31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (3800)

251. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Mér kemur það á óvart, að hv. 1. landsk. gengur út frá því, að samþ. verði till. í báðum d. Ég hefi sagt honum frá því áður í samtali, að það væri ekki mín tilætlun eða þess flokks, sem ég er í. Þetta hefir hann vitað áður en hann svaraði. Hv. þm. talaði um ákafa viðleitni okkar til að koma í veg fyrir, að andstöðuflokkarnir fái það vald, sem hér er farið fram á. Þessi viðleitni er nú ekki ákafari en það, að ég mæli með, að hans till. verði samþ. og að skipuð verði n., sem á að hafa sama verkefni og sama vald, sem hann óskar eftir. Ég og minn flokkur hefir sýnt góðan vilja í samstarfi í þessu efni, og eins og það gengur til hér á þinginu, þá er það ekki venjulegt, að slíkt samstarf hefjist, þegar um mikið deilumál er að ræða.

Hér hefir verið gengið hreinlega til verks og virðist hafa orðið samkomulag, svo varla er annað eftir en að samþ. till. og kjósa n. og láta hana ganga að verki.