31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 183 í D-deild Alþingistíðinda. (3826)

252. mál, niðurfærsla á útgjöldum ríkisins

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Samskonar till. var flutt í Sþ. og var vísað frá atkv. með úrskurði forseta Sþ. 21. þ. m. Vil ég ekki fara mikið út í það, hversu réttur sá úrskurður hafi verið; þó vil ég láta það í ljós, að ég tel hann hafa verið vafasaman, ef ekki rangan. Verð ég að harma það, að slíkum brögðum skuli vera beitt til að hindra framkvæmdir á starfi því, sem till. fer fram á. Eru nú farnir til einskis margir dagar, sem n. hefði getað notað til starfs. — Vona ég, að Alþingi geti fallizt á þessa leið, sem nú er farin, að flytja till. í báðum deildum. Í Ed. hefir verið samþ. að skipa 3 manna n., en hér er farið fram á 5 manna n. Verði þetta samþ., vinna nefndirnar væntanlega saman. Vil ég ekki orðlengja þetta eða valda því, að umr. verði óþarflega langar. Vona ég, að hv. d. sýni till. þá velvild, sem nauðsynleg er til þess að árangur geti orðið og n. tekið til starfa strax.