12.05.1932
Neðri deild: 73. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 894 í C-deild Alþingistíðinda. (3807)

15. mál, fimmtardómur

Héðinn Valdimarsson:

Við Alþýðuflokksmenn höfum verið fylgjandi fimmtardómsfrv. frá því að kom fram, því að við hofum viljað gera þær réttarfarsumbætur, sem í því felast. Nú hefir frv. tekið stakkaskiptum í efri deild á þann hátt, að tveir „framsóknar“menn hafa smeygt inn í það því ákvæði að taka af dómsmrh. mál, er eftir eðli sínu heyrir undir ráðuneyti hans. Nú er það kunnugt, að á þennan hátt hefir tvennu verið blandað saman. Annarsvegar er efni frv. og hinsvegar það, hvort Alþingi ber traust til núv. dómsmrh., því það var vitanlegt, að tilgangurinn með þessari breyt. var sá einn að lýsa vantrausti á hæstv. dómsmrh.

Nú horfir mál þetta því öðruvísi við en í byrjun þings, þar sem ekki er annað sýnt en það geti valdið stjórnarskiptum.

Við Alþýðuflokksmenn erum andstæðingar núv. stj. og höfum verið það á undanförnum þingum. Við erum því ávallt fúsir að lýsa vantrausti á hana alla eða einstaka ráðh. En við álitum réttara að gera það hreinlega og koma með beina vantraustsyfirlýsingu heldur en að læða því inn í einstakar gr. í þessu frv. Ég vil því leyfa mér að bera fram rökst. dagskrá frá fulltrúum Alþýðufl. í þessari hv. deild, svo hljóðandi:

„Þar sem vitað er, að tilgangurinn með ákvæðum þeim í fimmtardómsfrumvarpinu, sem nú liggur fyrir, er lúta að veitingu fimmtardómsembætta, er sá einn að lýsa vantrausti á núverandi. dómsmálaráðherra, en hreinlegra þykir, að það vantraust komi fram í almennri, greinilegri yfirlýsingu, ályktar deildin að lýsa vantrausti á núverandi dómsmálaráðherra og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.

Það er ekki gott að segja, hvernig atkvgr. fer um dagskrá þessa. Vér höfum nokkra von um, að sumir „framsóknar“menn muni líta á hana með velvilja, og þá, ef hún verður samþ., höfum vér von um, að aðrir „framsóknar“menn muni einnig líta með velvilja á væntanlegt vantraust, sem ver munum þá flytja á þá ráðh., sem eftir eru.