14.05.1932
Neðri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 895 í C-deild Alþingistíðinda. (3814)

15. mál, fimmtardómur

3814Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Það er kunnugt, að þegar hin svo kallaða rökst. dagskrá, sem mun nú eiga að koma fyrst til atkv., var borin fram í lok umr. um þetta mál í fyrrakvöld, voru allir, sem tekið höfðu þátt í umr., dauðir, og urðu því engar umr. um till. Umr. um efni málsins er því lokið, en ég mun aðeins gera aths. um þingsköp í sambandi við þessa svo kölluðu rökst. dagskrá. Ég tel æskilegt og vil hér með bera fram þá ósk, að forseti gefi annað hvort úrskurð um það, hvort hún er svo þingleg, að hún geti komið til atkv., eða bæri það undir d. Það mun sumum þm. kunnugt, að árið 1923 var lík till. borin upp í Sþ. af þáv. þm. Árn., Eiríki Einarssyni, en forseti Sþ., Magnús heit. Kristjánsson, neitaði að láta till. koma undir atkv. vegna þess, að hún væri ekki borin fram á formlegan hátt og óviðkomandi því máli, sem þá var til umr. Með leyfi hæstv. forseta vil ég lesa upp till.: „Með því að Alþingi treystir ekki stjórn þeirri, er nú fer með völd í landinu, telur það ekki gerlegt að fela henni málefni þetta, sem vissulega er ábyrgðarmikið og mikilsvert, og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“. —- Málið var um strandgæzlu og björgunarskip. En forseti sagði, að þar sem þessi till. væri ekki borin fram á formlegan hátt og væri óviðkomandi málinu, yrði hún ekki borin undir atkv., og þótt þáv. forsrh. (SE) óskaði eftir því, að vantrauststill. kæmi undir atkv., neitaði forseti því algerlega. Ég álít af ýmsum ástæðum ekki þinglega. rétt að láta till. eins og þá, sem hér liggur fyrir, koma undir atkv., hvað sem öðrum kann að finnast um það. Í fyrsta lagi er rökstuðningur till. þannig vaxinn, að hann kemur í bága við rétta hugsun. Það kemur í bága við rétta hugsun að staðhæfa, að gr. eða ákvæði í frv. sé vantraust á sérstakan persónulegan ráðh., enda þótt í þeim felist einhver breyt. á verkaskiptingu innan ráðuneytanna. Það er hægt að segja og ætla slíkt og gefa flm. slíkar hvatir, en það er ekki hægt að rökstyðja þinglega till. með slíkum fullyrðingum. Það liggur í augum uppi, að hvort sem það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv., yrði samþ. eða ekki, þá getur enginn um það sagt, gagnvart hvaða ráðh. eða manni slíkt mundi koma. Það er allt á huldu um slíkt. Í öðru lagi er, eins og ég sagði aðan, fordæmi fyrir því, að forseti Sþ. hafi talið óformlegt og óviðkomandi einstökum málum að bera fram rökst, dagskrá sem vantrauststill. og virðist engin ástæða til að víkja frá því fordæmi. Loks má benda á það, að við atkvgr. um till. geta einstakir þm. orðið í miklum vanda, því vel má hugsa sér, að þm., sem samþ. vill vantraust á hæstv. dómsmrh., vilji ekki hefta framgang fimmtardómsfrv. Sá þm. væri því í raun og veru bæði með og móti till. og hlyti því að óska þess, að till. kæmi ekki til atkv.