12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 854 í C-deild Alþingistíðinda. (3795)

15. mál, fimmtardómur

Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Hv. 4. þm. Reykv. minntist ekkert svo ég muni á brtt. þær, sem meiri hl. allshn. flytur. (MJ: Ég gleymdi þeim alveg. Ég skal gera það næst). Ég bjóst jafnvel við, að hann myndi fallast á þær eins og þær eru, en það er e. t. v. misskilningur. (MJ: Já, algerður). Hinsvegar talaði hann mikið um sínar eigin brtt. eða réttara sagt út af þeim; því að mikið af því, sem hann sagði, snerti alls ekki málið.

Fyrsta brtt. hans gengur út á það, að breyta nafninu á réttinum frá því sem er í frv. Ég sé ekki neina bót í því að taka upp nafnið landsdómur í stað fimmtardómur. Og einkennileg rökfærsla fannst mér það, er hann sagði, að landsdómurinn væri ómerkilegur dómur. Það má vel vera, að svo sé. Hann hefir aldrei starfað og því engin reynsla fengin um það, hvernig hann myndi reynast. En hið einkennilega var að taka nafnið af ómerkilegasta dómnum og setja yfir á virðulegasta dómstól þjóðarinnar, en taka svo aftur nafnið af æðsta dómstólnum í fornöld og setja yfir á þennan ómerkilega dóm, sem að áliti hv. þm. ætti helzt að breyta eða fella alveg í burtu. Ég sé ekki, að þetta landsdómsnafn hafi neitt til síns ágætis. Ég er farinn að kunna betur við fimmtardóm. Hinsvegar er þetta nafn ekkert stóratriði í mínum augum.

Hv. þm. vildi helzt hafa tölu dómenda ekki minni en 5 og í því sambandi tók ég eftir, að hann fór ekki alveg rétt með, þegar hann rakti það, hvernig Jón heit. Magnússon forsrh. hefði rökfært sína afstöðu til þessa mals. Ég veit til þess, að síðast, þegar hann tók afstöðu til þessa máls — hann breytti henni nú nokkuð oft —, var hún að lokum sú, að engin ástæða væri til að hafa dómarana fleiri en 3, og það var ekki sparnaðurinn, sem því réð. Ég álít, að mjög erfitt sé að fá 5 manna dómstól hér, skipaðan verulega hæfum mönnum. Það er af ýmsum ástæðum erfitt að fá verulega hæfa dómara hér. Gagnvart þeim, sem eru eitthvað í stjórnmálalífinu, er það eins og að grafa þá og taka þá frá því sviði, sem þeir kæra sig frekar um að vera á. Í öðru lagi eru launakjör dómara nú, og verða eftir þessu frv., ekki betri en svo, að menn, sem ekki geta haft nein aukastörf með höndum, verða ekki ofsælir af heim. Ég býst því ekki við, að okkar beztu lögfræðingar vilji sækjast eftir því.

Í öðu lagi var rangt hjá hv. þm., að það skipulag, sem frv. fer fram á, að prófessorarnir séu notaðir sem dómarar, tryggi ekki dómnum góða krafta. Ég álít, að það sé einmitt tryggt, að þar höfum við venjulega okkar færustu lögfræðinga, bæði hvað snertir lagaþekkingu og annað. Það getur vel verið, að það þurfi ekki að fara saman, að maðurinn sé duglegur og góður kennari og fræðimaður, og að hann sé hæfur til að vera dómari. En það er þó alltaf mikils virði fyrir dómara að hafa sem mesta þekkingu. Það er nú þannig hér á landi, að lögfræðingar hafa ekki ráð á því að stunda neina fræðimennsku, nema þeir sitji í prófessorsembættum. Er því í þessu fólgin trygging fyrir því, að þarna verði alltaf á að skipa hinum lærðustu mönnum ásamt hinum föstu dómendum, sem fyrir eru. Það er því ekki einungis sparnaðaratriði frá minni hálfu að telja þetta fyrirkomulag heppilegt.

Hv. 2. þm. Reykv. svaraði allnákvæmlega þeim aths., sem hv. 4. þm. Reykv. gerði við það fyrirkomulag í frv., að ákveða skuli í hvert skipti, hvort aukadómarar skuli tilkvaddir. Þarf ég því ekki að orðlenga um það.

Þá er eitt atriði í brtt. hv. 4. þm. Reykv., sem þeir flokksbræðurnir og samþm. er sammála um. Það er að fella burt úr frv. ákvæði um niðurfelling hæstaréttar. Eins og ég tók fram við 2. umr. þessa máls, álít ég, að þetta sé algert aukaatriði. Ég hefi einungis heyrt eina ástæðu borna fram fyrir því, að sérstök þörf sé á að fella niður þessi ákvæði, og það er, að með þessu verði sett vont fordæmi. Ég álít þá ástæðu einskisvirði, því að vitanlega getur löggjafinn alltaf gert það, sem honun sýnist við stofnanir þjóðfélagsins innan þeirra takmarka sem stjskr. setur. Hitt er vitanlega rangt, sem hv. 4. þm. Reykv. var að tæpa á, að hér væri um stjórnarskrárbrot að ræða, enda leiddi hv. 2. þm. Reykv., sem er miklu lærðari á þessu sviði en hinn hv. þm. engin rök að því, að svo væri. (EA: Ég minntist ekki á það). Mig minnir, að hv. þm. minnast eitthvað á það, en hann leiddi engin rök að þessari kenningu. Ég býst þó við, að hann hefði beitt þeirri röksemd, ef til væri, því að hann vill gjarnan þessi ákvæði frv. feig. Það hefir hann sýnt bæði nú, og þegar hann gerði það að skilyrði fyrir fylgi sínu við frv., að þessi ákvæði væru numin burt.

Það er hér ein till., sem mér þykir mjög einkennileg, og hv. 4. þm; Reykv. hefir tekið upp eftir þm. úr Ed. Það er að skylda dómsmrh. til þess, að veita leyfi til afrýjunar. Ég skil bara alls ekki þessa aðferð við lagasetningu, að fara að fyrirskipa stj. að gefa leyfi til að framlengja slíkan frest. Það verður vitanlega að fara í hverju einstöku tilfelli eftir því; hvort ástæður eru fyrir hendi. Fyrst er settur afrýjunarfresturinn í lögin og til þess ætlazt, að menn yfirleitt noti sér hann og þurfi ekki að komast í eindaga.

Hinsvegar er höfð opin leið til þess að ráðh. geti veitt undanþágu, en það verður vitanlega að vera einhver ástæða til þess, og hann á alls ekki að gera það þar sem hefir verið um að ræða trassaskap hlutaðeiganda. Ég sé ekkert, sem mælir með því að veita t. d. áfrýjunarfrest í máli, sem er svo lítilsvirt, að enginn vinningur er að fá það fyrir æðsta dómstólinn. Verður það þá aðeins til þess að auka þrætur og kostnað. Það mál, sem kunnugt er, að haldið er til streitu eingöngu af þrætugirni.

Hv. 2. þm. Reykv. minntist nokkuð á till. meiri hl. allshn. um það að breyta niðurl. 8. gr., og reyndi að leiða rök að því, að niðurl. væri ekki til miska, enda þótt ég ekki tæki eftir, að hann benti á neitt við það fyrirkomulag, sem nú er í frvgr. sjálfri, sem væri til bóta. Við höfum tekið upp í brtt. okkar það ákvæði, sem áður var í frv. og er í samræmi við reglugerð frá 1924, um skiptingu starfa með ráðherrunum, að veitingu aðaldómara skuli taka til meðferðar á ráðherrafundi. Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þetta væri eiginlega að mér skildist ekkert annað en að þarna yrði rabbað um þetta fram og aftur. Eins og ég tók fram, fer þetta vitanlega algerlega eftir því, hvernig það ráðuneyti, sem þá situr, hagar sínum vinnubrögðum. Ef það er vant að taka ákvarðanir á ráðherrafundum og lata meiri hl. ráða, þá verður vitanlega þeirri reglu fylgt. En ef ráðuneytið fylgir aftur á móti ekki slíkum reglum, heldur talar einungis um málin á þessum fundum og lætur annars hvern ráðherra vera sem frjálsastan, þá koma ráðherrafundirnir líka til að hafa mjög litla þýðingu í þessu efni. En hvort vér ákveðum, að forsrh., sem í því einstaka tilfelli er ekki dómsmrh. eða dómsmrh., sem ekki er jafnframt forsrh., sendi till. um veitinguna, finnst mér í raun og vera ekki skipta nokkru máli, því að ekki er neitt sagt um leið, hvort sú till. á að vera eftir höfði forsrh. eða dómsmrh. eða meiri hl. í ráðuneytinu. Þarna er bara verið að ganga inn á alveg óvanalega braut. Það er verið að ákveða, að ráðh. eigi að fara að gera till. til konungs um mál, sem heyrir undir annan ráðh. Yfirleitt er gert ráð fyrir því, að hver ráðh. geri till. til konung um þau mál, sem undir hans starfsflokk heyra. Þau eru sundurliðuð í reglugerðinni, og mér sýnist t. d. eins mikið vit í því, að forsrh., en ekki dómsmrh. geri till. til konungs um náðun, hvert ráðuneytið, sem hann hefir á hendi. Það er bara hið formlega brot, sem mér finnst vera á þessu.

Hv. 2. þm. Reykv. sagði, að þarna væri ekkert spurt um, hver nöfn væru á ráðherrunum. Ég vona líka, að svo sé ekki, en ég hefi fulla ástæðu til að ætla, að margir af þeim, sem fylgja þessari till., hafi svona í og með litið svo á, að það væri hægt að skoða þetta sem móðgun við núv. dómsmrh., enda sagði einn hv. þm. í Ed. beinlínis, að þetta væri vantraustsyfirlýsing á hann. Þetta hefir enga raunverulega þýðingu í sjálfu sér, því að þetta fer allt eftir hinum venjulegu vinnubrögðum ráðuneytisins. En þetta er formsbrot, ný aðferð, sem aldrei hefir verið tekin upp, að fara að róta svona til störfum ráðherranna (MG: Af hverju er þetta gert?). Það getur víst hv. 2. þm. Skagf. sagt sér eins vel og ég; hann er miklu kunnugri hugum þeirra manna, sem með till. stóðu en ég. (MJ: Var það ekki einn af flokksbræðrum hv. þm., sem bar hana fram?).

Annars sé ég ekki ástæðu til að fara meira út í það, sem hv. 2. þm. Reykv. sagði. En eitt atriði minntist hv. 4. þm. Reykv. á og fór óvirðulegum orðum um, en það var félagsskapur málaflutningsmanna. Hann benti á, að hægt væri að fyrirskipa kaupmönnum, slátrurum og skóurum að hafa með sér félagsskap, og má það satt vera, en það er nú hvergi gert. Hitt er aftur alvanalegt í öðrum menningarlöndum að fyrirskipa svona félagsskap, og hann er talinn nauðsynlegur og góður. Það er satt, að þetta eru í rauninni ekki embættismenn, en þó er þeim veitt sérstakt leyfi og látnir greiða fé fyrir. Og einmitt vegna þess, að þetta eru ekki embættismenn, sem eru sérstaklega háðir eftirliti æðri embættismanna, þá er sérstök ástæða til að setja ákvæði fyrir starfsemi þeirra, og gæti það haft þá þýðingu, að þeir ræktu betur störf sín. Ég hefi trú á þessum félagsskap. Ég þekki dæmi þess, að málaflutningsmaður hefir gefið reikning fyrir störfum sínum, sem var beinlínis óhæfilega þar, og er í slíkum tilfellum mikið undir því komið fyrir stéttina sjálfa að hafa leyfi til að taka fram fyrir hendur slíkra stéttarbræðra og ákveða þóknunina, eins og ákveðið er í frv. Hv. 4. þm. Reykv. var að hæðast að því, að það væri tekið fram í lok þessarar sömu gr., að ágreining út af þessu mætti bera undir dómstólana. Þetta háð hv. þm. stafar eingöngu af vanþekkingu hans á lögum. Í þessu er vitanlega ekkert ósamræmi, vegna þess að það er tekið fram í gr., að stj. félagsins skuli ákveða þóknunina, en þá þarf að ákveða, hvort sú ákvörðun á að vera endanleg, eða hvort æðsti dómstollinn skuli skera úr því. Annars minnir mig, að þessi brtt. hafi verið borin fram af hv. 2. þm. Reykv. (EA: Það er alveg rétt, en hún var felld þá, en samþ. þegar hv. þm. Barð. bar hana fram). Hún breyttist mikið, þegar ég bar hana fram. Annars skal ég ekki eltast við vaðalinn í hv. 4. þm. Reykv. það hljómar dálítið einkennilega að heyra hann tala um hundavaðshátt og fljótfærni í bókagerð og öðru. Mér finnst svo mikið af hans eigin orðum fara fyrir ofan garð og neðan, án þess að koma nálægt málefninu, sem um er að ræða, að menn freistast til að halda, að hann sé að leika sér að því að halda uppi málþófi, ef honum er þá sjálfrátt með vaðalinn.