31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 176 í D-deild Alþingistíðinda. (3798)

251. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Flm. (Jón Þorláksson):

Hv. dómsmrh. beindi þeirri fyrirspurn til mín, hvort ég áliti ekki, að þessi n. ætti líka að gera rannsókn um niðurfærslur á útgjöldum hjá stofnunum eins og Eimskipafélaginu, sem er sjálfstæð stofnun og nýtur styrks úr ríkissjóði. Ég vil leiða athygli að því, að eins og till. er orðuð, þá mundi n. verða óhægara um rannsókn á slíkum stofnunum heldur en eiginlegum ríkisstofnunum, nema að því leyti, sem það gæti orðið með góðu samkomulagi við þessar stofnanir sjálfar, því þessari n. er ekki ætlað vald samkv. 35. gr. stjskr. til að heimta skýrslur af einstökum mönnum og stofnunum. Að öðru leyti verður það á valdi n. sjálfrar, hvað langt hún fer. En mér þykir sennilegt, að þeir hv. þm., sem efast um, að n. muni komast verulega langt áleiðis í sínu eiginlega verkefni fyrir þinglokin, muni ekki telja rétt, að hún slái kröftum sínum á dreif með því að fara út fyrir sitt eiginlega verkefni. Ég verð að segja það, að mér eru það afarmikil vonbrigði, að stjórnarfl. ætlar að vísu að samþ. till. í þessari d., en ætlar að setja sig á móti samþykkt samskonar till. í Nd. Ég segi eins og er, af því að ég vil í síðustu lög gera andstæðingum mínum upp hvatir, sem ekki þola dagsbirtuna, að ég á afarerfitt með að skilja afstöðu þá, sem stjórnarfl. hefir tekið til þessa máls, fyrst með því að vísa 5 manna n. frá afgreiðslu í Sþ. án nokkurrar ástæðu eða raka, og svo að taka þá afstöðu að vilja að vísu kjósa 3 menn í n. í þessari hv. d., en setja sig á móti því, að hin d. leggi n. til starfskrafta. Ég er hræddur um, að þessi andstaða stjfl. stafi að einhverju leyti af því alkunna fyrirbrigði að þeim sömu mönnum, sem hafa reist einhverjar byggingar, er sérlega erfitt að ljá hendur til þess að rifa þær niður eða breyta þeim, jafnvel þótt aðkallandi nauðsyn sé til þess. Mér finnst þessi ákafa viðleitni stjórnarfl. til að koma í veg fyrir, að andstæðufl. stj. fái vald til að leggja hér hönd að verki, verði að skiljast sem andúð byggingarmeistarans móti því, að aðrir komi og hrófli spilaborgunum þeirra. Mér finnst þetta af því, að ég vil ekki gera ráð fyrir, að hvatirnar séu lakari en þetta, sem þó náttúrlega gæti hugsazt.

Hæstv. fjmrh. er að reyna að verja þá fáránlegu skoðun, að n. muni því minna geta gert, sem nefndarmenn eru fleiri. Hvernig stendur á því, að þetta þing hefir þann fasta sið að hafa þær n. fjölmennastar, sem mest hafa að starfa, það er fjvn.? Það er af því, að gert er ráð fyrir, að í fjölmennum n. sé hægara að skipta verkum milli nm. en í fámennuni n. Í 3 manna n., þar sem hver flokkur hefir aðeins einn fulltrúa, má teljast ógerningur að skipta verkum um nokkur þau atriði, sem allir flokkarnir þættust þurfa að vinna að. Í 5 manna n. mætti í ýmsum tilfellum tví-þrískipta verkum milli nm. Sú fjölmenna n. getur, ef nokkurt lag er á vinnubrögðunum, farið yfir tvöfalt til þrefalt meira verk en sú fámenna 3 manna n., sem nú getur orðið kosin hér. Ég skil ekki þá andstöðu móti því, að þingið gengi að þessu nauðsynjaverki í tíma eða sem fyrst á þingtímanum. Andstaðan er mjög áberandi, og mér þykir það afarleiðinlegt, að fjmrh., sem er sá eini í hæstv. stj., sem ekki hefir stóran bagga af gömlum syndum, skuli vera talsmaður fyrir þessum úrtölum. Ég vil taka það skýrt fram, að með mínum undirtektum viðvíkjandi fyrirspurn hæstv. ráðh. hefi ég gengið ákveðið og eindregið út frá því, að shlj. till., sem flutt er í Nd., fengi einnig að koma til umr. og atkvgr. þar og samþ. þar eins og hér. Auðvitað liggur það mál ekki fyrir hér undir þessum dagskrárlið, ekki fremur en skipun mþn., sem hæstv. ráðh. talaði um. Ég fyrir mitt leyti get látið hér við sitja og felli mig við það, að þessi till. komi til atkv. og væri æskilegast, að sú n., sem þessi d. ætlar að kjósa, fæddist á þessum fundi.